Könnun á hagkvæmni Hvalfjarðarganga
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Því er til að svara varðandi þessa fsp. að strax á vegáætlun ársins 1988 var nokkur fjárveiting til þessa verkefnis, 2 millj. kr. og var sú fjárveiting notuð til að hefja rannsóknir á svæðinu. Hagkvæmni tengingar yfir eða undir Hvalfjörð ræðst að sjálfsögðu af kostnaði við þá mannvirkjagerð annars vegar og svo þeirri umferð sem nýta mundi tenginguna hins vegar. Rannsóknir beinast þá að því að festa hendur á þessum tveimur þáttum með nægilegri nákvæmni til að draga megi af þeim fyrstu ályktanir. Í skýrslu jarðganganefndar frá 1987 var lítillega fjallað um göng undir Hvalfjörð. Miðað við þær lauslegu forsendur sem þá voru tiltækar virtust jarðgöng undir utanverðan Hvalfjörð vera arðsöm.
    Þegar hafist var handa um rannsóknirnar á sl. sumri í framhaldi af samþykkt Alþingis sem hér var spurt um, frá 11. maí 1988, var einkum horft til jarðganga í framhaldi af þessari bráðabirgðaniðurstöðu frá 1987. En tækni við jarðgöng neðan sjávar hefur eins og kunnugt er tekið miklum framförum undanfarið og kostnaður farið lækkandi. Framkvæmdar voru endurvarpsmælingar á allstóru svæði utarlega í firðinum. Með þeim er yfirborð klappar í fjarðarbotninum kortlagt og þykkt setlaga ofan á klöppinni kemur þar fram. Starfsmenn jarðfræðideildar Hafrannsóknastofnunar önnuðust þessar mælingar fyrir Vegagerð ríkisins. Jafnframt mælingum var unnið að upplýsingasöfnun um almenna jarðfræði svæðisins. Við þessar mælingar kom í ljós að dýpi á klöpp er heldur meira en búist var við, þ.e. setlögin eru þykkari. Að öðru leyti kom ekkert fram sem útilokar gerð jarðganga.
    Til að ljúka þeim jarðfræðirannsóknum sem nauðsynlegar eru fyrir frumáætlun þarf að gera nákvæmar endurvarpsmælingar til að fá nákvæmari legu bergs og upplýsingar um gerð bergsins og setlagsins sem ofan á því liggur. Á sl. ári var einnig unnið nokkuð að umferðarþættinum. Teknar voru saman allar upplýsingar sem fyrir hendi voru um umferð og gerð frumspá um þróun umferðar. Gera þarf nokkuð umfangsmiklar umferðarkannanir til að unnt sé að gera haldbetri umferðarspár sem telja verður forsendu þess að áætla arðsemi hugsanlegra framkvæmda. Kostnaður við endurvarpsmælingar, umferðarkönnun, úrvinnslu athugana og gerð frumáætlana er áætlaðar 2--3 millj. kr. Væri æskilegt að fá fjárveitingu í vegáætlun á þessu ári og mun verða eftir því leitað við þá endurskoðun sem nú stendur yfir. Fáist það gæti frumáætlun legið fyrir næsta vor.
    Þess má geta að vinnuhópur á vegum Sementsverksmiðju ríkisins, Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og Krafttaks, en það fyrirtæki annast jarðgangagerð í Ólafsfjarðarmúla, mat líklega arðsemi jarðganga undir Hvalfjörð sl. haust. Hópurinn fékk aðgang að öllum upplýsingum sem tiltækar voru hjá Vegagerðinni. Niðurstaða hópsins varð svipuð og hjá jarðganganefndinni 1987, þ.e. að jarðgöng undir

Hvalfjörð væru arðsöm.
    Þessir ofangreindu aðilar hafa kynnt mér niðurstöður sínar og lýst áhuga sínum á þessu máli við mig. Ég hef haft gögn frá þeim til athugunar og hef hugsað mér strax og um hægist að kynna þessar hugmyndir í ríkisstjórn og þingflokkum og kanna afstöðu manna til þeirra. Hér er að vísu stórmál á ferð eins og gefur að skilja og ákvörðun verður ekki hrist fram úr erminni á fáeinum mánuðum. Ég hygg að næsta skref sé að ljúka þeirri könnun og úrvinnslu hennar sem ég gerði hér grein fyrir og ætla mætti að menn væru betur í stakk búnir að því loknu að ári liðnu til að gera betur upp hug sinn til þess hvort hér er raunverulega á ferðini arðbær framkvæmd og þá í framhaldinu með hvaða hætti væri hugsanlega hægt að standa að þeirri framkvæmd ef eða þegar til kæmi.