Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Hér er stórt mál komið frá hv. félmn. þar sem er frv. til l. um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það hefur gerst m.a. í nefndinni að gerðar hafa verið breytingar varðandi annað það atriði sem ég gerði að sérstöku umræðuefni við 1. umr. þessa máls hér í deildinni, þ.e. í sambandi við dagvistarstofnanir, faglegt eftirlit og umsjón með dagvistarstofnunum. Þar liggja fyrir tillögur sem eru verulega til bóta í því efni og ég fagna því og þakka nefndinni fyrir að hafa tekið á því máli þó svo ég hefði getað hugað mér enn umfangsmeiri breytingar á þeim málaflokki en það getur beðið síðari tíma og betri tíma og þá í tengslum við heildarendurskoðun eða réttara sagt stefnumörkun um forskólastig sem nú er unnið að á vegum menntmrn.
    Ég vil út af fyrir sig ekki spá neinu um það hvað út úr þeirri stefnumörkun kann að koma varðandi fjárhagslegan þátt þessara mála. En ég hefði ekki talið óeðlilegt að varðandi hann verði farið svipað með forskólastigið frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til að grunnskóli hefst, verði farið hliðstætt og með grunnskólann að því er snertir þátttöku ríkisins í greiðslu kostnaðar þeirra sem standa fyrir fræðslu og uppeldi á því væntanlega skólastigi, forskólastiginu. En þetta er sem sagt til bóta, það sem hv. félmn. leggur hér til um breytingar varðandi dagvistarstofnanirnar og ég ítreka þakkir fyrir það. Ég treysti því að hv. Ed., sem gerði einmitt breytingar í öfuga átt á frv., fallist á þær tillögur sem koma væntanlega frá þessari hv. þingdeild um þetta efni.
    Annar var sá þáttur sem ég ræddi hér við 1. umr. málsins og gerði mjög ákveðnar athugasemdir við og það er málefni tónlistarfræðslunnar, þættir sem hafa verið ræddir m.a. í þessari umræðu af tveimur ræðumönnum, hv. 4. þm. Norðurl. v. og hv. 12. þm. Reykv. sem stendur að brtt. með öðrum í sambandi við þetta mál. Ég hefði kosið að sjá róttæka breytingu á þessu af hálfu nefndarinnar sjálfrar í þá veru sem brtt. er að finna um á þskj. 1056 varðandi fjárhagsþátt málsins og ástæðan er sú ágæta reynsla sem er af því samstarfi ríkis og sveitarfélaga með kostnaðarþátttöku ríkisins sem þar hefur verið og ég hef ekki talið rétt og skynsamlegt að vera að breyta frá þeirri skipan eins og hér liggja fyrir tillögur um.
    Auðvitað er það álitamál hvernig á að haga einstökum þáttum þessara mála, vissulega, og hér er ekki verið að segja síðasta orðið í þeim efnum, það er ég sannfærður um, enda eðlilegt að þessi mál séu til stöðugrar endurskoðunar og endurmats í ljósi reynslu. Ég hef ekki sett mig sérstaklega inn í þann þátt brtt. á þskj. 1056 sem varðar brottfall kaflans varðandi atvinnuleysistryggingar, þ.e. að jafna metin með því að færa það til baka, þ.e. yfirtöku ríkisins á þeim kostnaðarþætti, en ég hef heyrt rök hv. fyrri flm. tillögunnar fyrir þessu og ég tel að það sé mjög eðlilegt að það sé leitast við að jafna þarna metin þó svo að ljóst sé að þetta muni koma eitthvað misjafnt niður á einstökum sveitarfélögum og þyrfti þá

Jöfnunarsjóður eða önnur þau tæki sem varða fjárhagsleg inngrip að taka á því máli verði tillaga þessi samþykkt. Það er hægurinn hjá. Það er annað eins leyft í þessum dæmum eins og það að jafna þarna á milli og því get ég lýst fylgi við þessa brtt. eins og hún liggur fyrir. Ég hef engar áhyggjur af því að það verði til að stöðva þetta mál. Þetta er ekki það stór þáttur sem hér er á ferðinni, og þetta er tiltölulega einföld breyting sem þarna er um að ræða.
