Sighvatur Björgvinsson:
    Virðulegi forseti. Það er ekki nokkur vafi á að hrefnuveiðimenn stóðu í þeirri trú að það ætti að hefja tilraunaveiðar á hrefnu eftir að samin hefði verið áætlun um það í samráði við Hafrannsóknastofnun. Það er ekki nokkur vafi á því að þeir voru þessarar skoðunar og töldu sig hafa orð stjórnvalda fyrir því. Umrædd áætlun um vísindaveiðar á hrefnu hefur hins vegar aldrei verið samin. Þess vegna m.a. hefur hrefnuveiðin aldrei farið af stað eins og þeir gerðu ráð fyrir. En þessir menn hafa lifað í voninni um að veiðarnar hæfust eins og þeir töldu sig hafa fyrirheit um á hverju einasta ári og á hverju einasta ári hafa þeir orðið fyrir vonbrigðum. Fyrr í vetur í umræðu um þetta mál sagði hæstv. sjútvrh. eitthvað á þá leið að hafi ríkt einhver vafi um það fyrir nokkrum árum hvort hrefnuveiðistofninn við Ísland væri ofveiddur væri sá vafi ekki lengur fyrir hendi vegna þess að talningar hefðu leitt það í ljós, sem gerðar hefðu verið á hrefnustofninum við landið, að mig minnir að hann segði að hrefnur við landið hefðu verið taldar um 20.000 og það væru engin vísindaleg rök fyrir því lengur að banna eðlilegar veiðar á hrefnu í samráði við vísindamenn sem ákvæðu leyfilegan hámarksafla. Þetta sagði hæstv. ráðherra í umræðum á Alþingi í vetur. Eftir þessa yfirlýsingu hans um að engin rök lægju lengur fyrir því að heimila ekki veiðar á hrefnu, eftir að þessi yfirlýsing kom fram var ég a.m.k. og fleiri alþingismenn, svo maður tali nú ekki um hrefnuveiðimennina, þeirrar skoðunar að hæstv. sjútvrh. mundi heimila á þessu sumri takmarkaðar hrefnuveiðar. Það hefur hann hins vegar ekki gert enn. Fyrir Alþingi liggur hins vegar þáltill. um að skora á hann að heimila þessar veiðar.
    Það nær ekki nokkurri átt með þjóð eins og Íslendinga, sem framfleyta sér af því að nýta auðlindir sjávar og lands, að þegar kemur fram það álit vísindamanna að það sé ekki ástæða til neins annars en að nýta sér tiltekna auðlind sjávarins sé það ekki gert. Það skiptir ekki meginmáli í þessu sambandi hvort það eru nokkur hundruð fjölskyldur eða nokkur þúsund fjölskyldur sem hafa lífsframfæri sitt af þessu. Hér er undir öllum kringumstæðum um að ræða nokkur lítil byggðarlög sem hafa lífsframfæri sitt af þessu og það er ekki í samræmi við stefnu fiskveiðiþjóða að nýta ekki þær auðlindir hafsins sem vísindamenn telja að óhætt sé að nýta.