Efling löggæslu
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég ætla að taka undir með síðasta ræðumanni að efling löggæslu og efling menntunar sé mjög þýðingarmikið mál. En ég kom aðallega í pontu út af orðum hv. 3. þm. Norðurl. e. vegna þess að hann var að tala um að þingmenn létu framkvæmdarvaldið valta yfir sig og beygja sig í hverju málinu á fætur öðru. Hann var sjálfur fyrir hálfum öðrum klukkutíma að láta framkvæmdarvaldið valta yfir sig í svokölluðu húsbréfafrv. Ég er honum alveg sammála um að störf þingsins snúast allt of mikið um að framkvæmdarvaldið er að troða málum í gegn og nota stjórnarmeirihlutann eins og tuskubrúður og lætur hann rétta upp hendi eftir þörfum. Það var það sem gerðist fyrir hálfum öðrum klukkutíma. Auðvitað á framkvæmdarvaldið að lúta vilja löggjafarvaldsins. Það er ekki nein spurning. Það er bara búið að hafa endaskipti á þessu öllu saman og það er raunverulega stórmál sem þingið þyrfti að taka upp til endurskoðunar.
    Sú þáltill. sem hér er til umræðu um eflingu löggæslu er mjög gott mál og ég styð það eins og það er fram lagt. En í sambandi við samskipti framkvæmdarvalds og löggjafarvalds er sannarlega kominn tími til að það verði kíkt á málin upp á nýtt.