Vínarsamningur um vernd ósonlagsins
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Með þáltill. þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili staðfestingu Vínarsamnings um vernd ósonlagsins sem gerður var í Vín 22. mars 1985 og Montreal-bókun um efni sem valda rýrnun á ósonlaginu sem gerð var í Montreal 16. sept. 1987.
    Virðulegi forseti. Þetta er að sjálfsögðu eitt af meiri háttar umhverfisverndarmálum í alþjóðlegu samstarfi. Upphaf þessa máls má rekja til þess að jörðin er umlukin verndandi en eitruðu lagi. Hefði það ekki myndast væri jörðin óbyggður og ómerkilegur hnöttur. Ef það hyrfi mundu útfjólubláir geislar sólar sótthreinsa yfirborð jarðar og sennilega eyða öllu lífinu nema e.t.v. í úthöfum. Þetta lag er búið til úr óson sem er súrefnissamband búið til úr þremur atómum í staðinn fyrir þau tvö sem eru í venjulegu súrefni. Þetta viðbótaratóm breytir þessu lofti, sem okkur er nauðsynlegt til lífs, í eitur. Engin lifandi skepna lifir það af að anda að sér nema örlitlu af efninu. Nálægt yfirborði jarðar er óson því vandmeðfarið og hættulegt efni, en uppi í himinhvolfinu, 15--50 þúsund km yfir yfirborði jarðar, er efnið jafnnauðsynlegt lífinu og súrefnið sjálft.
    Þótt mjög lítið óson sé í gufuhvolfinu gegnir það afar þýðingarmiklu hlutverki. Það stöðvar orkumikla útfjólubláa geislun frá sólu. Þynning ósonlagsins hefur í för með sér aukna útfjólubláa geislun á yfirborði jarðar með skaðlegum áhrifum fyrir menn, dýr og gróður. Áhrif á menn eru fyrst og fremst aukin tíðni húðkrabbameins, veikara ónæmiskerfi og augnskaðar. Alvarlegustu áhrifin á gróður og dýralíf eru minni uppskera og áhrif á lífríki í yfirborðslögum sjávar, en það er undirstaða í lífkeðju sjávar.
    Fyrir 50 árum voru þau efni sem nú er vitað að valdi mestu tjóni á ósonlaginu talin vera einhver bestu og notadrýgstu efni sem iðnaðurinn hefði fundið upp. Hér er um að ræða klórflúorkarbonefni sem hafa verið til síðan 1928 að þau fundust nánast fyrir tilviljun. Fyrstu efnin voru framleidd sem vökvi fyrir kælikerfi og kostur þessara efna er sá að þau eru hvorki skaðleg fyrir jarðveg, fyrir loftið sem við öndum að okkur né þótt þau blandist vatni eða sjó. Síðan 1950 hafa þessi efni í vaxandi mæli verið notuð í úðabrúsa og við rafeinda- og tölvutæknibyltinguna hafa þau reynst mjög nauðsynleg í framleiðslu því að þau hreinsa viðkvæmar tengingar án þess að eyðileggja efni. Þessi efni hafa einnig verið notuð í vaxandi mæli við alls kyns frauðplastframleiðslu. Nú eru um það bil 30% af klórflúorkarboníð-framleiðslunni notuð til kælingar eða lofthreinsunar, um það bil 25% vegna úðabrúsa, 25% vegna frauðplastframleiðslu og 20% í hreinsivökva.
    Svo sem fyrr segir eru efnin mjög stöðug og blandast ekki öðrum efnum niðri við jörð, en þetta veldur því að þau flytjast hægt upp gufuhvolfið og upp í heiðhvolfið og þar verða efnahvörf. Útfjólublá geislun veldur því að klóratómið losnar sem stelur síðan súrefnisatómi frá ósoninu og breytir því í venjulegt súrefni. Klóratómið vinnur eins og hvati og

veldur þessari eyðingu án þess að breytast. Getur það því endurtekið þessi hvörf aftur og aftur og þannig getur hvert klórflúorkarbonefnismólekúl eyðilagt þúsundir súrefnismólekúla. Sum halonefni og svipuð efni sem aðallega hafa verið notuð til brunavarna og slökkvistarfa eru enn skaðlegri en klórflúorkarbonefnin og geta verið nærri 10 sinnum virkari í þessu sambandi.
    Það er almennt viðurkennt að klórflúorkarbonefnin séu ein aðalástæðan fyrir þeim breytingum sem fundist hafa í ósonlaginu. Á hverju vori myndast gat í ósonlagið yfir suðurskautinu sem er eins stórt og Bandaríki Norður-Ameríku og eins djúpt og Mount Everest. Þessi hola hefur stækkað síðan 1979 samkvæmt mælingum. Enginn veit nú hvaða áhrif þetta muni hafa, en af mælingum er ljóst að ósonlagið hefur einnig minnkað yfir öðrum svæðum á jörðinni. Þannig hefur mælst 4% minnkun á veturna og 1% minnkun á sumrum yfir norðurhveli frá 30. til 60. breiddargráðu. Talið er að framleiðsla klórflúorkarbonefna og halons, haldi hún áfram að vaxa eins og hún hefur gert undanfarin ár, muni hafa þau áhrif að ósonlagið minnki um um það bil 20% á næstu 50 árum. Ósonþynningin hækkar einnig hitastig í lofthjúpi jarðar og eru menn almennt sammála um að áhrif þess verði þegar til lengdar lætur síst minni en þau áhrif sem verða vegna aukinnar geislunar.
