Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hl., en um þetta mál var fjallað í nefndinni og þar var fengin umsögn vararíkisskattstjóra um þetta frv. Á grundvelli þeirrar umsagnar leggur minni hl. til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Það kom raunar fram í nefndinni og ég ætla að nefna það hér sérstaklega að verið sé að fara inn á mjög hæpnar brautir þegar verið er að taka eitt einstakt tilvik og breyta lögum þess vegna. Ég held að það sé einstaklega hæpið og ætti alls ekki að gera. En ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að lesa umsögn ríkisskattstjóra um málið. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt beiðni formanns fjárhags- og viðskiptanefndar efri deildar Alþingis vill ríkisskattstjóri gefa eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, flutt af Salome Þorkelsdóttur:
    Í lögunum um húsnæðisbætur, þ.e. C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 9. gr. laga nr. 92/1987, kemur fram sú meginregla að þeir eigi rétt á húsnæðisbótum sem eru að kaupa, byggja eða að eignast á annan hátt íbúðarhúsnæði í fyrsta sinn til eigin nota. Í milliþinganefnd, sem fjallaði um þetta mál síðla árs 1987, var tekin sú ákvörðun að skilgreining á því hvað teldist fyrsta íbúðarhúsnæði í eigu manns skyldi koma fram í reglugerð, sbr. ákvæði síðustu mgr. C-liðar 69. gr. laganna um þetta atriði.
    Í reglugerð um húsnæðisbætur, nr. 75/1988, er í fyrsta lagi kveðið á um að hafi maður ekki átt íbúðarhúsnæði í tíu ár fyrir gildistöku reglugerðarinnar teljist hann ekki hafa átt íbúðarhúsnæði áður.
    Í öðru lagi voru sett ákvæði í reglugerðina um að tveggja ára eignarhald á íbúðarhúsnæði innan framangreindra tíu ára skyldi ekki svipta mann rétti til húsnæðisbóta. Þetta ákvæði var sett í reglugerðina til þess að koma í veg fyrir að eignarhald á íbúðarhúsnæði sem varaði í mjög stuttan tíma, t.d. vegna veikinda, fjárhagslegra erfiðleika, skilnaðar eða vegna annarra ófyrirséðra atvika, kæmi ekki í veg fyrir að meginmarkmið laganna næðu fram að ganga.
    Í þriðja lagi voru sett ákvæði í reglugerðina um að 10% eignarhlutdeild í íbúð á umræddum tíu árum skyldi ekki teljast íbúðareign og ekki heldur 34% eignarhlutdeild í íbúð sem maður hafði eignast við gjöf eða arf.
    Með framangreindum ráðstöfunum var talið að náð yrði til flestra tilvika sem komið gætu í veg fyrir eðlilega framkvæmd laganna. Í frv. því sem hér um ræðir er lagt til að eignaraðild að íbúðarhúsi, sem rifið hefur verið vegna óíbúðarhæfni, teljist ekki til eignarhalds fyrstu íbúðar án tillits til þess hve lengi maður hefur átt slíkt íbúðarhúsnæði. Hafi eignarhaldstími í þessu tilviki verið innan við tvö ár fellur tilvikið inna reglna reglugerðarinnar, þó að uppfylltum öðrum atriðum sem máli skipta, en annars gildir sú meginregla að maður, sem hefur átt húsnæði

lengur en tvö ár á sl. tíu árum frá útgáfu reglugerðarinnar, á ekki rétt á húsnæðisbótum, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða II um húsnæðisbætur, ákvarðaðar með álagningu 1988.
    Það er því niðurstaða embættisins að slík breyting á C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, sem hér er lögð til, sé í mótsögn við megintilgang laganna um húsnæðisbætur, þ.e. að aðeins þeir fái húsnæðisbætur sem eru að kaupa eða byggja húsnæði í fyrsta sinn til eigin nota. Sé þörf á breytingu á gildandi reglum er bent á að fremur beri að breyta reglugerð en lögum um umrætt atriði.``
    Undir þetta ritar f.h. ríkisskattstjóra Ævar Ísberg.
    Ég hef lokið, herra forseti, tilvitnun í umsögn ríkisskattstjóra um þetta mál og mér sýnist alveg einsýnt í ljósi þess að þessu máli beri að vísa til ríkisstjórnarinnar og tel það í rauninni mjög sjálfsagt mál. Í greinargerð Ævars Ísbergs vararíkisskattstjóra eru rök fyrir því hvernig þessum húsnæðisbótum er úthlutað og ég varð satt að segja svolítið undrandi þegar ekki gat myndast samstaða um þá leið að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar í hv. nefnd. En við því er ekkert að segja.
    En ég hygg að öll rök hnígi að því að afgreiða málið með þeim hætti sem minni hl. nefndarinnar leggur til.