Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eyjólfur Konráð Jónsson):
    Herra forseti. Mál þetta hafði verið tekið fyrir þegar fundi var frestað, en það vannst ekki tími eða var ekki unnt að ræða það þá til hlítar, a.m.k. vegna þess að það vantaði frsm. minni hl. sem var bundinn á forsetafundi og flokksformanna og sama var raunar að segja um flm. sem eðlilegt er að væri viðstaddur þannig að samkomulag er um að fresta umræðu þar til nú.
    Ég er frsm. meiri hl. í nefndinni og við flytjum nál. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og fengið umsögn Ævars Ísbergs vararíkisskattstjóra um frv. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingartillögu sem flutt er á sérstöku þingskjali.
    Danfríður Skarphéðinsdóttir sat fundi nefndarinnar og er sammála áliti þessu.``
    Við flytjum litla brtt. sem er nánast orðalagsbreyting og hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Í stað orðanna ,,sem byggir nýtt íbúðarhús í stað hússins sem úrskurðað hefur verið óhæft til íbúðar, verðlaust og til niðurrifs`` komi: sem byggir eða kaupir nýtt íbúðarhúsnæði í stað húsnæðis sem úrskurðað hefur verið óhæft til íbúðar, verðlaust eða til niðurrifs.``
    Þetta er í sjálfu sér mjög lítið mál. Þetta er ekki mikið útgjaldamál fyrir ríkið. Það getur aldrei numið nema mjög litlum upphæðum, en það þykir eðlilegt að sá sem lendir í því að húsnæði sem hann hefur keypt sé verðlaust og dæmt óíbúðarhæft skömmu eftir að hann eignaðist það sé ekki firrtur þeim rétti að fá húsnæðisbætur á sama hátt og sá sem eignaðist íbúðarhúsnæði í fyrsta skipti.
    Meiri hl. telur sem sagt ljóst að slík undantekningartilvik sem í efnisgreininni eru geti ekki verið mjög mörg og þetta sé fullkomlega réttlætanlegt og því var frv. flutt og því styður meiri hl. samþykkt þess. Skal ég ekki hafa um það fleiri orð. Þetta er réttlætismál sem kostar sáralitla peninga en getur munað einstaklinga öllu að fá að njóta þessara réttinda.