Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Við þingmenn Alþb. munum greiða fyrir samþykkt þess frv. sem hér eru greidd atkvæði um. Það gerum við með vísan til samkomulags um að vextir af útlánum Byggingarsjóðs ríkisins verði eftir gildistöku laganna 15. nóv. nk. ekki hærri en 4--4 1 / 2 % hið mesta. Þetta er einnig álit meiri hl. fjh.- og viðskn. sem tekur fram í nál. á þskj. 1033 að eftir gildistöku laganna verði vextir af byggingarlánum ekki hærri en að hámarki 4 1 / 2 %. Þetta er veruleikinn varðandi málin er snerta húsbréf eins og þau liggja fyrir þinginu.
    Einnig liggur fyrir ákvörðun um að félmrh. skipi nefnd sem hafi það verkefni að fylgjast með undirbúningi og framkvæmd laganna og gera tillögur um breytingar ef nauðsyn krefur áður en lögin taka gildi 15. nóv. nk. Þá hefur og verið ákveðið að endurskoða í sumar félagslega hluta húsnæðiskerfisins þannig að tillögur þar að lútandi liggi fyrir ekki síðar en 1. nóv. nk. Með vísan til þessa, herra forseti, segi ég já.