Vínarsamningur um vernd ósonlagsins
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég vil eins og þeir sem hér hafa rætt um dagskrármálið, till. til þál. um staðfestingu Vínarsamningsins um vernd ósonlagsins, fagna því að þetta mál er hér komið í höfn af Íslands hálfu, þ.e. staðfesting samningsins. Það er mjög þýðingarmikið skref í alþjóðlegri viðleitni til að girða fyrir eða draga úr hættunni af eyðingu ósonhjúpsins á jörðu.
    Ég hef verið meðflm. að tveimur þingsályktunartillögum um þetta mál á fyrri stigum sem getið var um áðan af hv. 1. þm. Reykv. Í fyrra gerðist það á þinginu að samþykkt var að vísa til ríkisstjórnar till. til þál. um verndun ósonlagsins þar sem 1. flm. var hv. varaþingmaður Álfheiður Ingadóttir og var þar ályktað að fela ríkisstjórninni að grípa til ráðstafana í fjórum tölusettum liðum. Einn liður tillögunnar var sá að ríkisstjórninni var falið að staðfesta svo fljótt sem við verður komið Montreal-samninginn um verndun ósonlagsins frá 16. sept. 1987 og Vínarsáttmálann frá 22. mars 1985 um sama efni.
    Nú er þetta mál komið í höfn og að því hafa komið margir með jákvæðum hætti, þar á meðal hv. 1. þm. Reykv. meðan hann gegndi starfi iðnrh. Þannig þarf það að vera í þessum þýðingarmiklu málum sem vart getur verið ágreiningur um, síst af öllu flokkspólitískur, þar sem hér er um heildarhagsmuni mannkyns að ræða.
    Ég ætla ekki að orðlengja þetta af minni hálfu frekar, bendi aðeins á að það er mikið starf fyrir höndum af Íslands hálfu að uppfylla þær kvaðir sem við undirgöngumst með staðfestingu þessa alþjóðasamnings.