Staðgreiðsla opinberra gjalda
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Það er alveg rétt, sem kom hér fram hjá 1. flm. þessa máls, að flutningsmannasveit þessa máls er úr ýmsum áttum þótt það virðist sem innan fjh.- og viðskn. hafi skapast samstaða um málið. Það er hins vegar því miður skylda mín hér að vara við því að þetta frv. verði samþykkt. Ég væri að bregðast skyldum mínum ef ég gerði það ekki. Ástæðan er sú að ég er sannfærður um að með því að samþykkja þetta frv. væri þingið að stuðla að breytingum sem gera baráttuna gegn skattsvikum mun erfiðari.
    Það er alveg ljóst að eitt af meginvandamálum varðandi bætta skattheimtu hér á landi er að fyrirtæki hafa leikið það hvað eftir annað að taka það vörslufé, sem þeim er falið að taka frá viðskiptavinum sínum og færa til hins sameiginlega sjóðs landsmanna, traustataki og nota það í reksturinn. Þegar reksturinn síðan stöðvast kemur í ljós að þeir peningar sem fyrirtækin hafa tekið af starfsfólkinu í formi skatta eða frá viðskiptavinum sínum í formi söluskatts og síðan virðisaukaskatts hafa verið teknir inn í almennan rekstur og útgjöld fyrirtækjanna og er ekki skilað í hinn sameiginlega sjóð landsmanna.
    Þetta frv. felur í sér þá grundvallarafstöðu að það sé enginn munur á því vörslufé sem fyrirtækin fá frá viðskiptavinum eða starfsfólki í formi skatta sem fyrirtækjunum er ætlað að innheimta og almennum skuldbindingum fyrirtækjanna gagnvart viðskiptavinum, fyrirtækjum, lánastofnunum og öðrum eða með öðrum orðum: í þessu frv. felst sú grundvallarhugsun að skattar sem eiga að fara í hinn sameiginlega sjóð landsmanna og fyrirtækin eru bara milliliðir sem geyma þetta fé og færa það frá launafólki og viðskiptavinum yfir í hinn almenna sjóð séu nákvæmlega eins og aðrir fjármunir sem fyrirtækin fá til eignar eða ráðstöfunar. Ég er sannfærður um að það er eitt af grundvallarmeinum í íslenska skattakerfinu að þessi hugsun hefur verið látin viðgangast. Rekstraraðilar, eigendur fyrirtækja og stjórnendur fyrirtækja, venjast á þá hugsun að skattar, söluskattur, virðisaukaskattur, staðgreiðsla á launum, séu þar eins og hverjir aðrir fjármunir sem fyrirtækin hafa til ráðstöfunar. Ég get vel skilið að lögfræðingum, bankastofnunum og ýmsum öðrum sem eiga viðskipti við fyrirtæki og atvinnulíf finnist snúið fyrir sig að þurfa að ganga úr skugga um að hve miklu leyti fyrirtækin hafi staðið í skilum eða staðið við skuldbindingar sínar gagnvart þessu vörslufé. En það er engu að síður grundvallaratriði, ef við ætlum að geta náð árangri í baráttunni gegn skattsvikum í þessu landi, að atvinnulífið, rekstraraðilar allir, fjármálastofnanir og bankakerfi, sé knúið til þess að gera skýran greinarmun á vörslufé fyrirtækjanna úr almannasjóði landsmanna, sköttum sem launafólk á að greiða og hefur greitt til fyrirtækjanna, söluskatti og virðisaukaskatti og öðrum fjármunum sem fyrirtækin hafa frá sjálfum sér eða frá öðrum fyrirtækjum. Ég hlýt þess vegna, þrátt fyrir hina miklu samstöðu sem er í flutningsmannasveit þessa frumvarps og í

nefndinni við athugun á málinu, að lýsa þeirri skoðun minni að ég vara þingið alvarlega við að samþykkja þetta frv. Þar með er þingið að gera baráttuna gegn skattsvikum á Íslandi mun erfiðari en ella. Ég hafði talið að það væri almenn samstaða um það innan þingsins eins og úti í þjóðfélaginu að það væri eitt af stórverkefnunum í opinberum fjármálum á Íslandi og í skattakerfi að gera baráttuna gegn skattsvikunum sem árangursríkasta og að breyta löggjöf og breyta hegðun á þann veg að menn hættu að stela sköttum frá launafólki í formi staðgreiðslunnar eða söluskatti eða væntanlegum virðisaukaskatti og nota það í rekstur fyrirtækjanna. Ef þetta frv. verður samþykkt verður aftur horfið í það að enginn munur sé gagnvart uppgjöri fyrirtækjanna á þessu vörslufé sem almenningur í landinu á, sem tilheyrir hinum sameiginlega sjóði landsmanna, og öðrum fjármunum sem fyrirtækin hafa til meðferðar. Og ég spyr hv. Alþingi: Eru menn virkilega sannfærðir um að þetta sé rétt ákvörðun? Eru menn virkilega sannfærðir um að svo brýnt sé að hverfa aftur til þessa horfs að menn séu reiðubúnir að gera okkur sem eigum að tryggja framkvæmd skattakerfisins, sem hefur verið falið að berjast gegn skattsvikum í þessu landi verkið mun erfiðara? Ég vil þess vegna biðja hv. Alþingi, bæði þessa deild og aðra, að hugsa sig vel um áður en þetta frv. er samþykkt.
    Ég tel ekki rétt, þó efnislega væri það eðlilegast, að ég formlega legði það til hér að frv. yrði fellt vegna þess að nefndin skilar því hér að mér skilst einhuga í deildina og hefur væntanlega skoðað það vel, en ég hlýt að setja fram þessi viðvörunarorð við 2. umr. málsins og gera það alveg klárt að að okkar dómi, sem eigum að bera ábyrgð á baráttunni gegn skattsvikum, eigum að bera ábyrgð á að gera skattkerfið virkara og eigum að bera ábyrgð á því að menn hætti að stela undan skatti með því að nota vörslufé í almennan rekstur mun þetta frumvarp gera okkar verk mun erfiðara ef það verður samþykkt. Það er ástæðan fyrir því að lagðar voru fyrir þær breytingar sem hér á nú að snúa til baka og ég teldi nauðsynlegt að þingið gerði þá skýra grein fyrir því hvort það sé virkilega þeirrar skoðunar að það eigi ekki að gera neinn greinarmun á þessu vörslufé, sköttunum sem fyrirtækjunum er falið að innheimta og þau eiga að skila aftur, og öðrum fjármunum sem þau hafa til meðferðar.
    Þess vegna, virðulegur forseti, hef ég kvatt mér hér hljóðs við 2. umr. svo það liggi alveg ljóst fyrir að af hálfu fjmrn. og af hálfu fjmrh. er þingið eindregið varað við að samþykkja þetta frv. vegna þess að við erum sannfærð um það að verði það samþykkt mun það gera baráttuna gegn skattsvikum á Íslandi erfiðari, vissulega ekki vonlausa en mun erfiðari en hún væri ella.