Kvikmyndin Lífsbjörg í norðurhöfum
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Sjútvrn. hefur tvívegis veitt Magnúsi Guðmundssyni ferðastyrki að upphæð 200 þús. kr. í hvort sinn vegna efnisöflunar um útveg og lífshætti á norðurslóðum. Ráðuneytið vill af þessu tilefni taka fram að eftir að Fiskimálasjóður hætti styrkveitingum á sviði sjávarútvegs hefur orðið mikil aukning umsókna til ráðuneytisins um styrki vegna áhugaverðra tilrauna og kynningarefnis á sviði sjávarútvegs. Þrátt fyrir takmörkuð fjárráð hefur ráðuneytið reynt að veita stuðning til málefna af þessu tagi fremur sem viðurkenningu á málefninu en til eiginlegrar fjármögnunar. Í þessu sambandi má benda á að fyrir Alþingi liggur nú frv. til l. um viðauka við Fiskveiðasjóð Íslands er felur í sér að Fiskimálasjóður verður formlega lagður niður, en þess í stað stofnuð þróunardeild við Fiskveiðasjóð Íslands sem kemur til með að sinna lán- og styrkveitingum til ýmissa verðugra nýjunga og tilrauna á sviði sjávarútvegs.