Staðgreiðsla opinberra gjalda
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki tefja tímann um of, draga þessa umræðu á langinn, en hlýt þó að geta þess hér að það kemur mér verulega á óvart hver afstaða hæstv. fjmrh. er í þessu máli og mér finnst slæmt hvernig hann slær um sig með ýmsum setningum, svo sem að hv. nefndarmenn í fjh.- og viðskn. hafi einblínt á þá leið sem snýr að skiptarétti og lögfræðingum. Það er einkennilegt að það er eins og það sé verið að gera lítið hér úr þeirri starfsstétt. Það sé óþarfi, sagði hann, af sjálfstæðismönnum að vera með einhverja allsherjarkrossferð einstaklinganna gegn ríkisvaldinu. Ég leyfi mér að fullyrða að það er full ástæða til þess að tala um stöðu einstaklinganna gegn ríkisvaldinu og það hefur ekki síst gefist ástæða til þess núna í vetur meðan hæstv. ríkisstjórn hefur verið við völd.
    Ég vil taka fram, vegna orða hæstv. fjmrh. áðan um að hann hafi ekki tafið málið, að mér er kunnugt um að hann bað ítrekað um frest á þessu máli í hv. fjh.- og viðskn. og eins í deildinni. Það er a.m.k. vika síðan samhljóða nefndaráliti var dreift. Það var hins vegar ekki tekið til afgreiðslu þar sem hæstv. fjmrh. gerði þá kröfu til að vera viðstaddur umræður.
    Mér finnst mjög sérstakt að hæstv. fjmrh. skuli ekki svara efnislega þeim atriðum sem koma fram í þessum umræðum sem hér hafa verið. Það virðist því miður takmarkaður skilningur á raunverulegu efni þessa máls. Þa eina sem hæstv. fjmrh. leggur áherslu á eru þau minnisatriði sem koma frá fjmrn., en eins og bent var á áðan af hv. þm. Friðrik Sophussyni er skiljanlegt að afstaða skrifstofustjóra fjmrn. sé samhljóða afstöðu hæstv. fjmrh. sem er yfirmaður hans. En sérstaklega varðandi það atriði, sem hæstv. ráðherra nefndi, að það megi jafnvel líta svo á að öðrum kröfuhöfum sé tryggð ólögmæt auðgun þar sem verið sé að draga inn í skiptin fé sem tilheyri ekki búinu, þá hef ég bent á áður að þetta er ekki ólögmæt auðgun.
    Ég vil bara spyrja hæstv. fjmrh.: Er einhver eðlismunur á kröfu ríkisins eða annarra kröfuhafa? Ég get engan veginn séð að þessi rök, sem nefnd eru líka í þeim minnisatriðum sem hæstv. ráðherra talaði um áðan, um muninn á skattlagningu á tekjuskatti og eignarskatti og svo hins vegar á staðgreiðslunni og virðisaukaskatti, skipti nokkru máli í þessu sambandi.
    Mig langar líka til að velta því upp hvort hæstv. fjmrh. væri sáttur við að missa það fé persónulega sem hann hefur hingað til talið tryggt með veðrétti alfarið vegna þess að ríkið ætti forgang. Væri hann sáttur við það? Hvernig ætlar hæstv. fjmrh. að treysta veðbókarvottorði þar sem ríkið hefur forgang? Hvernig á að vera hægt að finna út hvaða kröfur koma til með að hvíla á eigninni? Þetta er ekki bara mál lögfræðinga, hæstv. ráðherra.
    Það er alveg ljóst að við höfum traust innheimtukerfi á sköttum. Það þarf bara að beita því. Það er tryggt í lögum og þar hefur ríkið forgang fram yfir almenna kröfuhafa. Það eru því engin rök fyrir því að gefa ríkinu enn þá meiri forgang. ( Forseti:

Forseti vill gefa ræðumanni kost á að fresta máli sínu nema ræðumaður sé að ljúka ræðu sinni.) Já, ég þakka hæstv. forseta. Ég er rétt að ljúka ræðu minni.
    Ég vil taka fram í þessu sambandi þar sem er verið að tala um innheimtu á sköttum að að sjálfsögðu ber þjóðfélagsþegnum að greiða sína skatta. Á því byggist okkar samfélag. Við fáum þjónustu frá ríkinu fyrir það fé sem við greiðum. Það er alls ekkert verið að draga úr því í þessu máli. En við höfum líka heyrt um að með fé hafi verið misfarið á ýmsan hátt, fé sem hefði átt að fara í skattgreiðslu, t.d. á þann hátt að staðgreiðslufé af launum hafi verið notað til að greiða út laun og jafnvel að einhverjir stjórnmálamenn hafi samþykkt slíkt. Þau lög sem nú gilda breyta engu um þetta atriði og heldur ekki það frv. sem hér liggur fyrir. Það er kannski fyrst og fremst hugarfar stjórnmálamanna og ráðamanna í þessu landi og markviss innheimta á skattheimtufé sem skiptir mestu máli, að það sé ekki verið að bjóða upp á einhverja spillingu með slíkt fé.
    Ég vil að lokum segja það, hæstv. forseti, að það er ekki spurning um að ná samningum í þessu máli. Það er spurning um pólitíska afstöðu manna. Það mun koma í ljós hversu trúir hv. þm. eru umbjóðendum sínum, nefnilega kjósendum í þessu landi.