    Virðulegi forseti. Norðurlönd hafa látið sig varða eyðingu ósonlagsins. T.d. samþykkti norræna ráðherranefndin áætlun um aðgerðir til að draga úr notkun efna sem eyða ósonlaginu á fundi sínum í Stokkhólmi 7. okt. 1987. Aukaþing Norðurlandaráðs samþykkti í Danmörku 16. nóv. 1988 áætlun sem leggur til að gengið verði hraðar fram í að draga úr notkun ósoneyðandi efna en gert er ráð fyrir í áætlun lögfræðinefndarinnar.
    Heildarnotkun klórflúorkolefna á Íslandi á árinu 1986 er talin hafa verið um 200 tonn eða um 0,8 kg pr. íbúa. Um 71 tonn voru flutt inn sem hráefni til notkunar í iðnaði og framleiðslu og 129 tonn í hálfunnum eða fullunnum varningi. Á árinu 1987 var heildarnotkun um 208 tonn sem er 4% aukning milli ára. Talið er að heildarnotkun halona hafi verið um 14,5 tonn á árinu 1986. Klórflúorkolefni sem hráefni í iðnaði og framleiðslu hér á landi eru notuð sem
kælimiðill í kælikerfum, drifmiðill í úðabrúsum, í framleiðslu á einangrunarefni, harðfroðu og mjúkfroðu og sem leysiefni í efnalögum og iðnaði.
    Hráefnisnotkunin hér á landi óx milli ára 1986 og 1987. Aukningin er fyrst og fremst í notkun á harðplasti og er talið líklegt að hana megi rekja til aukinnar notkunar á kössum og harðplasti undir sjávarafurðir.
    Innflutningur á klórflúorkolefnum í hálfunnum vörum gefur til kynna að fyrst og fremst sé um að ræða efni bundið í harðfroðudeig eða urethan-deig. Er það notað við innlenda framleiðslu á einingum í frystiklefa. Samkvæmt upplýsingum eins helsta framleiðanda á þessu sviði má ætla að á árinu 1986 hafi um 18 tonn af þessu efni verið flutt inn á þennan

hátt. Innlend framleiðsla á einingum í frystiklefa er í samkeppni við erlenda framleiðslu, þ.e. fullunninn varning. Samkvæmt upplýsingum um hlutdeild innlendrar framleiðslu á markaðnum má ætla að á árinu 1986 hafi verið flutt til landsins um 63 tonn af klórflúorkolefnum í tilbúnum einingum fyrir frystiklefa. Samtals gerir þetta um 81 tonn á árinu 1986. Þessi innflutningur nam um 72 tonnum á árinu 1987. Hér mun einkum um að ræða innflutning frá Svíþjóð og Finnlandi sem mun sjálfkrafa ljúka þegar þessi lönd hætta að nota klórflúorkolefni.
    Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um notkun úðabrúsa hér á landi sem nota klórflúorkolefni sem drifmiðil. Miðað við upplýsingar frá öðrum Norðurlöndum þar sem leyfilegt var að nota klórflúorkolefni sem drifmiðil á úðabrúsa á árinu 1986 var áætluð notkun klórflúorefna sem drifmiðils á úðabrúsum á Íslandi á árinu 1986 um 50 tonn, þar af um 46 tonn í innfluttum úðabrúsum.
    Samkvæmt upplýsingum innflytjenda nam innflutningur á halonum 14,5 tonnum á árinu 1986 og um 18 tonnum 1987. Hér er um að ræða notkun á brunavarna- og slökkvikerfum. Halonar eru mun skaðlegri fyrir ósonlagið en klórflúorkolefnið. Skaðsemi þess er að 14,5 tonn af halonum svarar til skaðsemi um 80 tonna af klórflúorkolefnum. Aukning á innflutningi halona á árinu 1987 stafar af uppbyggingu slökkvikerfa í landinu, en notkun halona er mun minni en sem nemur innflutningi þar sem þeir eru fyrst og fremst notaðir til að slökkva eld. Mestur hluti þeirra er því geymdur í slökkvikerfum út um land allt.
    Undanfarin ár hefur farið fram viðamikið alþjóðlegt samstarf varðandi aðgerðir til að hindra eyðingu ósonlagsins. Árangur þessa starfs er Vínarsamningur um vernd ósonlagsins sem gerður var í Vín 22. mars 1985 að tilhlutan Umhverfismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Samningurinn er stefnumarkandi, kveður ekki á um ákveðnar aðgerðir, en mælist til þess að ríkin sem gerast aðilar að honum minnki notkun ósoneyðandi efna eftir fremsta megni.
