Jarðræktarlög
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég vil með mikilli ánægju þakka hv. landbn. Ed. fyrir mikið og vel unnið starf að þessu máli og þeim mikilvægu málum öðrum sem hér hafa verið á dagskrá í hv. deild að undanförnu og landbúnaðinum tengjast. Ég fagna að sjálfsögðu þeirri samstöðu sem hefur tekist um frv., afgreiðslu þess og breytingar á því. Þær breytingar eru, eins og hér hefur þegar verið rakið, til móts við vilja búnaðarþings en þó þeirri meginbreytingu á frv. frá gildandi lögum haldið sem felst að mínu mati einkum í tveimur efnisatriðum. Það er í fyrsta lagi að framvegis verði fjárveitingar til þessa málaflokks á grundvelli kostnaðaráætlana sem byggjast á samþykktum umsóknum og jafnframt verði þak á mikilvægustu framkvæmdaflokkunum sem eins og réttilega var tekið fram af 4. þm. Austurl. ásamt með þessari tilhögun framkvæmdanna á að auðvelda mjög áætlanagerð og ákvörðun fjárveitinga til þessa málaflokks. Það er einlæg von mín og ég vil að sá skilningur komi fram að með þeim hætti takist að tryggja betur en tekist hefur að undanförnu að fjárveitingar á hverju ári verði nægilegar til að standa straum af framkvæmdum að fullu samkvæmt ákvæðum gildandi laga. Það held ég að sé sameiginlegt áhugamál þeirra sem að þessum verkefnum koma að svo verði í framtíðinni.
    Í öðru lagi er hér áhersla nokkuð færð til á endurræktun lands og hreinsun og endurbætur á þegar þurrkuðu landi, en heimild er fyrir því að styrkja nýrækt og nýskurðgröft þar sem það þykir sérstaklega henta og vera hagkvæmt og skynsamlegt. Þetta er að mínu mati skynsamleg niðurstaða og hefur vel tekist til í þessum efnum eins og öðrum við endanlegan frágang á frv.
    Ég vil sérstaklega koma að því atriði sem vikið er að í nál. hv. landbn. og lýtur að fjárhagsvanda búnaðarsambandanna, en eins og þar er réttilega bent á hafa tekjur þeirra dregist saman á undanförnum árum vegna minni framkvæmda á sviði jarðræktar og búfjárræktar eða minni framlaga til þeirra verkefna, og ég vil taka undir það og árétta það, sem fram kemur í nál., að ég mun beita mér fyrir því að reyna að afla búnaðarsamböndunum aukins starfsfjár á þessu ári með einhverjum þeim hætti sem viðunandi geti orðið fyrir þeirra verkefni og þeirra störf.
    Rétt er að minna á í þessu sambandi að það stendur yfir heildarendurskoðun sjóðagjalda landbúnaðarins og hefur m.a. verið um það rætt að búnaðarsamböndunum yrði tryggður einhver fastur tekjustofn út úr þeirri endurskoðun. Þess vegna er að vonum að menn hafa velt þeim möguleika fyrir sér að leita til Stofnlánadeildar landbúnaðarins um eitthvert framlag á þessu ári til að styrkja starfsemi búnaðarsambandanna og ég mun beita mér fyrir því að þau mál verði tekin upp í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins. En til greina kæmi að leita til fleiri aðila, bæði hvað varðar fjárstuðning við búnaðarsamböndin sjálf og eins til að styðja að sameiginlegum verkefnum þeirra.

    Þá vil ég að lokum, herra forseti, endurtaka þakkir mínar til nefndarinnar fyrir vel unnin störf og mjög ánægjulegt samstarf um afgreiðslu þessa máls. Ég vil taka það fram að gefnu tilefni vegna orða sem féllu í hv. Nd. fyrir skömmu að það er ekki viðkvæmnismál fyrir þann ráðherra sem hér talar þó að frumvörp sem ég legg fram og mæli fyrir taki breytingum í meðförum Alþingis nema síður sé. Séu þær breytingar skynsamlegar og af hinu góða fagna ég þeim og styð þær, enda er það eðli löggjafarstarfsins að það mikilvægasta í því sambandi sé að vilji Alþingis, löggjafarsamkundunnar, komi fram. Það eru ekki einstakir ráðherrar sem fara með löggjafarvald né geta gert tilkall til þess að þeirra einkaskoðanir eða útfærslur mála nái fram að ganga heldur er það svo að það mikilvægasta er að vel takist til við að leiða fram við afgreiðslu mála hinn endanlega og eiginlega vilja Alþingis, löggjafarsamkundunnar sjálfrar. Þess vegna er það að mínu mati misráðið og óskynsamlegt að ráðherrar bregðist öðruvísi en vel við því ef nefndir Alþingis og Alþingi vilja leggja vinnu í að lagfæra mál og bæta þau frá því formi sem það upphaflega var á þegar þau voru þar lögð fyrir hvort sem um stjórnarfrumvörp eða frumvörp þingmanna er að ræða.
    Að þessum kafla loknum ítreka ég þakkir mínar til hv. landbn. og er ánægður með þá samstöðu sem hér hefur tekist um afgreiðslu þessa mikilvæga máls.