Könnun á hagkvæmni Hvalfjarðarganga
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. skýr og ágæt svör við spurningu minni. Ég hefði kannski kosið að málið væri heldur lengra komið en við því er í rauninni ekkert að segja og ekki hægt að gagnrýna með réttum rökum. Ég vil leggja áherslu á það að hér er um mjög stórt mál að ræða, stóra og dýra framkvæmd og miðað við okkar núverandi fjárlaga- eða vegáætlunarramma, fjárhagsramma í vegagerðarmálum, er alveg augljóst að hún verður ekki unnin innan þeirra marka.
    Hins vegar eru auðvitað ýmsar aðrar leiðir til að hrinda þessu verki í framkvæmd. Eins og hæstv. ráðherra vék að þá hafa aðilar eins og Sementsverksmiðja ríkisins, Járnblendifélagið og fyrirtækið Krafttak sýnt þessu máli mjög mikinn áhuga og rannsakað það. Og ég fagna því sannarlega að heyra að hæstv. samgrh. mun athuga þann kost nánar, ræða í ríkisstjórn og leggja síðan fram til athugunar í þingflokkum. Mér er alveg ljóst að það mun taka nokkurn tíma. Þetta er mál sem við eigum ekki að hrapa að með neinum hætti heldur að grunda vel og undirbúa, en ég er sannfærður um það, og það er staðföst sannfæring mín, að hér er um mjög arðbæra framkvæmd fyrir þjóðarbúið í heild að ræða. Þetta er samgönguframkvæmd, samgöngumannvirki sem varðar í rauninni alla Íslendinga og ég held að því fyrr sem þetta kemst í framkvæmd og verður byrjað á þessu verki, því betra, þetta muni skila okkur miklum arði. En ég tek heils hugar undir það að hér skulum við fara með gát, athuga vel okkar gang og undirbúa málið vel. Og ég ítreka þakkir mínar til samgrh. fyrir greinargóð svör og mjög jákvæðar undirtektir við málið.