Staðgreiðsla opinberra gjalda
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Frsm. fjh.- og viðskn. (Árni Gunnarsson):
    Herra forseti. Frsm. fjh.- og viðskn. Nd. hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 75/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. lög nr. 90/1987, og um breytingar á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Í nál. sem allir nefndarmenn rita nöfn sín undir segir, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið um það umsagnir frá fjármálaráðuneytinu, Seðlabanka Íslands, Verslunarráði Íslands, Sambandi ísl. viðskiptabanka, Lögmannafélagi Íslands, réttarfarsnefnd dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, Félagi íslenskra iðnrekenda og Ragnari Hall borgarfógeta.
    Frumvarpið felur í sér að felld verði úr lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um virðisaukaskatt ákvæði um forgang þeirra skattakrafna, sem lög þessi fjalla um, í þrotabúum og skuldafrágöngubúum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.``
    Undir þetta rita nöfn sín Páll Pétursson, formaður nefndarinnar, Ingi Björn Albertsson, Matthías Bjarnason, Kristín Halldórsdóttir, Guðmundur G. Þórarinsson, Þórður Skúlason og Árni Gunnarsson.