Blóma- og grænmetisframleiðendur
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins þakka fyrirspyrjanda, hv. 4. þm. Suðurl., fyrir að leggja fram þessa fsp. og taka undir þakklæti hennar til hæstv. landbrh. fyrir svörin. Ég vil aðeins staðfesta að það sem hér kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda er rétt, að þessi atvinnugrein á undir högg að sækja. Hún er í erfiðri samkeppnisaðstöðu og því er það mikilvægt að þessi mál séu tekin föstum tökum og reynt að finna leiðir til þess að skapa þeim betri rekstrarskilyrði, m.a. með eftirliti með þeim innflutningi á þeirri viðkvæmu vöru sem hér er um að ræða eins og t.d. afskorin blóm sem í stórum stíl hafa verið flutt inn á sama tíma og framleiðsla afskorinna blóma er fyrir hér í landinu, þó kannski sé um að ræða aðrar tegundir blóma.
    En ég vildi aðeins með stuttri athugasemd lýsa þakklæti mínu fyrir að fyrirspyrjandi hefur lagt þessa fsp. fram og að þessi mál eru í athugun í landbrn. og ég treysti því að sú athugun skili sér í betri aðstöðu fyrir þessa atvinnugrein í framtíðinni.