Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 996 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til fjmrh. Í fyrsta lagi um eftirgjöf opinberra gjalda til Tímans og Nútímans hf.:
,,1. Hversu mikil fjárhæð var gefin eftir af opinberum gjöldum dagblaðsins Tímans og Nútímans hf. til ríkissjóðs, þar með taldir dráttarvextir, aðgreint á þessa tvo skattaðila?
    2. Hvenær var eftirgjöfin veitt og hvaða heimildir telur fjmrh. sig hafa til eftirgjafar opinberra gjalda þessara tveggja fyrirtækja?
    3. Hvaða innheimtuaðgerðir hafði ríkissjóður haft uppi til innheimtu opinberra gjalda fyrirtækjanna áður en eftirgjöf fór fram?``
    Að vissu leyti hefur komið fram í þeirri skýrslu sem hér var útbýtt á Alþingi í gær svar við þessum fyrirspurnum að hluta til, en ég á von á því að hæstv. fjmrh. endurtaki það hér ásamt og með öðrum þeim fyrirspurnum sem svar er ekki að finna við í skýrslunni, enda er ekki eðlilegt að í þessari skýrslu sé að finna svör við þeim atriðum sem hér eru umfram tölulegar upphæðir.