Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég vil koma hér upp fyrst og fremst til að lýsa ánægju minni yfir því að þetta mál er að því komið að verða að lögum hér á hv. Alþingi og ég vil ekki trúa að neitt geti komið í veg fyrir á þessari stundu að svo verði. Ég þarf ekki að lýsa því hvers vegna ég hef sérstaka ánægju og áhuga fyrir því að þetta mál komist í höfn. Það þekkja hv. þm. En ég lýsti ótta mínum við 1. umr. málsins hér í hv. deild vegna þess furðulega fyrirbæris að þetta mál var lagt fyrir hv. Ed., ekki af því að hv. Ed. hafi ekki alla burði til að afgreiða mál, heldur hitt að ég taldi eðlilegra að þetta mál væri lagt fyrir Nd. þar sem áður hafði verið fjallað um það á hálfu þingi og eins það að hér í þessari hv. deild sitja 2 / 3 hlutar þingmanna og hafa þess vegna meira til mála að leggja ef svo má að orði komast. En því miður var málið lagt fram í Ed. sem hefur aldrei verið útskýrt og ekkert um það að segja héðan af. Þess vegna er það ósköp eðlilegt að nefndarmenn í félmn. Nd. og raunar í þingdeildinni hér hefðu viljað skoða ýmsa þætti nánar en tækifæri gafst til. Ég vil sérstaklega færa nefndarmönnum í félmn. Nd. þakkir fyrir þann skilning sem þeir hafa lagt í mikilvægi málsins fyrir þá sérstöðu í þessu máli að hér er verið að ná í höfn margra ára baráttumáli sveitarfélaga í landinu í samskiptum við ríkið og raunar áhuga ríkisins einnig eða stjórnvalda að ná þessu markmiði að gera skýrari verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og ganga þannig frá málum að helstu málaflokkar sem þetta varðar séu teknir í einu lagi, þessi millifærsla, og það er einmitt verið að gera hér.
    Ég vil minna á það að sú ríkisstjórn sem ég sat í á sínum tíma hafði það að markmiði að efla samstarfið á milli sveitarfélaganna og árið 1984 settum við upp samstarfssamning milli ríkis og sveitarfélaga sem var að finnskri fyrirmynd sem hefur gefist mjög vel í Finnlandi og gjörbreytti samstarfi ríkis og sveitarfélaga þar í landi með miklum og glæsilegum árangri alveg fram á þennan dag. Ég tel að árangurinn nú, að þetta mál er að komast í höfn, bæði að því er varðar tekjustofna og verkaskiptingu, sé einmitt af þessu samstarfi, en þrátt fyrir ýmsar óvæntar uppákomur, þá hefur þetta samstarf verið óbrenglað fram á þennan dag.
    Ég ætla ekki að ræða þetta neitt efnislega. Ég hef gert það áður. En ég vil aðeins segja það að ótti margra minni sveitarfélaga í sambandi við þessar breytingar er skiljanlegur. Þeir eiga allt undir því komið að Jöfnunarsjóðurinn nýi samkvæmt þessu frv. virki eins og til er ætlast. Og ég legg sérstaka áherslu á það við stjórnvöld að þess verði gætt að númer eitt, tvö og þrjú í uppgjöri milli ríkis og sveitarfélaga verði hagur hinna minni byggðarlaga, smærri sveitarfélaga tryggður eins og kaflinn um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga gerir ráð fyrir. Þetta er gífurlegt mál. Við megum ekki láta þessa breytingu verða til þess að auka ójöfnun, heldur þvert á móti að tryggja litlu sveitarfélögunum þá aðstöðu að þau geti veitt sínu fólki það öryggi sem það á að hafa bæði í menningarmálum, þ.e.

skólamálum, heilbrigðismálum og samgöngumálum sem til þarf. Til þess þarf að fylgja eftir bæði að því er varðar uppgjör á ógreiddum innstæðum sveitarfélaga hjá ríkinu og einnig að sá þáttur Jöfnunarsjóðsins skili sér sem hér er að stefnt. Þetta vil ég sérstaklega leggja áherslu á hér og skora á viðkomandi stjórnvöld að fylgja þessu eftir eins og samkomulag hefur verið gert um. Það verður tekið mjög eftir því og fylgst mjög með því að þetta sé gert í samræmi við þau lög sem við erum að samþykkja.
    Að því er varðar þær brtt. sem hér hafa verið lagðar fram þá tel ég sjálfsagt að skoða brtt. um tónlistarfræðsluna á þskj. 1074 og nefndin fái tóm til þess að skoða það, en ég verð að lýsa því yfir að ég er algjörlega andvígur brtt. á þskj. 1056 sem ég tel að sé útilokað að samþykkja í sambandi við þessa stöðu málsins. Það er mjög mikil ákvörðun nú á síðustu stundu að fara að breyta þessum hlutföllum því slík breyting tekur ekki aðeins til þessa frv., heldur yrði að fara í gegnum tekjustofnafrv. einnig og það yrði örugglega til þess setja málið í hættu því við vitum ekki á þessari stundu hvað fulltrúar í hv. Ed. kynnu að gera við slíkar breytingar sem þeir hafa ekki viljað ganga inn á í meðförum í allan heila vetur. Ég skora á flm. þessarar brtt. að draga hana til baka því þetta er mál sem er grundvallaratriði og ég er algjörlega sannfærður um að það gæti orðið mjög mikil röskun á málinu í heild.
    Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umræður. Ég vil aðeins endurtaka að ég lýsi ánægju minni yfir þeirri samstöðu sem þó hefur tekist um þetta mál hér í hv. Nd. sem sýnir hvaða skilning menn hafa á þessu og þrátt fyrir allt annað sem fram hefur komið þá eru menn samstiga í þessu máli.