Dýralæknar
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Frsm. landbn. (Alexander Stefánsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 1091 með brtt. á þskj. 1092. Það er um frv. til laga um breytingar á lögum nr. 77 1. október 1981, um dýralækna, með síðari breytingum.
    Efri deild hafði gengið frá málinu og samþykkt frv. óbreytt eins og það var lagt fram.
    Hins vegar kom í ljós við yfirferð landbn. Nd. að það hafði orðið mikil yfirsjón í sambandi við samningu þessa frv., í landbrn. væntanlega, þar sem í ljós kom að ekki hafði verið tekið tillit til breytinga á þessum lögum sem gerðar voru 1985, þ.e. laga nr. 61 1985, þar sem að hluta til var sett inn með þeirri lagabreytingu það sem er í þessu frv.
    Nefndin fjallaði um frv. og fékk á sinn fund Pál A. Pálsson yfirdýralækni sem m.a. benti á þennan ágalla frv. Nefndin fór í það að bera þetta nákvæmlega saman og það varð að sjálfsögðu niðurstaðan að þarna höfðu orðið mistök sem bæði má rekja til landbrn. og einnig til hv. landbn. Ed. og Ed. sem afgreiddi þetta mál athugasemdalaust.
    Nefndin mælir með samþykkt frv. með þeim breytingum sem fluttar eru á sérstöku þingskjali. Breytingar þessar eru gerðar að höfðu samráði við yfirdýralækni og því til viðbótar lögskýringamenn hér í hv. Alþingi.
    Undir þetta nál. skrifa auk frsm. Guðni Ágústsson, Jón Sæmundur Sigurjónsson, Pálmi Jónsson, Ingi Björn Albertsson, Þórður Skúlason og Eggert Haukdal.
    Breytingarnar á þskj. 1092 eru í stuttu máli þannig að í sambandi við 1. gr. frv. kemur í ljós að eins og hún er sett upp eru bæði b.-liður og c.-liður óþarfir því að efni þeirra er í lögum frá 1985, nr. 61 eins og áður sagði. Nefndin leggur til að 1. gr. orðist svo:
    ,,Við 2. gr. laganna, sbr. l. nr. 69/1982 og l. nr. 61/1985, bætist ný málsgrein er verði 4. mgr. og orðist svo:
    Landbrh. ákveður, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, hvar dýralæknar hafa búsetu.`` Þetta er í raun og veru a.-liður í því frv. sem um er að ræða, en b.- og c.- liðir falla brott og þess vegna verður greinin svo, og síðan þessi nýja mgr.: ,,Landbrh. ákveður, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, hvar dýralæknar hafa búsetu.``
    Önnur brtt. er við upphaf 2. gr., en eins og upphaf þeirrar greinar er í frv. er þar vísað til laga nr. 77/1981 þar sem stendur að forseti skipi yfirdýralækni og héraðsdýralækna og að skipun yfirdýralæknis skuli lengst gilda til sex ára í senn. Þarna var gerð breyting með lögunum nr. 61/1985 þar sem inn kom ,,og dýralækni fisksjúkdóma`` sem hefði fallið út með þessu. Nefndin leggur því til að upphaf 2. gr. orðist svo:
    ,,5. gr. laganna, sbr. 2. gr. l. nr. 61/1985, orðast svo: ,,Forseti skipar yfirdýralækni, héraðsdýralækna og dýralækni fisksjúkdóma. Skipun yfirdýralæknis skal lengst gilda til 6 ára í senn.`` Síðan heldur greinin áfram eins og í frv.
    Herra forseti. Ég legg til að þessar breytingar verði samþykktar.