Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Fjh.- og viðskn. Ed. hefur fjallað um frv. til laga um ráðstafanir vegna kjarasamninga, en frv. þetta er stjórnarfrumvarp og flutt af ríkisstjórninni í beinu framhaldi af yfirlýsingum hennar til Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Þær yfirlýsingar er að finna sem prentuð fylgiskjöl með frv.
    Nefndin hefur fjallað ítarlega um þetta frv. og á hennar fund hafa komið m.a. Helgi Bergs frá Hlutafjársjóði Byggðastofnunar, Gunnar Hilmarsson frá Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina, Vilhjálmur Egilsson frá Verslunarráði Íslands, Guðmundur Malmquist frá Byggðasjóði, Guðmundur B. Ólafsson frá Framkvæmdasjóði, Már Elísson og Hinrik Greipsson frá Fiskveiðasjóði, Bragi Hannesson frá Iðnlánasjóði, Ólafur Davíðsson frá Félagi ísl. iðnrekenda, Þorleifur Jónsson frá Landssambandi iðnaðarmanna, Sveinn Hjörtur Hjartarson frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, Hólmgeir Jónsson og Óskar Vigfússon frá Sjómannasambandi Íslands, Árni Benediktsson frá Félagi sambandsfiskframleiðenda, Arnar Sigurmundsson, Ágúst Elíasson og Brynjólfur Bjarnason frá Samtökum fiskvinnslustöðva og Friðrik Pálsson frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, svo og Lára V. Júlíusdóttir og Ásmundur Stefánsson frá Alþýðusambandi Íslands, Þórarinn V. Þórarinsson frá Vinnuveitendasambandi og Hjörtur Eiríksson frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna.
    Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með brtt. sem fluttar eru á þskj. 1123. Breytingartillögurnar eru tvær.
    Sú fyrri er að niðurfelling svokallaðs lántökugjalds eigi sér stað einum mánuði fyrr en frv. gerir ráð fyrir, þ.e. 1. júní í stað 1. júlí eins og upphaflega var ráðgert, og er þarna nokkuð komið til móts við óskir ýmissa aðila sem til fundar við nefndina komu. Það er ljóst að það stendur misjafnlega á fyrir fjárfestingarsjóðunum varðandi þetta gjald. Sumir þeirra hafa hafið erlend lán en ekki endurlánað enn þá og hafa þannig greitt þetta lántökugjald af erlenda láninu. Yfirleitt hafa sjóðirnir velt þessu yfir á lántakendur þannig að þetta hefur verið viðbótarkostnaður. Það þótti ekki fært að fara út í eða taka upp einhvers konar endurgreiðslukerfi gagnvart þessum lánum eins og ég sé að gert er ráð fyrir í tillögum minni hl., en stjórnarandstaðan er jafnan mjög ósínk á fé úr ríkissjóði svo sem kunnugt er. Það þótti ekki fært. Hér er nú ekki um stórar upphæðir að ræða og ég hygg að þeir sjóðir sem hér um ræðir séu ekki illa undir það búnir að taka þetta gjald á sig í þeim tilvikum sem það kann að verða, en þar er nú ekki um verulega háar upphæðir að ræða raunar.
    Hin brtt. er þess efnis að ný grein bætist við frv. svohljóðandi:
    ,,Hafi krafa samkvæmt lögum þessum á hendur ríkissjóði verið framseld glatast réttur til greiðslu

hennar úr ríkissjóði. Þetta á þó ekki við ef krafan hefur verið framseld stéttarfélagi launþegans eftir að skiptameðferð á búi vinnuveitandans hófst né heldur ef krafan hefur verið að fullu eða hluta til framseld Atvinnuleysistryggingasjóði.``
    Í athugasemdum við hið upphaflega frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Þá vill ríkisstjórnin beita sér fyrir því að á yfirstandandi þingi verði samþykkt lagaákvæði er tryggi launafólki fyrirtækja sem verða gjaldþrota rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta þann tíma sem það er án atvinnu á uppsagnarfresti, meðan það bíður eftir endanlegu uppgjöri á launakröfum sínum samkvæmt lögum um ríkisábyrgð á launum. Til meðferðar á Alþingi er frv. tveggja þingmanna um breyting á lögum nr. 23/1985, um ríkisábyrgð á launum. Leggur ríkisstjórnin áherslu á að frv. fái afgreiðslu á þessu þingi.``
    Það varð ofan á í nefndinni og var það gert í góðu samráði við flm. umrædds frv. og hv. félmn. í Nd. þar sem málið er til meðferðar að einfaldast væri og hampaminnst að taka efnisatriði frv. sem er til meðferðar í Nd. og fella þau inn í þetta. Ég hygg að það sé einföld og skynsamleg lausn á þessu. Þá losnum við hér í hv. Ed. við að vera í þeirri stöðu að samþykkja lög sem byggjast á því að annað frv. verði afgreitt í Nd. Hér er þessum málum slegið saman og ég hygg að það hafi verið rétt stefna.
    Ég hygg að tæplega sé ástæða til, herra forseti, að ég lengi þessa umræðu öllu frekar. Það komu margvíslegar upplýsingar fram í nefndinni þegar um málið var fjallað, en eins og áður sagði er hér um að ræða efndir ríkisstjórnarinnar á loforðum og yfirlýsingum sem gefnar voru í sambandi við kjarasamningana sem undirritaðir voru hinn 1. maí. Meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til að frv. verði samþykkt, virðulegi forseti, með þeirri breytingu sem ég hef nú gert grein fyrir.