Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen):
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. virðist ekki hafa áttað sig á því um hvað mín ræða snerist. Hún snerist um það hvort fjmrn. hefði farið út fyrir sitt valdsvið og þá skipti engu máli hvort upplýsingar um eftirgjöf lægju hér fyrir eða ekki. Mér var kunnugt um fsp. Kjartans Jóhannssonar á sínum tíma og mér er líka kunnugt um að leitað hafi verið eftir því að fá svör við ákveðnum fsp. sem ekki hefur verið hægt að fá.
    Atriðið er hins vegar þetta: Fer fjmrn. hér með sitt vald innan þess ramma sem löggjafinn hefur sett eða gerir það það ekki? Það þarf að fá svar við þeirri fsp. og mat á þeim aðgerðum.