Jarðræktarlög
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Frsm. landbn. Ed., hv. 2. þm. Suðurl., hefur gert glögga grein fyrir afgreiðslu nefndarinnar og þar hefur það m.a. komið fram að nefndin er sammála um þessa afgreiðslu.
    Þetta mál bar fyrst þannig að að hæstv. landbrh. sendi það til umfjöllunar á búnaðarþingi. Búnaðarþing gat ekki sætt sig við frv. í því horfi sem það var þá. Hins vegar tók búnaðarþing tillit til vissra grundvallarmarkmiða í þessu frv. og gerði brtt. með tilvísan til þess. Þessar tillögur höfðu ekki hlotið náð fyrir augum hæstv. landbrh. og þegar málið var lagt fram á Alþingi var það má segja í meginatriðum í sama horfi og þegar hann lagði það fyrir búnaðarþing. Það mætti kannski ætla með tilliti til þessarar forsögu að hér yrðu jarðræktarlögin deilumál, en nú hefur hins vegar komið í ljós að svo er ekki. Það hefur náðst sameiginleg niðurstaða sem ég fullyrði að er full sátt um í landbúnaðinum og það er grundvallaratriði við afgreiðslu þessa máls. Eftir þessum lögum eiga eitthvað í kringum 4 þús. bændur að vinna og búnaðarsamtökin, bæði Búnaðarfélag Íslands og búnaðarsamböndin, og það er þess vegna algert grundvallaratriði að um málið sé friður. Hér er þess vegna um að ræða mikinn árangur í störfum landbn. og væntanlega þessarar deildar, enda hafði ég orð á því við fyrri umræðu að málið kæmist í góða forsjá og mundi njóta góðrar forustu í þessari hv. deild. Þau orð hafa nú sannast með útgáfu þessa nál.
    Þær breytingar sem verða á jarðræktarlögunum eru í þremur meginatriðum. Í fyrsta lagi er nú ákveðið að setja þak á ræktunarframkvæmdir, nýrækt og endurræktun. Það er lækkað þak sem fyrir var á skurðgröft. Þessar ákvarðanir gera það að verkum að áætlunargerð, m.a. í sambandi við fjárlög, verður bæði markvissari og langtum auðveldari. Innan þessara marka verða bændur að starfa og kemur í ljós hvort þessi þök henta eða ekki og auðvitað er það þá framtíðarinnar að meta það. Þennan kost valdi búnaðarþing frekar en skerðingar. Það hefur heldur aldrei verið neinn sérstakur ásetningur bænda landsins að eyða sem mestu fjármagni heldur að geta nýtt það sem best og beint því til þeirra verkefna sem skila sem mestum árangri. Þar af leiðandi völdu menn þennan kost og er það mikilvæg ákvörðun.
    Í öðru lagi er greiðslum á framlögum flýtt samkvæmt lögunum og þær eru líka verðtryggðar með mánaðarlegum útreikningum. Þetta er nýmæli og ef þetta verður virkt ákvæði er þetta afar mikilvægt fyrir þá sem þessara fjármuna eiga eftir að njóta. Þetta met ég með þessum hætti þótt hins vegar, sem er þá þriðja meginatriðið, einingarverð í einstökum framlögum séu lækkuð til móts við það hagræði og þann hagnað sem leiðir af þessari skipan mála með greiðslu framlaga.
    Það sem skiptir hins vegar meginmáli er að hér er ekki vikið af leið. Jarðræktarlögin hafa eftir sem áður sama hlutverki að gegna og verið hefur og það er grundvallaratriði. Í þessu felast fullkomnir möguleikar á því að þau geti áfram hér eftir sem hingað til orðið til þess að efla þróun í íslenskum landbúnaði og það

er grundvallaratriði.
    Ég endurtek svo það, sem ég sagði áðan, að auðvitað sker reynslan úr hvernig hér hefur til tekist. Ég fullyrði að hér hefur engu á glæ verið kastað og að ef vel tekst til með þau fyrirheit sem felast í því fyrirkomulagi sem hér er upp tekið með greiðslur og pantanir innan þeirra marka sem hér er lagt til og fallist á, þá á framkvæmd þessara laga að geta orðið enn markvissari en hún hefur verið a.m.k. á allra síðustu árum.
    Ég vil svo að lokum, herra forseti, færa samnefndarmönnum í landbn. Ed. þakkir fyrir einstaklega ánægjulegt samstarf. Það er áreiðanlega mikilvægt fyrir landbúnaðinn hver umræðan hefur orðið um einmitt þessi mál hér á þessum vetri. Hún er orðin býsna mikil og hér hefur fengist niðurstaða þeirrar umræðu með þeim hætti sem ég tel að sé fullkomlega ásættanlegt. Það er vissulega það mikið sem á milli manna ber í orðræðum á Alþingi að það er ekki nema sjálfsagður hlutur að þess sé minnst sem vel er gert. Ég þakka trausta forustu fyrir þessu máli í landbn. og svo hér í deildinni og vona sannarlega að framhaldið fari eftir þessu því að hér sannast sannarlega sem endranær að lengi býr að fyrstu gerð.