Vínarsamningur um vernd ósonlagsins
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að fagna fram kominni till. til þál. um staðfestingu á Vínarsamningnum um vernd ósonlagsins og um það að staðfesta bókun sem gerð var í Montreal um efni sem valda rýrnun á ósonlaginu. Það hefur talsvert verið rætt um þetta efni í þingsölum á síðustu árum. Man ég til að mynda eftir því að Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir ásamt nokkrum öðrum þingmönnum tók þetta mál upp fyrir nokkrum árum og síðan varaþingmaðurinn Álfheiður Ingadóttir ásamt nokkrum þingmönnum Alþb. sem fluttu þáltill., en af hálfu stjórnvalda var tekið á þessu máli í tíð síðustu ríkisstjórnar með tvennum hætti, annars vegar þegar sett var á laggirnar nefnd til að gera tillögur um umhverfisvernd á vegum forsrn., en í niðurstöðum þeirrar nefndar var talsvert fjallað um þetta sérstaka atriði, og eins sérstaklega hjá nefnd sem kölluð hefur verið ósonnefnd og skilaði áliti á sl. ári, en þá nefnd setti iðnrh. í síðustu ríkisstjórn á laggirnar og hún skilaði niðurstöðum, þeim niðurstöðum sem hafa orðið grundvöllur frekari ákvarðana stjórnvalda og voru grundvöllur tillögu sem hæstv. iðnrh. gerði ríkisstjórn í desember sl. og er nú að færast í gleggri mynd með þeirri tillögugerð sem hér á sér stað auk annarra aðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til.
    Það er full ástæða til að fagna þessu því að með því að samþykkja þessa tillögu erum við að viðurkenna að þótt smáir séum berum við ábyrgð með öðrum þjóðum, öðrum heimsins börnum á okkar umhverfi og það er ekki ávallt hægt að skýla sér á bak við að þjóðin sé fámenn. Það skiptir ekki máli hver fjöldinn er heldur að allir taki þátt í þeirri nauðsynlegu umhverfisvernd sem nú á tímum er fullur skilningur á þótt oft gangi erfiðlega að láta athafnir fylgja orðum. Einkum og sér í lagi hlýtur þetta að vera erfitt fyrir þær þjóðir sem eru komnar skemmst á veg í sínum efnahagsmálum eins og t.d. þjóðir svokallaðs þriðja heims eða þjóðir austan járntjalds, en mengun frá þessum þjóðum er smám saman að verða meiri en mengun á Vesturlöndum þar sem menn hafa vegna vaxandi velmegunar náð nokkrum tökum á því að láta fyrirtæki og almenning taka þátt í kostnaðinum við að eyða mengun af völdum iðnaðarframleiðslu þessara landa.
    Sem betur fer er vaxandi skilningur á þessu, ekki síst austan járntjalds, og vil ég geta þess hér að talsverðar umræður urðu um þetta á sérstakri ráðstefnu sem haldin var með fulltrúum frá Norðurlöndum, Sovétríkjunum og Kanada eða fyrir þingmenn frá löndum á norðurhveli jarðar, en sú ráðstefna var haldin í Moskvu í vetur. Þar urðu talsverðar umræður um þetta mál og þá leyfðu íslensku fulltrúarnir sér að leggja áherslu á að fylgt væri samningnum frá Vín og bókuninni frá Montreal, auk þess sem Norðurlandafulltrúarnir bentu á samþykktir Norðurlandaráðs, en einmitt í skýrslu ósonnefndarinnar er þess getið að full ástæða sé til þess fyrir íslensk stjórnvöld að fylgja annars vegar samþykkt Norðurlandanna og hins vegar að taka þátt í því starfi

sem nauðsynlegt er á grundvelli Vínarsamkomulagsins.
    Hér á landi gera kannski ekki allir sér grein fyrir því að mælingar á ósonlaginu hófust árið 1952 eða aðeins tveimur árum eftir að þau efni komu til sögunnar sem mest hafa haft áhrif á ósonlagið að því er talið er. Nú held ég að menn verði að undirstrika að ekki liggja fyrir órækar sannanir fyrir því að þau efni, klórflúorefni, sem talin eru skaðvænleg fyrir ósonlagið séu það í raun eða hvort hér sé um að ræða breytingar á þykkt ósonlagsins sem eigi aðrar skýringar, enda eru mælingar nýtilkomnar. Mér hefur skilist að Veðurstofan hafi hér á landi gert slíkar mælingar, niðurstöður verið sendar til Kanada allt frá árinu 1952, en þar hafi verið safnað saman mjög miklum upplýsingum um þetta mál. En á seinni árum hafa það verið fyrst og fremst Bandaríkjamenn, einkum og sér í lagi NASA, sem hefur haft umsjón með þessum málum af þeirra hálfu, en þeir hafa stundað öflugustu rannsóknir á breytileika og þykkt ósonlagsins, bæði yfir suðurskautinu og eins annars staðar, en suður- og norðurskautin eru þau svæði sem kannski eru viðkvæmust í þessu tilliti af alkunnum ástæðum sem um hefur verið ritað og margt um fjallað.
    Ég vildi, virðulegur forseti, undirstrika það af minni hálfu og míns flokks að við leggjum áherslu á að þessi tillaga verði samþykkt og fögnum því að það sé mikill skilningur á málinu og ég leyfi mér eindregið að taka undir með hæstv. ráðherra að óska eftir því að tillagan verði samþykkt á yfirstandandi þingi. Þar með eru Íslendingar komnir í hóp þeirra þjóða sem vilja taka á sig þá ábyrgð og þann kostnað sem fylgir því að vernda umhverfið jafnvel þótt það skili sér ekki fyrr en eftir áratugi og jafnvel ekki fyrr en eftir öld.