Kvikmyndin Lífsbjörg í norðurhöfum
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til þess að bæta við fsp. hv. þm. til ráðherra um það hvort sjútvrn. eða önnur ráðuneyti hafi lagt til myndefni sem sé í vörslu ráðuneytis til þessarar myndar. Þetta gengur manna á meðal og það er nauðsynlegt að fá svar við þessari spurningu. Ég er ekki að gagnrýna það ef svo er, heldur bara það að almenningur í landinu viti um það á hvern hátt þessi mynd hefur verið byggð upp með stuðningi stjórnvalda.
    Hitt er líka almannarómur að kvikmyndaframleiðandinn sé styrktur jafnvel af utanrrn. til þeirra ferðalaga sem hann er í núna. Hæstv. utanrrh. er ekki hér inni þannig að ég er ekki að óska eftir svari við þessu, en allt svona umtal er æskilegt að sé upplýst, ekki vegna þess endilega að við séum að gagnrýna þessa mynd og það er ég ekki að gera, heldur það að mál eins og þetta, sem er mjög til umræðu í þjóðfélaginu eins og allir vita, sé nægilega upplýst þannig að það séu ekki einhverjar sögur á ferli sem ekki eru sannleikanum samkvæmar.