Könnun á hagkvæmni Hvalfjarðarganga
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Ég vil bara undirstrika það sem kom fram í svari mínu áðan að ég mun beita mér fyrir því að að þessu máli verði unnið á þessu ári. Ég hygg að það verði ekki óskynsamleg vinnubrögð að jafnhliða því sem lokið verður þeim rannsóknum og úrvinnslu sem eru nauðsynlegar forsendur fyrir öllum arðsemisútreikningum verði athugaðir þeir möguleikar, þær hugmyndir sem uppi eru um framkvæmd verksins. Ég mun beita mér fyrir því, eins og ég sagði, strax og um hægist, sem í raun má skilja þannig að fljótlega eftir þinglausnir hef ég hugsað mér að kynna þessi áform fyrir ríkisstjórn og þingflokkum. Og ég tek það fram að ég á við alla þingflokka því ég tel hér vera á ferðinni stórmál af því tagi að þar eigi ekki að fara í pólitískt manngreinarálit, heldur sé rétt að leita eftir áliti og afstöðu allra stjórnmálaflokka til þeirra hugmynda sem þarna eru á ferðinni því það væri vissulega verið að brjóta blað í mannvirkjagerð af þessu tagi í landinu ef út á þessa braut yrði farið og heppilegast væri að sem víðtækust samstaða gæti þá tekist um það.