Blóma- og grænmetisframleiðendur
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Ég vil bara sérstaklega undirstrika að einmitt þeirri reglugerð sem hér var gerð að umtalsefni, bæði af mér og hv. fyrirspyrjanda, er ætlað að setja miklu skýrari reglur og strangari um innflutning á þessum vörum því að það er enginn vafi á því að það er veruleg áhætta tekin fyrir hvers kyns innlenda framleiðslu á grænmeti og blómum og öðrum slíkum hlutum með þeim innflutningi sem viðgengst hluta úr árinu. Til viðbótar þeirri áhættu, sem sjálfsagt verður alltaf samfara slíkum innflutningi, þá er það því miður svo að við erum að ýmsu leyti ekki nógu vel í stakk búin til að skoða þá vöru sem kemur inn í landið og ganga úr skugga um að með henni berist ekki sjúkdómar eða einhvers konar kvikindi sem skaðleg gætu orðið.
    Því miður er sjálfsagt að einhverju leyti þegar orðið tjón sem hugsanlega hefði mátt komast hjá með strangari reglum og meiri skoðun í þessum efnum, en ætlunin er sem sagt að bæta úr því, m.a. með þessari reglugerð, og það verður gert svo fljótt sem aðstæður leyfa að hún verði sett.