Kvikmyndin Lífsbjörg í norðurhöfum
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Hér fer fram raunaleg umræða. Nýlega sagði umræddur framleiðandi margumræddrar kvikmyndar að hann hefði enga opinbera styrki fengið til gerðar þessarar kvikmyndar. Það er eftir öðru sem sagt hefur verið um þessa kvikmynd.
    Nú hefur komið í ljós að 400 þús. í grjóthörðum peningum hafa verið veittar af hálfu sjútvrn. til öflunar efnis og ég vil spyrja hæstv. ráðherra, hvaða efnis? Helmingurinn af þessari kvikmynd er lánaður, þ.e. efni myndarinnar er lánað frá Hafrannsóknastofnun, úr kvikmyndasafni þess. Afgangurinn er fenginn að láni hjá samtökunum Greenpeace á fölskum forsendum.
    Þetta mál er satt að segja ein raunasaga. Það getur vel verið að hún hafi gagnast Íslendingum í þeirra ranga málstað varðandi umhverfismál í heiminum. Það fer þá vel á því að lygi og svik og falsanir sé notað til styrktar röngum málstað. Það er við hæfi og hæfir þar skel kjafti.