Starfsemi lífeyrissjóða
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að lífeyrissjóðamálin eru í hópi stærstu mála þjóðarinnar á næstu árum og það er mjög mikilvægt að löggjöf um það efni verði sett hið fyrsta. Því miður er það þannig að þessi mál hafa einnig verið viðkvæmt deiluefni milli hinna ýmsu samtaka launafólks og á vettvangi ríkisvalds og Alþingis. Það er ein af meginástæðunum auk hins stóra fjárhagslega dæmis fyrir því að fyrirrennarar mínir í embætti fjmrh. hafa ekki lagt fram það frv. sem fyrirspyrjandi vék að og má með sanni segja, eins og hann orðaði það, að frv. hafi legið í skúffu fjmrn. um nokkurn tíma.
    Ég hef hins vegar haft á orði á undanförnum mánuðum að ég hafi tekið frv. upp úr skúffunni og lagt það á borðið án þess þó að fyrir liggi ákvörðun um það hvenær það verði sent hv. Alþingi eða hvort því verði breytt áður en það yrði gert.
    Ég hef undanfarnar vikur og mánuði í þeim viðræðum sem ég hef átt við bæði forustumenn BSRB, forustumenn BHMR, forustumenn Kennarasambands Íslands og forustumenn Alþýðusambands Íslands lýst því yfir að ætlunin væri að taka þetta mál til umfjöllunar í sumar og óska eftir viðræðum við fulltrúa þessara samtaka og annarra að sjálfsögðu um málið. Á formlegum fundum með samninganefndum Hins íslenska kennarafélags og Kennarasambands Íslands og BHMR fyrir um það bil tveimur mánuðum síðan var þetta atriði eitt af nokkrum meginatriðum sem lögð voru fram formlega um efnisskrá fjmrn. yfir þá þætti sem þyrfti að ræða og í viðræðum sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar áttu við Alþýðusamband Íslands fyrir nokkrum vikum síðan kom hið sama fram. Það hefur verið kjörin ný forusta í BSRB síðan frv. var fullfrágengið. Mér er ekki kunnugt um það hvort viðhorf núverandi forustu er það sama og fyrrverandi forustu til frv. en það verður kannað innan tíðar.
    Sumarmánuðirnir munu verða nýttir til þess að fara vandlega yfir þetta frv. og þá útreikninga sem að baki því liggja og meta það síðan í september- eða októbermánuði hvort og þá með hvaða hætti það verður lagt fyrir næsta hv. Alþingi.