Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Talsmenn Sjálfstfl. í þessari umræðu hafa rætt nokkuð mikið um þann samning sem gerður var við lífeyrissjóðina fyrir skömmu og þau ákvæði samningsins sem snúa að vaxtastiginu. Það er ósköp eðlilegt að þeir skuli hafa gert þennan samning hér að umræðuefni vegna þess að hann tengist með ákveðnum hætti meðferð þessa máls og þróun vaxtastigs á næstu missirum og árum.
    Ég tek hins vegar eftir því að fulltrúar Sjálfstfl. í þessari umræðu hafa kosið að ræða bara annan hluta þessa samnings, þ.e. eingöngu þann hluta sem snýr að hinni innlendu viðmiðun vaxta sem í samningnum felst. Þetta finnst mér dálítið merkilegt vegna þess að Sjálfstfl. hefur á undanförnum árum verið talsmaður þess að nauðsynlegt væri að tengja ýmsa þætti í efnahagskerfi Íslendinga við efnahagskerfi í helstu viðskiptalöndum okkar. Þess vegna er það athyglisvert að Sjálfstfl. skuli ekki hafa minnst einu orði á þá merkustu nýjung sem í þessum samningi við lífeyrissjóðina er að finna. Þessi nýjung er nefnilega að þetta er í fyrsta sinn sem raunvaxtastigið á Íslandi er formlega tengt raunvaxtastiginu í Vestur-Evrópu og helstu viðskiptalöndum okkar. Samningur við lífeyrissjóðina er þess vegna í reynd veigamesta skrefið sem stigið hefur verið hér í langan tíma til þess að fella viðmiðanir úr hagkerfi helstu viðskiptaþjóða okkar við íslenska hagkerfið.
    Þessi þáttur samningsins felur í sér að lífeyrissjóðirnir skuldbinda sig til þess að kaupa minnst 15% og mest 40% af þeim viðskiptum sem þeir eiga við ríkissjóð og Húsnæðisstofnun í formi bréfa sem tengd eru svokallaðri evrópskri mynteiningarbindingu eða ECU-viðmiðun eins og hún er kölluð í daglegu tali, og vaxtastig þessa stóra hluta samningsins ákvarðast af því vaxtastigi sem tiltekin skuldabréf á evrópskum markaði hafa í hverjum mánuði eins og þau eru skráð í tilkynningum Financial Times á tilteknum degi hvers mánaðar. Þetta vaxtastig er að nafnvöxtum um þessar mundir um 9% og ef tekið er mið af verðbólguþróuninni í Evrópubandalagslöndunum felur það í sér raunvaxtastig tæplega 5%. Allir þeir sem til þekkja í efnahagsþróun Evrópubandalagsins vita það að yfirgnæfandi líkur eru á að raunvaxtastig þessara erlendu skuldabréfa, sem þarna eru orðin viðmiðunargrundvöllur, fari lækkandi eða raunvextirnir verði frekar á bilinu 4--5% en 5%. ( ÞP: En á ekki að miða gengisskráninguna við innlenda verðbólgu? Það sagði hæstv. forsrh. fyrir nokkrum dögum.) Það er út af fyrir sig alveg rétt að gengisskráningin er miðuð við tiltekna verðbólgu. ( ÞP: Ætli það skekki svo ekki aftur reikningana?) Nei, það skekkir auðvitað alls ekkert reikningana í þessu samhengi vegna þess að það raunvaxtastig sem í þessum samningum er er nákvæmlega sama raunvaxtastigið og hin erlendu skuldabréf hafa. Þar með er auðvitað búið að samningsbinda það að raunvaxtaviðmiðunin í þessum stóra hluta samnings lífeyrissjóðanna og ríkisins er tengd raunvaxtaþróuninni í helstu viðskiptalöndum

okkar.
    Þetta er auðvitað þáttur sem talsmenn Sjálfstfl. hafa kosið að minnast aldrei á þegar þeir gera þennan samning að umræðuefni. ( GHH: Það kemur ekki málinu við.) Jú, það nefnilega kemur akkúrat málinu við vegna þess að í þessum ákvæðum er raunvaxtagólfið skilgreint, það raunvaxtagólf sem samningsbundið er og viðmiðun Byggingarsjóðsins tekur mið af þegar vaxtastig þess er ákveðið.
