Staðgreiðsla opinberra gjalda
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég fagna því að hv. fjh.- og viðskn. hefur náð víðtæku samkomulagi um það réttlætismál sem hér er til umræðu í þessu frumvarpsformi og vænti þess fastlega að það verði til þess að þetta frumvarp verði samþykkt á yfirstandandi þingi jafnsjálfsagt og það er samkvæmt efni málsins.
    Það er líka eðlilegt að hæstv. fjmrh. komi hér upp og verji ríkissjóð og þvoi hendur sínar með þeim hætti sem hann gerði, þeim kattarþvottarhætti sem hann gerði hér áðan. Með því er hann að gera það sem honum er líkast, þ.e. að koma árangursleysi í baráttunni gegn skattsvikum á ábyrgð allt annarra aðila en hans sjálfs og hér séu þingmenn að leggja stein í götu þess að hæstv. ráðherra geti unnið að þeim málum eins og honum ber skylda til. Þetta er auðvitað algjörlega rangt og lýsir algjöru skilningsleysi hæstv. ráðherra á því um hvað þetta frumarp snýst. Ég læt í ljós hryggð mína að þurfa að hlusta á hæstv. ráðherra halda fram þeim rökum sem hann var að lýsa í sinni ræðu áðan. Hæstv. ríkisstjórn hefur að undanförnu ýmislegt gert á hlut fyrirtækjanna. Hann hefur neitað því að efna til almennra efnahagsaðgerða, neitað því að beita almennum aðgerðum til að tryggja jafnrétti milli aðila í þjóðfélaginu. Hæstv. ríkisstjórn hefur tekið að sér að veita ríkisábyrgð vegna sumra krafna sem hvíla á fyrirtækjum, til að mynda með því sem hefur gerst í Hlutafjársjóðnum. Síðan kemur hæstv. ráðherra og belgir sig hérna út með þeim hætti sem hann gerði áðan og gefur til kynna að verði þetta frumvarp samþykkt þá sé búið að taka frá honum þau vopn sem hann hafi til þess að koma í veg fyrir skattsvik hér á landi. Þetta er náttúrlega algjörlega út í bláinn. Það eina sem maður skilur er það að hæstv. ráðherra vill finna blóraböggul. Hann vill geta kennt einhverjum ákveðnum þingmönnum um þegar honum hefur mistekist það sem hann á að gera í sínu starfi.
    Það sem við verðum að hafa í huga í þessu máli er að það eru ekki eingöngu fjármunir sem ríkissjóður á sem eru í rekstri fyrirtækjanna heldur og aðrir fjármunir, bæði fjármunir eigendanna sjálfra og eins allt lánsfjármagn sem er í fyrirtækjunum. Hvort sem það fjármagn er tekið að láni í bankakerfinu eða hvort einhver viðskipti með þjónustu eða fjármuni séu með þeim hætti að það séu lánsviðskipti, þá eru þeir fjármunir í fyrirtækjarekstrinum hverju sinni og skiptir þar engu máli hvort ríkisjóður er eigandi fjármagnsins eða einhver annar aðili.
