Flm. (Pálmi Jónsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um opinbera þjónustu í viðskiptabönkum og sparisjóðum sem er 313. mál þessa Alþingis. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hlutast til um að viðskiptabankar og sparisjóðir taki að sér þjónustu við almenning fyrir opinbera sjóði og fjármálastofnanir, svo sem Byggingarsjóð ríkisins, Byggingarsjóð verkamanna, Lánasjóð ísl. námsmanna, Byggðasjóð, fjárfestingarlánasjóði atvinnuveganna o.fl.
    Miða skal við að hin breytta tilhögun þessara mála hafi tekið gildi eigi síðar en 1. janúar 1990.``
    Það er öllum kunnugt að á síðari árum hefur opinber þjónusta vaxið hröðum skrefum í okkar þjóðfélagi. Sífellt fjölgar því fólki sem starfar að þjónustugreinum en að sama skapi fækkar því fólki hlutfallslega sem vinnur að framleiðslu í þjóðfélaginu. Samtímis þessu hefur það gerst, eins og alkunna er einnig, að þjónustugreinum hefur vaxið mun hraðar fiskur um hrygg á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landsbyggðinni.
    Opinber þjónusta er þess eðlis að borgararnir ættu að hafa sem jafnastan rétt til að nálgast hana eða njóta þess sem hún hefur upp á að bjóða, enda er hún greidd af almannafé. Því fer þó víðs fjarri að þessu sé þann veg háttað og það hefur í raun og veru ekki verið rætt sem skyldi hvernig úr þessu megi bæta jafnmikilvægt og þetta mál er frá sjónarhóli hins almenna borgara og hvílíkt réttlætismál það er fyrir fólkið í landinu að geta átt sæmilega jafnan rétt til þess að nálgast þá þjónustu sem kostuð er af almannafé. Þessu er þó nokkuð misjafnt farið eftir einstökum þjónustugreinum og eftir einstökum stofnunum ríkisins. Nokkrar af hinum stærri stofnunum ríkisins, sem sinna bæði þjónustu og fjárfestingu, hafa komið upp allviðamiklu kerfi og útibúum um landsbyggðina sem hafa gegnt því hlutverki að jafna aðstöðu fólksins sem unnið er fyrir. Svo er t.d. um stofnanir eins og Póst og síma, Vegagerð ríkisins og Rafmagnsveitur ríkisins sem allar hafa viðamikið kerfi þjónustustofnana og stofnana sem sinna bæði þjónustu og fjárfestingu, framkvæmdum á vegum þessara aðila og allir þekkja. Þessu er enn fremur svo farið með Tryggingastofnun ríkisins sem frá öndverðu hefur haft afgreiðslu sinna mála hjá fógetum og sýslumönnum í landinu. Það kerfi hefur gefist vel. Aðrar opinberar fjármálastofnanir og sjóðir, að undanskildum viðskiptabönkunum, eru á hinn bóginn þann veg staddar að þær er ekki að finna nema á einum stað á landinu og það er hér í Reykjavík. Þannig er því varið t.d. um fjárfestingarlánasjóði atvinnuveganna, Húsnæðisstofnun ríkisins og þar með Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna, Lánasjóð ísl. námsmanna og að mestu leyti um Byggðastofnun og Byggðasjóð. Byggðastofnun hefur þó komið upp einu útibúi sem er á Akureyri og er nýlega tekið til starfa.
    Þetta er í raun og veru óviðunandi fyrirkomulag. Sá sem þarf að fá afgreiðslu sinna mála, t.d. varðandi

húsnæðislán eða námslán fyrir ungmenni sem er í námi erlendis, nær ekki þessari þjónustu nema á einum stað á landinu, þ.e. á Laugavegi 77 í Reykjavík. Þingmenn þekkja það vitaskuld vel, sem hafa oft átt þátt í því að sinna fyrirgreiðslu fyrir umbjóðendur sína hvaðanæva af landinu, að það er snúningasamt eða a.m.k. getur verið snúningasamt að fá afgreiðslu á málum og að sækja þá nauðsynlegu þjónustu sem þessar stofnanir veita. En þetta verður fólk að búa við eins og þessu háttar nú hvort sem fólk býr austur á Langanesi eða Vopnafirði eða vestur á Vestfjörðum eða hvar sem er annars staðar á landinu og þekkja menn að það kostar ærið fé að leggja í þann ferðakostnað sem þarf til að geta þá náð að komast á þann stað þar sem þessi þjónusta er veitt.
