Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Fram til ársins 1985 voru lengst af gerðir út níu bátar til hrefnuveiða. Aðrir bátar höfðu ekki aðgang að þessum veiðiskap þó ýmsir hefðu sótt um slík leyfi. En þeir eru eftirfarandi: Eygló NK-28 Neskaupstað, Faldur ÞH-153 Þórshöfn, Fjóla BA-150 Brjánslæk, Gissur hvíti ÍS-114 Brjánslæk, Hafrún ÍS-154 Súðavík, Njörður EA-208 Akureyri, Nökkvi HU-15 Blönduósi, Sigurbjörg ST-55 Hólmavík og Sólrún EA-155 Árskógsströnd. Samtals höfðu bátarnir leyfi til veiða á 147 hrefnum 1985.
    Þegar hrefnuveiðar voru stöðvaðar eftir vertíðina 1985 var hrefnubátunum beint til almennra fiskveiða allt árið. Óskuðu eigendur bátanna eftir því við sjútvrn. að þeirra botnfiskveiðiheimildir yrðu endurskoðaðar vegna hrefnuveiðibannsins. Ráðuneytinu var strax ljóst að tjón hrefnuveiðimanna og þeirra sem að hrefnuskurði unnu var tiltakanlegt og vandséð hvernig það mætti bæta þannig að hlutaðeigandi teldu viðunandi. Jafnframt varð ráðuneytið að gæta þess að botnfiskkvótar hrefnuveiðibáta hækkuðu ekki óeðlilega miðað við kvóta sambærilegra fiskibáta sem ekki höfðu haft aðgang að hrefnuveiðum og notið þeirra réttinda. Ráðuneytið endurreiknaði aflamark hrefnubátanna í þeim tilgangi að leggja mat á hvaða aflamörk þeir hefðu haft hefðu þeir ekki stundað hrefnuveiðar á viðmiðunarárunum. Var það gert með þeim hætti að fundinn var afli sambærilegra báta á sama svæði á þeim tíma sem hrefnuveiðar voru stundaðar. Þessar áætluðu aflatölur voru síðan felldar inn í sumarmánuði viðmiðunaráranna hjá hrefnubátunum og þeim reiknað nýtt aflamark á þeim grunni. Tekið skal fram að til viðmiðunar hrefnubátunum völdust hagstæðir viðmiðunarbátar.
    Þessi endurskoðun leiddi ekki til mikillar aukningar á aflamarki hrefnubáta einfaldlega vegna þess að sumarafli á viðmiðunarárum hjá bátum af þessari stærð var ekki mikill og er ekki ástæða til að ætla að hann hefði verið meiri hjá hrefnubátunum hefðu þeir stundað botnfiskveiðar á viðmiðunarárunum. Þrátt fyrir aukningu á aflamarki sem af þessari endurskoðun leiddi munu fæstir hafa valið aflamark þar sem sóknarmark var þeim hagstæðari kostur. A.m.k. einn bátur fékk leyfi til skelveiða og annar flokkaður sem bátur minna en 10 brúttólestir.
    Rétt er að taka fram að skip sem hætta sérveiðum, t.d. rækju og skel, eða fá slík leyfi eru endurreiknuð í aflamarki á sama hátt og að framan er lýst. Einnig skal tekið fram að bátar sem hrefnuveiðar stunduðu voru aldrei skertir í aflamarki vegna hrefnuveiðanna eins og bátar sem aðrar sérveiðar stunda.
    Þótt það sé alveg ljóst að þessir aðilar hafi orðið fyrir tiltakanlegu tjóni er ég þeirrar skoðunar að það verði aldrei að fullu bætt nema það takist að taka þessar veiðar upp að nýju með eðlilegum hætti í framtíðinni. Að því hljótum við að vinna að þessi auðlind sé nýtt eins og aðrar auðlindir og er þá eðlilegt að þeir aðilar sem þessar veiðar stunduðu njóti þá forgangs.