Kvikmyndin Lífsbjörg í norðurhöfum
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):
    Hæstv. forseti. Mér þykir menn höggva stórt af ekki meira tilefni en hér gefst til. Ég held að hæstv. forseti Sþ. hljóti að hafa hlaupið á sig. Hafi hann ekki gert það í orðavali er þar um öfgaflutning að ræða í orðavali, algerar öfgar eins og menn tala í þeim herbúðum. Og ég tek undir með hv. þm. Eiði Guðnasyni. Einhvern tíma hefði nú klingt í bjöllu hefði óbreyttur þingmaður hagað orðavali með þessum hætti.
    Ég a.m.k. frábið mér að hér hafi farið fram raunaleg umræða um þessi mál. Er það ekki réttur skilningur gagnvart þingheimi að hann eigi að fá réttar og sannar upplýsingar í þeim efnum sem verið er að gera hverju sinni, hvort sem mér eða einhverjum öðrum þingmanni líka þær betur eða verr? Það er bara allt annar hlutur. Ég mótmæli því harðlega, a.m.k. að því er mig varðar, að málstaður Íslendinga í þessu máli sé fals og lygar. Ég mótmæli slíku harðlega. Og ég tek undir með þeim mönnum, sagði það raunar fyrr, sem segja að þessi fsp. er ekki sett fram til þess að gagnrýna að stjórnvöld hafi sett fjármagn í þessa mynd. Ég er þeirrar skoðunar að menn ættu kannski að gera meira af því til þess að kynna málstað Íslendinga að því er þetta varðar.
    Ég fagna þessu hjá hæstv. sjútvrh. Ég hélt raunar að það hefði verið gert eitthvað meira af hálfu annarra ráðuneyta. Um það skal ég ekkert segja og vil ekkert fullyrða. En eigi að síður: Ég fagna þessari umræðu. Málið er komið á hreint. Það hefur gerst og það er það sem þjóðin vill vita.