    Þessu til viðbótar er síðan sú reikningsformúla sem tengist hinni innlendu verðtryggingu á þeim hluta sem bundinn er með þessum hætti. Þar er um að ræða ákveðna formúlu sem tengist skuldabréfakaupum á tilteknu tímabili og eins og áætlanir eru um útgáfu spariskírteina ríkisins og vaxtastig þeirra eru yfirgnæfandi líkur á því að viðmiðunin í því vaxtastigi verði einhvers staðar á bilinu 5--6% raunvextir.
    Það er hins vegar mjög skiljanlegt að þetta sé viðkvæmt mál fyrir hv. þm. Þorstein Pálsson vegna þess að í viðræðum við lífeyrissjóðina á undanförnum mánuðum eða síðan ég tók við þessu embætti hefur verið aðalgagnrýnisefni lífeyrissjóðanna hvernig hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteinn Pálsson gekk á bak orða sinna í þeim fyrirheitum sem hann gaf lífeyrissjóðunum á sínum tíma og stórhækkaði vextina á spariskírteinum ríkisins og jók samanburðinn á þeim vöxtum sem ákveðnir voru í samningum við lífeyrissjóðina í þeim efnum. Þess vegna var það í reynd eins og að nefna snöru í hengds manns húsi þegar hv. þm. Þorsteinn Pálsson fór að vitna í hið mikla afrek sitt að selja spariskírteini ríkisins 1986 á þessum uppsprengdu vöxtum því það er einmitt það dæmi sem talsmenn lífeyrissjóðanna nota sem skóladæmið um svikabrigsl fjmrh. gagnvart lífeyrissjóðunum. Þar með hafi fjmrh. Sjálfstfl. beitt sér fyrir sérstakri vaxtahækkun í landinu umfram það sem samið var um í lífeyrissjóðunum og aðaláhersla lífeyrissjóðanna í samningum við þessa ríkisstjórn hefur verið að fá tryggingu fyrir því að það mundi ekki ske aftur sem gerðist í fjármálaráðherratíð Þorsteins Pálssonar. ( ÞP: Það var verið að lækka vextina og þeir voru á móti því.) Hvert var vaxtabilið hjá lífeyrissjóðunum og hæstv. fjmrh. Þorsteini Pálssyni? Er ekki rétt að hann rifji það hér upp? Er ekki rétt að hann rekji þá sögu sem skapaði slíka tortryggni, slík illindi í viðskiptum lífeyrissjóðanna og ríkisins að ætíð síðan hefur verið mjög erfitt
að ná þeim samningum þangað til nú og ein af ástæðunum fyrir því að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna telja þennan samning tímamótasamning er að hann útilokar slík svik í þessum samskiptum eins og gerðust í fjármálaráðherratíð Þorsteins Pálssonar.
    Núv. ríkisstjórn var vissulega tilbúin að taka þá áhættu í þessum samningum að fylgja sinni eigin vaxtastefnu í reynd. Hún var tilbúin að sýna í verki að vaxtastefna hennar mundi standast. Það var aftur á móti ekki einkenni á þessum samskiptum í fjármálaráðherratíð Þorsteins Pálssonar.
    Ég ætla ekki að rekja þá sögu ítarlega hér en það væri vissulega mjög lærdómsríkt að gera það vegna þess að hún er skóladæmi um það hvernig slæm

sambúð fjmrn. og lífeyrissjóðanna á verulegan þátt í því að halda uppi vaxtastiginu í landinu. Hins vegar fagna ég því nú að loksins skuli vera að opnast augu hv. þm. Þorsteins Pálssonar fyrir því að núv. ríkisstjórn fylgir ýmsum þeim vinnubrögðum í sambandi við fjármál og efnahagsmál sem fela í sér bestu eiginleika þess markaðar sem með eðlilegum hætti á að ríkja í efnahagskerfinu. Þessi ríkisstjórn hefur auðvitað ætlað sér að hagnýta sér bestu kosti þess kerfis en taka ekki afskræmingu þess og gera hana að grundvelli efnahagsstefnunnar eins og gerðist í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem Þorsteinn Pálsson veitti forstöðu. Það er reyndar ekki bara á þessu sviði. Það er einnig hægt að nefna þann þáttinn í samningnum við lífeyrissjóðina sem tengist vaxtakerfinu í löndum Vestur-Evrópu sem ég nefndi hér áðan.
