Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Þórður Skúlason:
    Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir til umræðu, frv. til l. um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, er að hluta til gamall kunningi. Eins og ég þykist vita að menn muni þá var þetta frv. lagt fram hér á hv. Alþingi í fyrra og var síðan dregið til baka í tengslum við efnahagsráðstafair ríkisstjórnarinnar fyrir réttu ári síðan. Eins og þetta frv. var þá hafði það verið til umfjöllunar úti í þjóðfélaginu og m.a. í samtökum sveitarstjórnarmanna og á vettvangi sveitarstjórna. Við það frv. eins og það lá þá fyrir kom fram mikil andstaða hjá sveitarstjórnum almennt. Það frv. sem hér liggur fyrir er hins vegar töluvert öðruvísi úr garði gert og raunverulega er á þessum frv. tveimur meginmunur. Þar á ég við í fyrra lagi fjárhagsþáttinn, sem vantaði í eldra frv. en er núna tekinn inn í það frv. sem hér liggur fyrir, um breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga, og þær vega auðvitað mjög þungt eða um 1,4 milljarða kr. Þar er um að ræða framlög sveitarfélaganna til sjúkratrygginganna eða sjúkrasamlaganna, til Atvinnuleysistryggingasjóðsins og framlög til greiðslu á tannlæknakostnaði. Framlög sveitarsjóðanna til þessa verkefnis falla niður með þessu frv.
    Sömuleiðis er í tengslum við þetta frv. jafnframt flutt frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga. Þar er gert ráð fyrir gjörbreytingu á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og er sú breyting raunverulega grundvöllur og forsenda og lykilatriði í sambandi við þetta verkaskiptafrv.
    Raunverulega má líka segja að í sambandi við þessi frv. bæði sé að stórum hluta til dregin til baka sú skerðing sem hefur gilt um framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
    Niðurstaðan af báðum þessum málum er raunverulega málamiðlun. Annars vegar á milli sveitarfélaganna sameiginlega og ríkisins og hins vegar málamiðlun á milli minni sveitarfélaga og stærri sveitarfélaga. Auðvitað er það svo með sveitarstjórnarmenn að þeir eru misjafnlega sáttir við þá niðurstöðu sem hér liggur fyrir en þrátt fyrir það er góð samstaða um málið meðal sveitarstjórnarmanna. Það hefur farið fram ítarleg kynning á málinu meðal þeirra. Málið hefur verið sent til umsagnar öllum sveitarstjórnum og það hefur verið kynnt á vettvangi sveitarstjórna eins og í fulltrúaráði Sambands ísl. sveitarfélaga og dreifbýlisnefnd sambandsins. Mig langar í því sambandi, vegna þess að menn hafa verið með efasemdir um það að þetta frv. mundi þjóna hagsmunum hinna minni sveitarfélaga, að lesa hérna samþykkt er dreifbýlisnefnd Sambands ísl. sveitarfélaga gerði á fundi sínum þann 17. apríl sl., en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Dreifbýlisnefnd Sambands ísl. sveitarfélaga leggur eindregið til að frv. til laga um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og tekjustofna sveitarfélaga með áorðnum breytingum verði samþykkt á yfirstandandi þingi.`` Undir þetta rita Valgarður Hilmarsson, Magnús Sæmundsson, Dagur Jóhannesson,

Gísli Einarsson og Sigurður Hjaltason.
    Þannig liggur það fyrir að einnig fulltrúar hinna minni sveitarfélaga eru ásáttir um þessi frv. eins og þau liggja hérna fyrir.
    Helstu breytingarnar sem þetta frv. felur í sér eru m.a. þær að stofnkostnaður grunnskóla og dagvistarheimila flyst núna til sveitarfélaganna en þau fengu áður framlög frá ríkissjóði til að standa straum af þessum stofnkostnaði eins og mönnum er kunnugt um. Menn hafa haft nokkrar áhyggjur af því að hin minni sveitarfélög ættu erfitt með að standa undir þessum kostnaði en með breytingu á Jöfnunarsjóðnum er lagt til að hin minni sveitarfélög geti fengið framlög til þess að standa undir kostnaðarsömum stofnframkvæmdum úr Jöfnunarsjóðnum eftir þessa breytingu.
