Staðgreiðsla opinberra gjalda
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Frsm. fjh.- og viðskn. (Árni Gunnarsson):
    Herra forseti. Mér kemur nokkuð á óvart hver viðbrögð hafa orðið við þessu frumvarpi og afgreiðslu hv. fjh.- og viðskn. á því.
    Ég hefði kosið að fá a.m.k. skriflegt álit á borð við það sem hæstv. fjmrh. hefur borið fram inn í nefndina áður en frumvarpið var afgreitt úr henni.
    Ég hef við þessa umræðu og þessar skarplegu athugasemdir þeirra tveggja hv. þm. sem hér hafa talað verið að velta því fyrir mér hvernig ríkissjóður fór að áður en hann fékk þann forgangsrétt sem hann hefur nú. Þá vil ég auk þess vekja athygli á því að það er til önnur hlið á þessu máli sem einkum hefur verið fjallað um í hv. fjh.- og viðskn. Það er réttur einstaklingsins í þjóðfélaginu gagnvart ríkissjóði. Við höfum fjöldamörg dæmi þess að einstaklingar sem hafa átt inni fjármuni hjá fyrirtækjum sem hafa orðið gjaldþrota hafa sjáfir orðið gjaldþrota vegna þess að kröfuréttur ríkissjóðs hefur verið svo mikill að það hefur ekkert verið eftir til skiptanna eftir að ríkissjóður hefur fengið sitt. Þetta er hin hliðin á málinu. Það er spurningin um rétt einstaklingsins gagnvart ríkissjóði til þess að fá til baka fjármuni sem hann hefur kannski lánað fyrirtækjum eða einstaklingum sem hafa orðið gjaldþrota.
    Ég tek undir það með hæstv. fjmrh. að við þurfum að vopna ríkissjóð þannig að hann geti gengið í skrokk á skattsvikurum. Ég er hins vegar ekki svo sannfærður um að þetta vegi verulega þungt í því tilefni að ríkissjóður þurfi að sækja sína peninga til fyrirtækja sem hafa orðið ,,fallít``. Ég hygg, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði, að innheimtumenn ríkissjóðs muni bara sækja sínar kröfur með enn þá meiri hörku en fyrr. En ég tel hins vegar engan vafa á því leika í demókratísku samfélagi að við verðum að tryggja rétt einstaklinganna í þessu tilviki gagnvart ríkissjóði. Við getum ekki gengið svo hart fram að einstaklingar þurfi að búa við að verða gjaldþrota vegna þess að ríkissjóður eigi algerar forgangskröfur í þrotabú fyrirtækja og einstaklinga. Ég veit ekki hvort það er í raun og veru sú skilaregla á fjármunum sem eðlileg og sjálfsögð getur talist.
    Ég vil í sambandi við þá umræðu sem hér hefur farið fram draga þessa mynd upp vegna þess að það er þessi hlið sem aðallega hefur snúið að okkur í hv. fjh.- og viðskn. Það er sú hlið sem snýr að einstaklingnum í þeim frumskógi innheimtuaðgerða sem við berjum auga á hverjum degi.
    Ég ætla ekki að stofna til deilna um þetta mál. Ég held að það væri fullkomlega eðlilegt að ræða og athuga hvort það kunni að finnast einhver leið til þess að sætta hæstv. fjmrh. við að frumvarpið fái hér afgreiðslu því að svo mikil er samstaðan í fjh.- og viðskn. um þetta frv. að ég hygg að það verði nokkuð snúið að víkja út af þeirri braut sem nefndin hefur raunverulega markað með nál. sem ég mælti fyrir áðan.