Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Jón Kristjánsson:
    Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af því að þetta frv. er nú komið til 2. umr. hér í þessari hv. deild eftir að náðst hefur um það bærileg samstaða í félmn. Nd.
    Þetta mál á sér langan aðdraganda. Mál af svipuðu tagi var hér til meðferðar á fyrra þingi og hlaut ekki afgreiðslu enda var það með mjög öðrum hætti og var þar aðeins um hluta af verkaskiptingunni að ræða. Síðan var farið í mikla vinnu á milli þinga að þessum málum og árangurinn af þeirri vinnu var sá að hér á Alþingi ríkir nú að ég best veit mjög bærileg samstaða um þetta mikla mál sem áreiðanlega er eitt af stærstu málum þessa þings.
    Ég vil taka undir það sérstaklega, sem fram hefur komið reyndar í máli þeirra sem talað hafa hér á undan, að hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er lykilatriði í öllu þessu máli. Það er hlutverk hans að koma til móts við þau sveitarfélög sem minni tekjur hafa og minni burði til að valda þeim verkefnum sem færð eru til þeirra. Það er mjög áríðandi að við uppgjör sem fram fer verði málum hinna minni sveitarfélaga sinnt sérstaklega og farið vandlega í þau mál hvert fyrir sig.
    Það hafa verið nokkuð skiptar skoðanir um flutning tónlistarfræðslunnar yfir á sveitarfélögin og menn hafa haft áhyggjur af skipulagi tónlistarfræðslunnar í landinu í framhaldi af þessum tilflutningi. Ég held að ef Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fær þær tekjur sem honum eru ætlaðar samkvæmt frv. og hann verður efldur og starf hans verður öflugt, þá eigi sveitarfélögin út af fyrir sig ekki að vera fjárhagslega verr stödd en áður til að valda þessu hlutverki. Spurningin er um samræmingu og heildarstjórn á tónlistarnáminu, að þar séu sömu kröfur í gildi um tónlistarnám um land allt.
    Ég vil athuga brtt. hv. 2. þm. Austurl. vandlega. Ég tel að það komi vel til greina að samþykkja hana ef það gæti orðið til þess að meiri samstaða næðist um málið og það mundi styrkja tónlistarfræðsluna í sessi. Ég sé ekki í fljótu bragði þó að ég vilji að sjálfsögðu skoða þessa tillögu milli umræðna að það ætti að spilla málinu neitt að styrkja tónlistarfræðsluna með þessum hætti.
    Þetta vildi ég láta fram koma við þessa umræðu en að öðru leyti fagna ég því að málið skuli þó vera komið þetta langt og vona að það fái farsæla afgreiðslu á þessu þingi og verði til þess að styrkja sveitarfélögin í landinu í sessi og gera þau hæfari til að sinna þjónustuhlutverki sínu fyrir fólkið.