    Þetta frumvarp snýst um hvort við hér á landi ætlum að gera það sama og gert hefur verið í nálægum löndum, að hverfa frá því, sem var til siðs á síðustu öld og kannski fram eftir þessari öld, að tryggja hagsmuni krúnunnar, ríkissjóðsins. Mér finnst hæstv. ráðherra vera farinn að haga sér líkt og konungar gerðu forðum. Hann hugsar þannig um fjárhirslur ríkisins að hann skilur það ekki að það eru fleiri sem stundum eiga kröfur í bú en eingöngu ríkissjóður. Þetta er jafnréttismál á milli aðila og ekki nóg með það. Ríkissjóður hefur með ýmsum hætti tækifæri til að ná sínum fjármunum og það er alveg

hárrétt, sem kom fram hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, að ríkissjóður getur auðvitað gripið til ýmiss konar ráðstafana miklu fyrr en hann hefur gert. Það er sjálfsagt alveg rétt hjá honum líka að ríkissjóður hefur ekki gert það vegna þess að í mörgum tilvikum er um að ræða fyrirtæki sem eru ákaflega viðkvæm, fyrirtæki sem eru kannski einu atvinnufyrirtækin í byggðarlaginu og þá, eins og hv. þingmaður orðaði það: Þá getur verið gott að ríkissjóður sjái til þess að fyrirtæki geti lifað um stund. Ja, sér eru nú hver gæðin! Ríkissjóður ætlar að veita þessu blóði til fyrirtækjanna með því að hafa sitt á þurru, með því að halda lífi í fyrirtækjum sem verða að taka lán hjá ýmsum öðrum. Ríkissjóði er alveg sama um þá, þeir mega tapa öllu sínu. Auðvitað á ríkissjóður að ganga eftir því að kröfur hans séu greiddar eins og allir aðrir í þjóðfélaginu verða að gera. Það hefur enginn betri tök á því að fylgjast með þessu en ríkissjóður. Það eru þess vegna engin rök sem koma fram í máli hæstv. ráðherra sem mæla með því að þessu sé haldið áfram önnur en þau að hæstv. ráðherra vill að ríkissjóður hafi forgang til þess að hann geti leikið sér með ríkissjóð, spilað á þessi fyrirtæki, haldið þeim gangandi þar sem hann hefur velþóknun á, ef trúa má því sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði þegar hann var að lýsa frekar þeirri hugsun sem að baki liggur bæði hjá hæstv. ráðherra og eins hjá hv. formanni fjvn. Aðrir þingmenn, þar á meðal allir þingmennirnir í hv. fjh.- og viðskn. Nd., hafa skilning á því að það eigi að ríkja jafnrétti á milli kröfuhafa.
    Nú skulum við hugsa þetta aðeins frekar. Hverjir eru það sem tapa ef um forgangskröfur ríkisins er að ræða? Og við skulum hugsa okkur dæmi hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, við skulum halda því hér til haga. Hugsum okkur að ríkissjóður segi sem svo: Ja, það er eitt fyrirtæki á þessum stað. Við skulum ekki ganga að þessu fyrirtæki, enda hefur ríkið forgangskröfu. Þá er verið að segja öðrum kröfuhöfum: Það er allt í lagi með þetta fyrirtæki. Ríkissjóður hefur ekkert gert til þess að ná inn sínum kröfum og við getum þess vegna treyst því að við fáum okkar kröfur líka greiddar. Svo allt í einu er lokað á fyrirtækið, kröfum er raðað í röð, ríkissjóður hefur sitt á þurru, en hinir
tapa öllu. Hverjir eru þessir hinir? Jú, það eru bankar. Hverjir eiga peningana í bönkunum? Bankastjórarnir? Valur Arnþórsson? Sverrir Hermannsson? Nei, það eru sparifjáreigendur sem eiga þá fjármuni sem í bönkunum eru. Eiga þeir að tapa? Vill hæstv. ráðherra segja sem svo: Ja, það er mátulegt á þessa andskotans sparifjáreigendur að þeir tapi. Þetta eru allt okrarar. Er það ekki? Eða kann að vera að það séu önnur fyrirtæki sem eigi kannski hjá þessum fyrirtækjum? Hugsum okkur að þetta sé fyrirtæki í sjávarútvegi þar sem t.d. kröfuhafarnir eru skipasmíðastöðvar, eru verkstæði, eru hin og þessi önnur fyrirtæki. Þessi fyrirtæki tapa sínu og hver á kannski inni hjá þeim fyrirtækjum? Getur ekki verið að ríkissjóður eigi líka peninga hjá þeim fyrirtækjum? Ríkissjóður hefur allt

sitt á þurru og síðan má fylgja þessu dæmi aftur koll af kolli því að þannig er nú með viðskiptalífið hér á landi eins og víðast annars staðar að fyrirtæki eru rekin meira og minna með lánsfé eins og við sem höfum stundað fyrirtækjarekstur þekkjum ósköp vel.