    Ég hef hins vegar með fjórum öðrum hv. þm. flutt aðra brtt. sem snertir þetta mál og tónlistarfræðsluna sérstaklega. Sú brtt., sem að standa ásamt mér hv. þm. Kristín Einarsdóttir og hv. þm. Óli Guðbjartsson, Árni Gunnarsson og Guðni Ágústsson, er eins og ég gat um á þskj. 1074 og gerir ráð fyrir því að á eftir 70. gr. samkvæmt frv. komi ný grein sem orðist eins og þar er lagt til. Ég tel rétt að lesa brtt. eins og hún liggur hér fyrir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Í stað 12. gr. laganna (um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla) komi þrjár nýjar greinar svohljóðandi:
    a. (12. gr.)
    Menntmrn. skal hafa með höndum faglega umsjón og eftirlit með starfsemi tónlistarskóla. Ráðuneytið ræður í þessu skyni námsstjóra tónlistarfræðslunnar til fjögurra ára í senn svo og annað nauðsynlegt starfslið.
    Verkefni ráðuneytisins eru m.a.: yfirstjórn námsskrár- og námsefnisgerðar, sbr. 3. tölul. 1. gr., samræming náms, prófa og réttinda er þau veita, aðstoð varðandi ráðningu kennara, ráðgjöf varðandi gerð starfs- og fjárhagsáætlana skóla, upplýsingamiðlun og erlend samskipti.
    b. (13. gr.)
    Ráðuneytið skipar fimm manna samstarfsnefnd tónlistarfræðslunnar til að fjalla í heild um starfsemi tónlistarskóla, samstarf skólanna og/eða rekstraraðila þeirra svo og samstarf tónlistarskóla við grunnskóla og framhaldsskóla.
    Í nefndinni eiga sæti einn fulltrúi tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga, einn fulltrúi tilnefndur af Samtökum tónlistarskólastjóra, einn fulltrúi tilnefndur af Félagi tónlistarskólakennara, námsstjóri tónmennta í grunnskólum, skipaður án tilnefningar, námsstjóri tónlistarfræðslunnar, skipaður án tilnefningar, og er hann jafnframt formaður nefndarinnar.
    c. (14. gr.)
    Menntmrn. setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um starfshætti og verkefni samstarfsnefndar tónlistarfræðslunnar.``
    Þetta er sú brtt. sem ég legg hér til og ég vek sérstaka athygli á því að hún snertir ekki fjárhagslegan þátt þessa máls. Hún snertir tengsl ráðuneytisins, yfirstjórnar menntamála í landinu, við tónlistarskólana og tónlistarfræðsluna í landinu og er, má segja, nokkuð hliðstæð þeirri breytingu sem hv. félmn. er að leggja til varðandi dagvistarheimili, þ.e. að tryggja og styrkja faglega umsjón og eftirlit yfirstjórnar menntamála með þessum fræðsluþætti.
    Ég vænti þess að við þessa tillögu sé góður stuðningur hér í hv. þingdeild. Ég varð þess var þegar

við bárum okkur saman, meðflm. þessarar till. og fleiri sem ég ræddi við um mótun hennar, að það voru góðar undirtektir og ég vænti þess að menn geti fallist á að taka upp þá skipan, sem hér er verið að leggja til, til að styrkja þessi tengsl hvort sem um yrði að ræða breytingu á því sem fyrir liggur varðandi fjárhagslegan þátt mála eða ekki. Það er í rauninni alveg óháð því máli hvernig það ræðst hér í þingdeildinni.
    Ég teldi það mjög æskilegt, virðulegur forseti, að hv. félmn. liti á þessa tillögu, færi yfir hana og athugaði hvort hún teldi hægt að styðja hana og mæla með samþykkt hennar óbreyttrar eða með einhverjum breytingum sem auðvitað koma til greina og gætu verið alveg ásættanlegar af minni hálfu ef þær horfa efnislega til þeirrar áttar sem hér er lagt til. Og ég mundi kjósa ef formaður félmn., hv. 5. þm. Norðurl. v., væri reiðubúinn til þess að taka málið upp á vettvangi félmn. milli umræðna að draga þessa tillögu mína og fleiri hv. þm. til baka við þessa umræðu, fresta henni þá til 3. umr. og fá meðhöndlun félmn. á málinu milli umræðna. Mér þætti vænt um ef það væru undirtektir við þá málsmeðferð.
