Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég ber yfirleitt mikla virðingu fyrir langri þingreynslu og þekkingu hv. fyrirspyrjanda, Matthíasar Á. Mathiesen. Þess vegna undrar mig nú nokkuð sú ræða sem hann flutti hér áðan og sérstaklega sú ályktun að nú verði að gera Alþingi grein fyrir því hvað hafi verið gert í þessum tilvikum frá árinu 1980 til 1987. Það vill nú svo til að það er nokkuð síðan að Alþingi var gerð ítarleg grein fyrir því. Það var gert vegna fsp. í nóv. 1987 frá Kjartani Jóhannssyni alþm. þar sem lögð var fram ítarleg og nákvæm skrá yfir þau tilvik rúmlega 120 sem ég nefndi hér áðan þannig að þau hafa legið ljós fyrir hér í þskj. í rúm tvö ár. ( Gripið fram í: Það vantar 1974--1978.) Ég get svo sem leitað í gögnum fjmrn. fyrir það tímabil, en ég vek hins vegar athygli á því að hv. þm. Matthías Á. Mathiesen sat í ríkisstjórn fjögur ár á þessu tímabili ef ekki lengur og ætti þess vegna að vera mjög kunnugur bæði hér á Alþingi og í Stjórnarráðinu. En hitt vildi ég segja hér að það þarf ekkert að óska eftir því að Alþingi verði gerð grein fyrir þessum málum vegna þess að sú greinargerð er búin að liggja fyrir hér í prentuðum þskj. í rúm tvö ár.
    Varðandi síðan tímabilið frá 1987 þá eru, ef ég man rétt, um það bil tveir mánuðir frá því að ég lagði fram nákvæma hliðstæða skrá á fundi fjvn. þar sem fólst heildarsamanburður við tímabilið frá 1980--1987. Yfir þessum málum er þess vegna engin leynd. Þau hafa legið fyrir ýmist hér í prentuðum þskj. á Alþingi fyrir sjö ár, frá 1980 til 1987 og í formlegri greinargerð til fjvn. fyrir árin 1987--1989.