Samningsbundnir gerðardómar
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Frsm. allshn. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. frá allshn. um frv. til laga um samningsbundna gerðardóma.
    Nefndin hefur rætt þetta frv. og kallaði til viðræðu Ólaf Walter Stefánsson, skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneytinu. Hæstv. dómsmrh. gerði grein fyrir efni þessa frumvarps við 1. umr., en í stuttu máli fjallar það um að kveða á um skipan samningsbundinna gerðardóma í lögum.
    Það hefur farið mjög í vöxt að sá háttur sé hafður á að vísa málum til slíkra gerðardóma í milliríkjaviðskiptum þar sem ágreiningur kann að koma upp og einnig er talið að það geti greitt fyrir úrskurði mála innan lands.
    Allshn. var sammála um að setning slíkra laga væri nauðsynleg og leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Guðrún Agnarsdóttir sat fund nefndarinnar og er samþykk afgreiðslu frumvarpsins.