Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir brtt. við frv. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 86/1988, sbr. lög nr. 109/1988.
    ,,Á undan 1. gr. komi ný grein er orðist svo:
    Í stað orðanna ,,svo og með öðrum lántökum samkvæmt nánari ákvörðun í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hverju sinni`` í 3. tölul. 9. gr. laganna komi: svo og með öðrum lántökum eftir því sem lánsfjárlög ár hvert heimila.``
    Ég tel að þetta sé mjög þýðingarmikið vegna þess að samkvæmt stjórnarskrá landsins er það Alþingi sem gefur ríkissjóði heimild til að taka lán. Það kemur skýrt fram í 40. gr. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán er skuldbindi ríkið né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins nema samkvæmt lagaheimild.``
    Það sem varðar lántöku í 40. gr., ef það er dregið út úr þessu, er svo: Ekki má heldur taka lán er skuldbindi ríkið nema samkvæmt lagaheimild.
    Þessi lagaheimild er gefin á hverju ári í lánsfjárlögum, en fjárfestingar- og lánsfjáráætlun er ekki lög heldur fylgiskjal með fjárlagafrv.
    Það eru miklir hagsmunir unga fólksins í landinu, fólks sem er að byggja, að geta fengið lánað fé til húsbygginga. En ég vil meina að að séu enn meiri hagsmunir að það sé samræmi í lánsfé og stjórn efnahagsmála þannig að það fjármagn sem lánað sé sé ekki sparað um leið og það er lánað og síðan lendi þetta fólk í gífurlegum vandræðum vegna verðbólgu og alls konar þenslu á vinnumarkaðnum. Ég tel að ákvæði um að hafa orðalagið ,,eftir því sem lánsfjárlög ár hvert heimila`` sé þýðingarmikið fyrir stjórnvöld og Alþingi Íslendinga á að bera ábyrgð á því hversu mikið fjármagn fer í þennan málaflokk.
    Það er hlutverk stjórnvalda að halda jafnvægi í efnahagsmálum og þar á meðal á fjármagnsmörkuðum. Það var komið á margumtöluðu frjálsræði á fjármagnsmörkuðum m.a. til þess að stjórnvöld ættu auðveldara með að átta sig á því hvenær væri ójafnvægi á fjármagnsmarkaði og hvenær væri jafnvægi. Því miður hefur yfirleitt verið ójafnvægi á fjármagnsmörkuðum og vextir allt of háir í landinu, húsbyggjendum til stórrar bölvunar og öllu atvinnulífinu í landinu. Það er því gífurlega mikilvægt að Alþingi Íslendinga átti sig á því að það er ekki einhlítur kostur að moka gegndarlaust peningum í Húsnæðisstofnun og lána ótakmarkað.
    Það er frumskylda stjórnvalda við stjórn efnahagsmála að halda uppi jafnvægi á fjármgnsmörkuðum þannig að heildarframboð á fjármagni sé í samræmi við heildareftirspurn. Ef allt of litlu fjármagni er dælt í þennan málaflokk verður líka heildareftirspurn eftir fjármagni allt of mikil og þar af leiðandi verða vextir allt of háir eins og er í dag. Það hefur því miður verið gífurlegur misskilningur í sambandi við frjálsræðið á

fjármagnsmörkuðum og hvert hlutverk stjórnvalda er varðandi það að ná vöxtum niður, hvernig eigi að fara að því. Það gerist ekki með svokölluðu handafli. Það er ekki hægt nema í draumaheimi. Það er ekki frekar hægt en að rjúka á barómetið í roki og setja nálina á ,,smukt`` og halda að veðrið lagist úti. Það er alveg fráleitur málflutningur að halda að menn geti stjórnað vöxtum með einhverjum draumóraaðferðum eða bara með því að segja: Hókus pókus! Niður með vextina! Því er þetta lagt hér til, hæstv. forseti, að þessum texta í frv. verði breytt þannig: svo og með öðrum lántökum eftir því sem lánsfjárlög ár hvert heimila. Ég undirstrika að ég tel að þessi háttur verði að vera ef fullnægja á ákvæðum í 40. gr. stjórnarskrár landsins.