    Í 2. gr. samningsins er kveðið á um almennar skyldur aðildarríkja. Þær eru m.a. um samstarf á sviði rannsókna, að skiptast á upplýsingum, gera lagalegar og aðrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir eyðingu ósonlagsins og að vinna með alþjóðastofnunum sem málið varðar að framkvæmd samningsins og bókunum við hann.
    Samkvæmt 3. gr. skuldbinda aðildarríkin sig til þess að hefja eða taka þátt í rannsóknum sem lúta að ósonlaginu á einn eða annan hátt, t.d. hvaða efnasambönd hafa áhrif á ósonlagið, hvaða áhrif eyðing ósonlagsins hefur á mannfólk og hvort eyðing ósonlagsins hafi einhver áhrif á loftslag.
    Í 4. gr. er kveðið á um að aðildarríkin skuli hvetja til þess að skipst verði á upplýsingum á sviði vísinda, tækni, viðskipta, löggjafar o.fl. Aðildarríkin skulu senda upplýsingar um aðgerðir sem ætlað er að framfylgja samningnum.
    Í 11. gr. er kveðið á um lausn ágreiningsmála.

Ríkisstjórnin hyggst velja þá leið að leysa ágreiningsmál með viðræðum eða fyrir sáttanefnd.
    Vínarsamningurinn um vernd ósonlagsins gerir samkvæmt ákvæðum sínum beinlínis ráð fyrir að gerðar séu sérstakar bókanir við hann. Ein slík bókun, Montreal-bókunin, um efni sem valda rýrnun ósonlagsins, var gerð í Montreal 16. sept. 1987. Bókunin tekur til tiltekinna efnasambanda, klórflúorkolefna og halona og setur reglur um hvernig skuli draga úr notkun þeirra.
    Í 4. gr. bókunarinnar er kveðið á um að banna skuli innflutning frá 1. jan. 1989 á efnum sem hún tekur til og eru frá löndum sem ekki eru aðilar. Innan þriggja ára frá gildistöku bókunarinnar skulu aðildarríkin gera viðauka með lista yfir framleiðsluvörur sem innihalda þau efni sem bókunin tekur til. Aðildarríki sem ekki mótmæla viðaukanum sérstaklega skulu banna innflutning á þessum framleiðsluvörum frá ríkjum sem ekki eru aðilar að bókuninni.
    Í 2. gr. er að finna þær skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld taka þar með á sig gerist Ísland aðili að bókuninni.
    1. Á tólf mánaða tímabili frá júní 1989 og sérhverju síðara tólf mánaða tímabili skal notkun efna er falla undir flokk 1, klórflúorkolefni í viðauka a, ekki vera meiri en notkun var 1986.
    2. Á sérhverju tólf mánaða tímabili frá 1. jan. 1992 skal notkun efna er falla undir flokk 2, halonar í viðauka a, ekki vera meiri en notkun var 1986.
    3. Á tímabilinu 1. júní 1993 til 30. júní 1994 og sérhverju síðara tólf mánaða tímabili skal notkun efna er falla undir flokk 1 í viðauka a hafa
dregist saman um 20% miðað við notkun ársins 1986.
    4. Á tímabilinu 1. júlí 1998 til 30. júní 1999 og sérhverju síðara tólf mánaða tímabili skal notkun efna er falla undir flokk 1 í viðauka a hafa dregist saman um 50% miðað við notkun ársins 1986.
    9. gr. skyldar aðildarríkin til að skila skýrslu á tveggja ára fresti, m.a. um hvernig staðið hefur verið að því að gera almenning meðvitaðan um umhverfislega þýðingu ósoneyðandi efna og hvernig þau hafi uppfyllt skyldu sína um að skiptast á upplýsingum við önnur aðildarríki um málefni sem snerta ósonlagið og eyðingu þess.
    Þar sem engin ósoneyðandi efni eru framleidd hér á landi leiðir aðild að bókuninni til þess að einungis verður að draga úr notkun þeirra efna sem hún tekur til. Notkunin verður síðan heimil eins og hér segir: Að því er varðar klórflúorkolefni: Fyrsta tímabilið, frá júlí 1989 til 30. júní 1990, verður leyfileg notkun 200 tonn, 1. júlí 1993 til 30. júní 1994 verður leyfileg notkun 160 tonn, 1. júlí 1998 til 30. júní 1999 verður leyfileg notkun um 100 tonn og að því er varðar halon á árinu 1992 verður leyfileg nýting 14,5 tonn.
    Ríkisstjórnin mun leggja fram frv. til l. á grundvelli 4. gr. Montreal-bókunarinnar, þar sem innflutningur á þeim efnum sem bókunin tiltekur verður bannaður. Þá hefur ríkisstjórnin skipað sérstaka framkvæmdanefnd um aðgerðir til að draga úr notkun

ósoneyðandi efna. Heilbrmrn. hefur þegar sett reglugerð um bann við innflutningi á úðabrúsum sem nota klórflúorkolefni sem drifmiðil og merkingar á úðabrúsum. Þessar aðgerðir eru nægileg fyrstu skref í framkvæmd Montreal-bókunarinnar. Næsta skref er að setja reglur um notkun halona t.d. í slökkvitækjum.
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. utanrmn.