Tekjustofnar sveitarfélaga
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Ég stend hér upp til þess að gera örstutta grein fyrir brtt. sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 1039 og lýtur að því að c-liður í 34. gr. frv. eins og það er núna verði felldur niður. 34. gr. frv. fjallar um aðstöðugjald og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Sveitarstjórnum er heimilt að leggja aðstöðugjald á þá aðila sem taldir eru upp í 1. og 2. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt og stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í sveitarfélaginu, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum þessum. Aðstöðugjöld skulu renna í sveitarsjóð.``
    Síðan eru í framhaldinu í þessari grein, herra forseti, undanþegnir tilteknir aðilar, þeir sem um er að ræða í 4. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt og þeir sem greiða landsútsvör. Þannig kom frv. til kasta þingsins í upphafi að þetta væru þeir einu aðilar sem nytu undanþágu frá aðstöðugjaldi samkvæmt þessum lögum. Í Ed. hins vegar var samþykkt sú breyting að bæta þarna inn c-lið þar sem kveðið er á um að starfsemi sláturhúsa og mjólkurbúa skuli sömuleiðis vera undanþegin aðstöðugjöldum.
    Mín tillaga lýtur sem sé að því að fellla niður þennan c-lið að nýju þannig að frv. verði að þessu leyti til eins og það var þegar það var lagt fram og eins og samkomulag var um þegar gengið var frá þessu frv. fyrir framlagningu og sem samkomulag var um milli hagsmunaaðila.
    Nú mun það vera svo að þessi tiltekna starfsemi sláturhúsa og mjólkurbúa hafi verið undanþegin aðstöðugjöldum til þessa þannig að frv. eins og það var lagt fyrir gerði ráð fyrir breytingu í því efni, sem sagt þeirri að fella niður þessa undanþágu þannig að framvegis yrðu greidd aðstöðugjöld af sláturhúsum og mjólkurbúum. Það er nokkuð augljóst hvers vegna slíkt undanþáguákvæði hefur verið í lögum og hvers vegna menn hafa viljað koma því inn aftur. Með því er að sjálfsögðu verið að reyna að halda niðri kostnaði við þessa starfsemi og með þeim hætti halda niðri verðlagi á þeim vörum sem þarna eru framleiddar, í sláturhúsum og mjólkurbúum. Augljóst er að slíkt markmið er í sjálfu sér jákvætt og eðlilegt. Það hlýtur að vera eðlilegt markmið að stuðla að sem lægstu verðlagi þeirra afurða sem frá þessum vinnslustöðvum koma.
    Það sem hins vegar er óeðlilegt er tvennt: Í fyrsta lagi að gera upp á milli þessarar starfsemi annars vegar og annarrar mikilvægrar framleiðslustarfsemi í landinu hins vegar. Og í öðru lagi að framkvæma þessa undanþágu með þeim hætti sem hér um ræðir þannig að tekjumissirinn er eingöngu hjá tiltölulega fáum sveitarfélögum en ekki öllum. Útkoman af þessu er því sú að nokkur sveitarfélög, þar sem þessi starfsemi er tiltölulega umfangsmikil, verða fyrir tiltölulega miklu tekjutapi af þessum sökum en önnur ekki.
    Ég tel að þessar tvær ástæður séu alveg nægilegar fyrir því að það eigi að afnema þessa undanþágu og ég tel að ef menn vilja halda niðri verði þessara afurða sem aðstöðugjaldinu nemur, þá eigi menn að

gera það með öðrum hætti eins og t.d. með beinum niðurgreiðslum í verðinu. Ég bendi á að félmn. og reyndar þingmönnum öllum að ég hygg hefur borist ályktun frá bæjarstjórn Blönduóss um þetta efni þar sem segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Bæjarstjórn Blönduóss mótmælir harðlega fram komnum tillögum félmn. Ed. Alþingis um að mjólkurstöðvar og sláturhús verði undanþegin greiðslu aðstöðugjalds í nýjum tekjustofnalögum fyrir sveitarfélög. Það er í fyllsta máta óeðlilegt að örfá sveitarfélög í landinu verði með lögum látin greiða niður verðlag afurða fyrrnefndra fyrirtækja til landsmanna allra.``
    Þarna er vakin athygli á því að ýmis, gjarnan smærri sveitarfélög, verða þarna fyrir tekjutapi sem til er komið vegna þess markmiðs að halda niðri vöruverði á afurðum þessara fyrirtækja. En afurðir og verðlag þessara fyrirtækja er hins vegar ekkert einkamál þessara sveitarfélaga og það er þess vegna ekki réttlátt eða sanngjarnt að ákveða þeim með lögum slíkt tekjutap. Ég þarf ekkert að nefna hér ýmis sveitarfélög þar sem þessi starfsemi er veigamikil. Menn þekkja það auðvitað, ekki síst þingmenn utan af landi, hvar þessi starfsemi er staðsett og hversu þýðingarmikil hún getur verið í einstökum byggðarlögum.
    Ég hef heyrt þau gagnrök fyrir þessu að í stað þess að njóta aðstöðugjalds af þessum fyrirtækjum, þá njóti viðkomandi sveitarfélög annarra tekna eins og t.d. skatttekna af starfsfólki og fleira sem þessi starfsemi leiðir af sér í opinberum gjöldum og það er vissulega rétt. En það á auðvitað jafnframt við um alla aðra atvinnustarfsemi. Sem betur fer fylgja henni tekjur fyrir starfsmenn og sveitarfélög, beinir og óbeinir skattar o.s.frv., þannig að það er ekkert sérstakt fyrir þessa starfsemi, þ.e. framleiðslu sláturhúsa og mjólkurbúa að hún skapi starfsmönnum og sveitarfélögunum aðrar tekjur heldur en aðstöðugjöldin. Þess vegna hef ég, herra forseti, leyft mér að flytja þessa brtt. sem lýtur að því að færa frv. í fyrra horf. Það hefur verið að því vikið í áliti félmn. Ed. að hér sé um að ræða fjölsköttun, sem nefndin kallar svo, sem er nú nokkurt nýyrði í mínum eyrum, en það mun vera það að skattur hleðst ofan á skatt í framleiðslunni. En það gegnir sama máli um þetta eins og atriði sem ég nefndi hér rétt í þessu, þ.e. að það á við um alla aðra
atvinnustarfsemi sem greiðir aðstöðugjald.
    Við vitum að okkar skattkerfi er nú ekki fullkomnara en það að hér greiða fyrirtæki skatta af þeim sköttum sem þau hafa greitt í ákveðnum mæli. Og við vitum það líka að skattar af veltu eða rekstrarkostnaði eru ekki þeir skynsamlegustu og við ættum til lengri tíma litið að stefna að því að minnka hlutdeild slíkra skatta, en aðstöðugjaldið er einmitt þannig. Þessi umrædda fjölsköttun er því ekkert einkafyrirbæri í þessari starfsemi. Ef hún er fyrir hendi þá á það jafnt við um annan atvinnurekstur sem verður að standa undir þessu gjaldi.
    Virðulegi forseti. Vegna þeirrar mismununar sem í

þessu felst gagnvart öðrum atvinnurekstri og vegna þeirrar mismununar sem þetta felur í sér milli einstakra sveitarfélaga í landinu hef ég leyft mér að flytja þessa tillögu um að undanþága sláturhúsa og mjólkurbúa að því er varðar aðstöðugjald verði felld niður á nýjan leik eins og frv. gerði ráð fyrir í upphafi.