Flm. (Pálmi Jónsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir hans undirtektir við þetta mál og þær upplýsingar sem hann hefur gefið. Mér var það vitaskuld að fullu ljóst að það er hægt að greiða af lánum, ýmsum hverjum og kannski öllum, í gegnum bankakerfið. Bæði með gíróþjónustu og með öðrum hætti er hægt að nota bankakerfið til að annast afborganir lána. En ég hafði meira í huga og þá í fyrsta lagi að því er varðar umsóknir um lán úr sjóðum, afgreiðslu þeirra og þá miklu vafninga sem fólk þarf að leggja í til þess að komast í gegnum þá flækju sem því er oft samfara. Ef til að mynda viðskiptabankar og sparisjóðir hefðu þó ekki væri nema umsóknareyðublöð frá þessum stofnunum og þar væri hægt að ganga frá umsóknum og í gegnum bankana væri hægt að ganga einnig frá afgreiðslu á málum væri það mikil framför.
    Ég hef ekkert við athugasemd hæstv. ráðherra að athuga í sjálfu sér um þá dagsetningu sem ég tók til í tillgr. að miðað er við, að þessi nýja tilhögun þessara mála hefði tekið gildi 1. janúar 1990. Vitaskuld er slík dagsetning sett í tillgr. til þess að leitast við að ýta á eftir því að unnið sé að því eins hratt og kostur er að koma slíku kerfi fram. Að því leyti hefur dagsetningin tilgang. Ef það þyrfti að dragast um einhverja mánuði eða kannski takast að gera þetta fyrr, þá getur það allt saman verið bæði skiljanlegt og eðlilegt þannig að út af fyrir sig hef ég ekkert frekar um þá athugasemd hæstv. ráðherra að segja.
    Ég skal ekki lengja þetta, hæstv. forseti, aðeins þakka hæstv. ráðherra fyrir hans viðbrögð og treysti því að það verði unnið að þessum málum sem eru mikilvæg og koma um leið í veg fyrir að upp rísi óhóflegar kröfur um fjárfestingu í útibúum, afgreiðslustofnunum, þjónustumiðstöðvum eða hvað það nú allt saman er kallað, stjórnsýslumiðstöðvum um landið sem kosta stórfé og ættu að fást við mál sem hægt væri að leysa með einföldum hætti eins og hér er bent á.