    Ég vil geta þess að sú skipan, sem hér er verið að leggja til, sækir stuðning í álitsgerð og tillögur um skipan tónlistarfræðslu, sem skólarannsóknadeild menntmrn. lét vinna og gefnar voru út í sérstöku riti í október 1983, varðandi námsstjórn í tónlistarskólum og tengsl ráðuneytis og tónlistarskólanna. Þar var m.a. gert ráð fyrir, raunar ekki einni nefnd heldur þremur nefndum til þess að styrkja þessi tengsl og fara yfir mál, nefnd sem ætlað var að fjalla um námsskrár, sérstaka ráðgjafarnefnd og sérstaka samstarfsnefnd. En hér er lögð til einfaldari skipan, að sett yrði sérstök föst samstarfsnefnd á laggirnar til þess að annast þau tengsl sem þarna var gert ráð fyrir og styrkja það sem nú er til staðar í menntmrn. í sambandi við námsstjórn á þessu sviði. Þessi brtt. sem ég mæli hér fyrir byggir á samráði aðila á fyrri árum um þessi efni og við mótun hennar hafði ég samráð við þá sem gjörþekkja til þessara mála, þar á meðal námsstjóra í tónlistarfræðslu sem starfar á vegum menntmrn. og fleiri aðila sem vinna að þessum málum.
    Ég vil geta þess til þess að ekki verði neinn misskilningur, virðulegur forseti, að auðvitað hafði ég í huga ágæta þingsályktun sem Sþ. var að leggja blessun yfir fyrir fáum dögum varðandi tónmenntakennslu í grunnskólum. Þar var verið að leggja til og álykta af hálfu Alþingis að menntmrh. skipi nefnd til að athuga og koma með tillögur að samvinnu og samþættingu tónmenntakennslu í grunnskólum og tónlistarskólum varðandi ákveðna tilgreinda þætti og þeirri nefnd ætlað að skila áliti fyrir lok þessa árs. Þetta er starfsnefnd til ákveðinna afmarkaðra verkefna og hennar álit og tillögur ganga þá inn í það kerfi sem hér er verið að leggja til til styrktar tónlistarmálunum af hálfu ráðuneytis og tengslum við tónlistarskóla í landinu í framtíðinni. Þarna er síður en svo nokkurt árekstrarefni, heldur miklu fremur að þarna væri verið að tryggja að í

lögum væri mótað kerfi til þess að taka við því áliti sem væntanlega kemur frá þeirri nefnd sem Alþingi var að álykta um nú á dögunum.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að fara út í ítarlegri rökstuðning fyrir þessu máli. Það liggur fyrir mikið efni varðandi málefni tónlistarfræðslunnar og það er fagnaðarefni að þau mál skuli bera jafnmikið á góma hér á hv. Alþingi eins og gerst hefur að undanförnu því að það skiptir sannarlega miklu að vel takist til um eflingu þessa þáttar mennta og menningar í landinu og þar á meðal hefur menntmrn. miðlað Alþingi sérstakri álitsgerð sem varð til einmitt vegna áforma um að breyta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, skýrslu sem er frá marsmánuði sl. Þar er að finna mikið efni um þetta sem ég ætla ekki að fara að vitna til sérstaklega en vísa til þessa fyrirliggjandi rits.
    Varðandi síðan það mál í heild sinni sem hér er til umræðu þá vænti ég þess að sú breyting sem þar er verið að leggja til verði til heilla fyrir báða aðila, ríkið og ekki síður sveitarfélögin sem eiga í rauninni enn meira í húfi
heldur en ríkisvaldið að vel takist til í þessum efnum. Ég hef tekið það fram í umræðum um þetta mál og nefni það hér aðeins að ég er ekki sérstaklega trúaður á þá hugmyndafræði um hrein skipti að því er varðar fjárhagsmálefni ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar. Ég skil hins vegar þau rök sem þar eru fram færð af þeim sem halda um fjárhagsmálefnin, en ég tel jafnframt að samstarf ríkisins og sveitarfélaganna um fjármögnun tiltekinna þátta, bæði framkvæmda- og rekstrarþátta hafi verið til heilla og verið til þess að tryggja framfarir og jöfnuð nokkurn meðal landsins barna á undanförnum árum og þess þarf að gæta að sú breyting, sem hér verður á með væntanlegri samþykkt þessara laga, verði ekki til þess að draga úr því sem vel hefur tekist í fortíðinni og menn séu reiðubúnir að bregðast við því ef reynslan sýnir að úr þurfi að bæta, að taka þá á því eftir því sem tillögur liggja fyrir um á hverjum tíma.
    Ég vænti svo að þetta mál fái hér farsælar lyktir á Alþingi fyrir þinglok því að það er mikil eftirvænting eftir því hjá þeim sem í hlut eiga og hafa unnið mikið og lengi að því að móta og bera fram tillögur í þessum efnum og það fólk er dreift um land allt.