    Ég er alveg handviss um að það er rétt hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni að það er hægt fyrir ríkissjóð að ganga frekar eftir sínum kröfum og það er eðlilegt að ríkissjóður geri það eins og aðrir kröfuhafar en njóti ekki þessa forgangs og haldi þess vegna lífi í fyrirtækinu lengur en ástæða er til. Það er auðvitað enginn vandi að vera fjmrh. og sjá um fjármál ríkisins ef maður getur alltaf gengið að því vísu, þó að maður sjái í gegnum fingur sér við fyrirtæki, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson orðaði það, að allt sé í lagi því að ríkið á forgangskröfu þegar til uppgjörs kemur. Þessi hugsunarháttur er aldargamall. Þetta er hugsunarháttur þeirra sem studdu konungsvald á sínum tíma, þeirra sem telja að ríkið sé aðalatriðið og þegnarnir séu til fyrir ríkið. En hinir skilja kall tímans. Þeir vilja jafnrétti í þjóðfélaginu, og sem betur fer skilja allir þingmenn í hv. fjh.- og viðskn. að þetta er liðin tíð, jafnvel þótt hæstv. fjmrh. heiti í dag Ólafur Ragnar Grímsson og haldi að hann sé konungur hér á landi. Það er nefnilega algerlega út í bláinn að tala um stuld og þjófnað í þessu sambandi nema þá skýra dæmið út í hörgul og segja að menn séu að stela einnig frá öðrum. Það leikur sér enginn í þessu þjóðfélagi að því að ég hygg eða a.m.k. mjög fáir að fara á hausinn og tapa þannig eignum sínum.
    En nú kem ég að öðru. Hverjir eru þeir sem skammta rekstrarskilyrðin fyrir þau fyrirtæki sem eru viðkvæmust í hverri byggð? Hverjir skyldu það vera? Hverjir eru það sem ráða gengismálunum? Hverjir eru þeir sem hafa lýst því yfir að þeir hafi vald á vaxtamálunum? Hverjir eru það sem ráða í raun rekstrarskilyrðum þessara fyrirtækja? Skyldi það vera hæstv. ríkisstjórn? Skyldi það ekki vera hæstv. ríkisstjórn?
    Auðvitað ræður hæstv. ríkisstjórn heilmiklu um þetta mál eins og allir vita. Ef það á að koma afkomu fyrirtækjanna upp fyrir núllpunktinn, ef það á að reka fyrirtækin þannig að ríkissjóði sé ekki hætt né öðrum kröfuhöfum, verður að laga þessi rekstrarskilyrði. Og ég skora á hæstv. fjmrh. að huga að því hvort það sé ekki til önnur og skárri leið en sú sem hann er að nefna, sú leið að koma þannig skikki á þessi mál að það séu hér þau rekstrarskilyrði fyrir hendi að fyrirtækin sem eru almennt sæmilega vel rekin séu ekki rekin með halla.
    Ég vildi, virðulegur forseti, að þetta kæmi fram. Ég vil aðeins að lokum nota þetta tækifæri til að þakka hv. flm. þessa frv. fyrir það að hafa lagt þetta frv. fram og þakka í leiðinni hv. fjh.- og viðskn. fyrir þann skilning sem hún sýnir á þessu jafnréttismáli, en harma að það skuli enn vera til slíkir afturhaldsmenn hér á Alþingi Íslendinga, reyndar ekki kjörnir heldur í líki fjmrh., sem koma hingað upp og segja: Ríkið skal ganga fyrir í einu og öllu og svo er okkur sama hvað gerist um alla aðra kröfuhafa. Slíkan

hugsunarhátt þarf að kveða niður. Slíkan hroka þarf að kveða niður og það þarf að kenna þessum mönnum að snúa sér að því að koma rekstrarskilyrðum atvinnugreinanna og atvinnufyrirtækjanna í lag fremur en belgja sig út í ræðustól og tala eins og þeir séu ríkið. Ég er ríkið, sagði hæstv. fjmrh. líkt og Loðvík XIV.