Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það er alveg sjálfsagt að fá mat á þeim atriðum. Hann er hins vegar nokkuð síðbúinn þessi áhugi hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesen á að fá það mat vegna þess að mér er ekki kunnugt um að hann hafi hér í þingræðum í þau tvö ár síðan þessar upplýsingar voru lagðar fram hér sem þingskjöl óskað eftir því að það mat færi fram né að hann hafi gert það í þau fimm ár sem hann sat í ríkisstjórn. En ég fagna vissulega þessum síðbúna áhuga hans á því að láta kanna þetta formlega allt saman og vonandi getum við gert það í sameiningu því að ekki veitir nú af að Sjálfstfl. fari nú loksins að hafa áhuga á ,,reformasjón`` í þessum efnum.