    Þess vegna liggur það nú þegar alveg ljóst fyrir út frá þeim samningum sem þegar hafa verið gerðir og eðli þeirra að það vaxtastig sem til viðmiðunar verður hér á næstu mánuðum og missirum er einhvers staðar í kringum 5%, og það er þess vegna ósköp eðlilegt þegar höfð er hliðsjón af þeirri meginstefnu ríkisstjórnarinnar að bilið á milli vaxta af lánum hjá Byggingarsjóði ríkisins og vaxta sem ákveðnir eru í samningum við lífeyrissjóðina verði ekki meira en 0,5--1%, að þar með liggi það alveg ljóst fyrir hvert vaxtastigið á húsnæðislánunum getur orðið. Um þetta er enginn ágreiningur innan hæstv. ríkisstjórnar. Þetta liggur alveg ljóst fyrir og um það er fullkomið samkomulag. Það er þess vegna misskilningur hjá hv. þm. að reiða hér fram langar ræður og mikla texta um það að innan þessarar ríkisstjórnar sé mikill ágreiningur í þessu máli. Það er mikill misskilningur. Það er að vísu ljóst að einstakir þingmenn hafa á því mismunandi skoðanir, eins og ósköp eðlilegt er, en í þeirri meginstefnu sem ríkisstjórnin hefur mótað ríkir eindregin og afdráttarlaus afstaða.
    Hvað ákvarðanir um hinar félagslegu íbúðabyggingar snertir þá er þar ekki um að ræða einhver sérstök kaup. Það hefur ávallt verið á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar að auka þátt félagslegs húsnæðis og það hefur líka verið eitt af stærstu áherslumálum verkalýðshreyfingarinnar og þeirra lífeyrissjóða sem hún stendur að svo að það verður í sjálfu sér ekkert vandamál að eiga samskipti við lífeyrissjóðina eða aðra um að tryggja framkvæmd þessa stefnumáls. Við munum síðan þegar skýrari línur hafa mótast um stefnu ríkisfjármálanna og lánsfjármálanna fyrir næsta ár ákveða það hlutfall sem framlag ríkisins og framlag lífeyrissjóðanna verður í sambandi við þessa fjármögnun. Þess vegna er það alveg óþarfi fyrir hv. þm. Þorstein Pálsson að hafa af því nokkrar áhyggjur. Um það er fullt samkomulag innan núv. ríkisstjórnar, fullt samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og Kvennalistans og verður ekkert vandamál á sínum tíma að útfæra það nánar vegna þess að allir þessir flokkar, bæði ríkisstjórnarflokkarnir og Kvennalistinn eru sammála um það markmið að auka þátt hins félagslega húsnæðiskerfis. Ástæðan fyrir því að það hefur alltaf gengið erfiðlega í ríkisstjórnum

þar sem Sjálfstfl. hefur setið að ná samkomulagi um slíkt er það að hann hefur yfirleitt verið á móti því að þáttur félagslega húsnæðiskerfisins væri aukinn.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að ég hafi þar með svarað þeim spurningum sem til mín var beint. ( ÞP: Nei.) Hvaða spurningar eru eftir, hv. þm.? ( ÞP: Allar.) Ef allar spurningar eru eftir kann ég annaðhvort ekki að nema þær af munni hv. þm. eða hann kann ekki að nema svörin af mínum munni eða vill ekki skilja það sem hann heyrir. Efnislega liggur það hins vegar alveg ljóst fyrir í mínum huga að þeim spurningum sem hann bar fram um vaxtastigið, um fjármögnun félagslegu íbúðanna, um samkomulagið innan ríkistjórnarinnar í þessu máli, þessum þremur meginspurningum, hefur öllum verið svarað.
    Ég vil svo gleðja hv. þm. með því að sú auglýsing sem hann sýndi hér í ræðustól áðan er aðeins lítill partur af þeim auglýsingum sem við munum sýna hér á næstu vikum eða mánuðum, og ef það gleður hjarta hv. þm. að sjá þær þá fagna ég því vegna þess að þær sýna það að þær hafa þá alla vega náð þeim árangri að vekja rækilega athygli hv. þm. á því að sú svartnættismynd sem hann hefur í huga sér dregið upp af þessari ríkisstjórn og Alþb. sérstaklega sé nú e.t.v. á skjön við veruleikann og verður e.t.v. og vonandi til þess að innan tíðar átti hv. þm. Þorsteinn Pálsson sig á því hvers konar ríkisstjórn er hér í raun og veru á ferð, hvers konar flokkur Alþb. er, hvers konar efnahagsstefna það er sem við fylgjum, en búi sér ekki til einhverjar ranghugmyndir úr sínum eigin martraðarheimi um íslensk stjórnmál.