    Sömuleiðis er veruleg breyting á rekstrarkostnaðinum. Í fyrsta lagi er gerð sú breyting að heilsugæslustöðvar og rekstrarkostnaður þeirra færist nú yfir til ríkisins. Það hefur lengi verið áhugamál sveitarstjórnarmanna, sérstaklega úti á landi, að ríkið yfirtæki rekstur heilsugæslustöðvanna en hann hefur farið vaxandi á undanförnum árum og það hefur verið erfitt fyrir sveitarfélögin að hafa áhrif á það hvernig þessi útgjaldaliður þróaðist.
    Síðan er það rekstrarkostnaður grunnskólanna. Hann færist að allmiklu leyti yfir á sveitarfélögin fyrir utan launakostnaðinn og er það auðvitað veigamikill þáttur þessa máls.
    Þá er einnig gert ráð fyrir því að tónlistarskólarnir fari yfir til sveitarfélaganna við þessa breytingu. Það eru ýmsir sem hafa haft áhyggjur af því að hin minni sveitarfélög ættu erfitt með að standa undir tónlistarfræðslunni ef þessi breyting næði fram að ganga. Ég held hins vegar að sá ótti sé ástæðulaus vegna þess að það er raunverulega gert ráð fyrir því í tekjustofnalögunum að það fari sérstök upphæð til minni sveitarfélaga til þess að standa straum af tónlistarfræðslunni. Mig langar í því sambandi að vekja athygli á því að lögð hafa verið fram í nefndum þingsins, að ég held, frumdrög að reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og þar kemur fram í 8. gr. þessi yfirlýsing um það að hin minni sveitarfélög eigi að fá fjárhagslegan
stuðning til þess að standa straum að rekstri tónlistarskólanna. Og mig langar til þess, með leyfi forseta, að lesa hér þessa grein, en hún hljóðar þannig:
    ,,Sérstök framlög samkvæmt e-lið 3. gr. skulu veitt þeim sveitarfélögum með innan við 1500 íbúa sem standa að rekstri tónlistarskóla. Framlagið skal miða við allt að 50% af eðlilegum kennslukostnaði. Framlögin samkvæmt þessari grein skulu miðuð við að hagur þessara sveitarfélaga verði ekki lakari eftir verkaskiptinguna heldur en áður var. Heimilt er að bera saman alla þá rekstrarliði sem hér skipta máli og veita aukaframlag til að ná því markmiði.``
    Með þessu tel ég og fleiri sveitarstjórnarmenn að það sé alveg tryggt að fjárhagslegur stuðningur verði veittur hinum minni sveitarfélögum þegar þau yfirtaka

þetta verkefni til sín.
    Síðan hefur sömuleiðis verið uppi ótti um það, kannski fyrst og fremst meðal skólastjóra tónlistarskóla og tónlistarmanna sem hafa kennt við tónlistarskólana, að faglegt eftirlit ráðuneytisins mundi breytast við þessa breytingu, en raunverulega er ekki gerð nein tillaga um það í þessu frv. um verkaskiptingu. Þar er gert ráð fyrir því að eftirlit ráðuneytisins með tónlistarfræðslunni og samræming sé alveg óbreytt frá því sem verið hefur.
    Hins vegar hefur verið lögð fram hér brtt. sem lýtur að því að efla þetta eftirlit enn frekar og út af fyrir sig hef ég ekkert við það að athuga enda hefur það raunar alltaf verið markmið sveitarfélaganna að auka frekar tónlistarkennsluna heldur en að draga úr henni.
    Það má e.t.v. segja að með þessari verkaskiptingu hefði það átt að vera falið sveitarfélögunum í vald að hafa þennan samræmingarþátt á hendi og þetta faglega eftirlit, en sveitarfélagasamtökin hér í landinu eru frekar vanmáttug og þó að það tíðkist annars staðar í nágrannalöndum að sveitarfélögin hafi þennan samræmingarþátt og faglega eftirlitsþátt með höndum, þá er tæpast við því að búast að sveitarfélagasamtökin hér geti það með þeim hætti sem þar gerist. Þess vegna er ekkert við það að athuga að ríkisvaldið annist þennan þátt og ég er sammála því að það sé frekar stutt að því að sá eftirlitsþáttur og fagleg stjórnun verði styrkari af hendi ráðuneytisins en verið hefur. Því tel ég að þessi ótti um framtíð tónlistarskólanna eftir samþykkt þessara frv. sé á misskilningi byggður.