    Þetta er vitaskuld óviðunandi fyrirkomulag og þetta er forneskjulegt fyrirkomulag í því þjóðfélagi sem kallar sig nútímaþjóðfélag. Í þessu felst ranglæti varðandi borgarana í landinu sem verður að finna leiðir til að bæta úr án þess að lagt sé í óhóflegan kostnað.
    Sú tillaga, sem hér er flutt, stefnir að því að fela viðskiptabönkum og sparisjóðum að annast þessa þjónustu, þ.e. afgreiðslu fyrir fjármálastofnanir og sjóði í eigu hins opinbera. Með því fyrirkomulagi væri náð þeim aðalmarkmiðum sem eru tvenns konar: Í fyrsta lagi væri þjónustan færð eins nálægt fólkinu í landinu og mögulegt er og í öðru lagi væri þetta væntanlega gert með minni kostnaði en mögulegt er með öðrum hætti.
    Ég held að aðrar leiðir að þessu sama marki séu ýmist annað tveggja gagnslitlar eða óraunsæjar vegna kostnaðar. Aðalstöðvar opinberra sjóða eða fjármálastofnana verða tæplega fluttar út á landsbyggðina, enda mundi það ekki stuðla að auknu jafnrétti milli landsmanna að flytja stofnanir sem þessar af einum stað á landinu yfir á annan, jafnréttið mundi ekki vaxa við það. Tillögur í þá átt eru því gjörsamlega óraunhæfar. Stofnun útibúa eða sérstakra afgreiðslna fyrir sjóði eða stofnanir er líka gagnslítil ráðstöfun því að þessar stofnanir mundu tæplega geta sett upp slíka afgreiðslu á svo mörgum stöðum á landinu að það væri viðráðanlegt kostnaðar vegna. Slíkt kerfi getur
ekki orðið á annan veg en þann að það verði allt of kostnaðarsamt, allt of dýrt.
    Ég hef hugsað talsvert mikið um þessi mál og hef komist að þeirri niðurstöðu að með þeirri leið sem stungið er upp á í þessari þáltill. sé náð því markmiði, sem ég hef hér áður lýst, að flytja þjónustuna eins nærri fólkinu og hægt er, og það sé gert með kostnaði sem ætla má að sé viðráðanlegur. Það getur þurft vitaskuld að beita verulegum áhrifum af hálfu stjórnvalda til að fá þessar stofnanir, þ.e. viðskiptabankana og sparisjóði, til þess að taka þjónustuna að sér án þess að um óhóflegan kostnað verði að ræða í tengslum við það.
    Ég held að það sé því meira en tímabært að þeirri lausn sem hér er um fjallað verði hrundið í framkvæmd. Nú er mikið mein að því að þó að þessi

till. sé flutt fyrir nokkrum mánuðum hefur hún ekki komið til umræðu fyrr en í dag og kannski litlar líkar til að hún verði afgreidd á þessu þingi. En ég beini því til hæstv. viðskrh., sem hér er viðstaddur og ég þakka honum fyrir, að þrátt fyrir að tillagan nái eigi fram að ganga á þessu þingi, sem væri þó vitaskuld best og væri hægt ef menn vildu virkilega stuðla að því, hefji hann það starf að hlutast til um að ná þeim markmiðum sem till. greinir.
    Ég skal svo ekki lengja, hæstv. forseti, umfjöllun um þetta þýðingarmikla mál. Ég legg til að till. verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.