Söluskattur
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. frsm. að ég ritaði undir þetta með fyrirvara og það geri ég vegna þess að hér var mikið og hart barist fyrir því að setja á undanþágulaust söluskattskerfi á síðasta þingi. Nú bregður hins vegar svo við að fulltrúi fjmrh. er látinn flytja hér frv. um að brjótast út úr þessu undanþágulausa kerfi og því er ég algjörlega mótfallinn. Ég tel að þar með séum við að taka ákveðið fordæmisskref sem verði erfitt að snúa af og vil benda á að það væri jafnvel öllu nær að veita þá undanþágur til alls kyns hjálpartækja til aðstoðar blindum og heyrnarlausum eða einhverjum slíkum hópum. Það má eins minna á fsp. sem hv. 1. þm. Vesturl. var hér með á þingi fyrr í vetur um að fella niður söluskatt af flotgöllum og björgunargöllum fyrir sjómenn og væri það vissulega jafnþarft mál ef ekki þarfara en þetta tiltekna mál hér, enda tel ég að ef þarf að fella þessi gjöld niður af t.d. þessari grein þá væri öllu nær að gera það í einhvers konar endurgreiðsluformi en að brjóta upp undanþágulausa söluskattskerfið. Í sjálfu sér er ég hins vegar ekkert á móti því að styðja þessa grein, grænmetis --- ef kalla má þetta grænmetisiðnað eða eitthvað slíkt. Þess vegna hef ég ritað undir þetta með fyrirvara.