    Hér liggur hins vegar fyrir tillaga á þskj. 1056 frá Kristínu Einarsdóttur og Guðrúnu Helgadóttur um það að þessi kafli um tónlistarfræðsluna falli brott og sömuleiðis sá kafli frv. sem lýtur að því að sveitarfélögin hætti að greiða framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég held að þessi tillaga hljóti að vera á misskilningi byggð, sérstaklega að því leyti til að með þessari breytingu, eins og ég hef hérna lýst og breytingunni á Jöfnunarsjóðnum, þá er þessi fjárhagslegi stuðningur við tónlistarskólana tryggur í hinum minni sveitarfélögum sem mestar áhyggjur hafa verið út af. Sömuleiðis er hitt held ég líka á misskilningi byggt, að fara að blanda Atvinnuleysistryggingasjóðnum inn í þetta vegna þess að það er algjörlega óskylt mál. Ef þessi tillaga yrði samþykkt, ég reikna raunar með því að þetta hafi verið fundið þannig út að þessar upphæðir eru svipað háar í þessu heildardæmi öllu saman en greiðslur sveitarfélaganna til Atvinnuleysistryggingasjóðsins eru raunverulega ekkert í samræmi við það framlag sem þessi sömu sveitarfélög fá til þess að reka grunnskólana eða hlutdeild í launakostnaði ríkisins við rekstur grunnskóla í þessum sömu sveitarfélögum, þannig að þar getur munað mjög verulegum upphæðum. Þarna er því verið að blanda saman ólíkum málum og tillagan óheppileg að því leyti til.
    Það er auðvitað stór þáttur í þessu máli öllu saman hvernig tekst til með uppgjör á ógreiddum ríkishluta,

en skuldir ríkisins við sveitarfélög hafa hlaðist allverulega upp á undanförnum árum. Hér er gerð ákveðin tillaga um það hvernig að því á að standa og er mjög ásættanleg og ég vona að þetta uppgjör geti átt sér stað eins og þar er gert ráð fyrir.
    Breytingin á Jöfnunarsjóðnum er lykilatriði í þessu máli eins og ég sagði og hin minni sveitarfélög fá þaðan framlög bæði til stofnkostnaðar og rekstrarverkefna. Í því sambandi langar mig til þess að vitna í umsögn um þetta frv. sem kemur fram á bls. 17, en þar er einmitt gerð grein fyrir því hvernig nefndin, sem hefur unnið þetta frv., hugsar sér að þessi stuðningur Jöfnunarsjóðsins við hin minni sveitarfélög eigi sér stað. Þar stendur orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin ítrekar fyrri tillögur um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í sambandi við breytingar á verkaskiptingunni. Þar er lagt til að veitt verði sérstök framlög til sveitarfélaganna með þrennum hætti:
    a. Framlög til stofnframkvæmda.
    b. Framlög til reksturs grunnskóla í dreifbýli.
    c. Framlög vegna breyttrar verkaskiptingar.``
    Síðan segir: ,,Nefndin leggur til að upphæð þessara framlaga verði við það miðuð að hagur hinna minni og vanmegnugri sveitarfélaga batni við breytingar á verkaskiptingunni.``
    Ég vek sérstaklega athygli á þessu. Það er gert ráð fyrir því í tengslum við þessa verkaskiptingu að hagur hinna minni og vanmegnugri sveitarfélaga batni við þær breytingar sem verið er að gera.
    Niðurstaða mín er sem sagt sú og raunar margra annarra sveitarstjórnarmanna að við þessa breytingu sem hér er gerð tillaga um að eigi sér stað, þá náist fram mjög verulegur fjárhagslegur ávinningur fyrir hin minni sveitarfélög og þau verði betur í stakk búin til þess að sinna hlutverki sínu sem er þjónusta við íbúana eftir þessa breytingu.
    Ég legg áherslu á það að þetta mál hefur verið mjög vel kynnt í sveitarstjórnum, um það er góð samstaða meðal sveitarstjórnarmanna og ég vonast til að það fái skjóta afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi.