Kvikmyndin Lífsbjörg í norðurhöfum
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég hygg að þau séu tæmandi og ekki hafi verið um meira að ræða að því er þetta varðar. Mín spurning er þá sú í framhaldi ... ( StG: Því miður.) Já, ég get tekið undir það með hv. þm. Stefáni Guðmundssyni. En ég spyr þá í framhaldi: Hefur á nokkurn hátt verið greitt fyrir því að koma þessari mynd á framfæri af hálfu stjórnvalda eða ráðuneyta með öðrum hætti heldur en þær 400 þús. sem hæstv. sjútvrh. greindi hér frá? Ég hygg að svo muni vera án þess að ég vilji neitt um það fullyrða og vildi því gjarnan að hæstv. ráðherra eða --- ja, um aðra ráðherra er ekki að ræða --- jú, hæstv. menntmrh. er hér líka --- ef hæstv. ráðherrar gætu upplýst það hvort hér væri um fleiri möguleika að ræða sem nýttir hefðu verið til þess að koma þessari mynd á framfæri sem ég tel að hafi styrkt stöðu okkar Íslendinga að því er varðar deiluna við grænfriðunga og þau öfgaöfl sem þar hafa oft og tíðum ráðið ferðinni í þessum efnum.