Málefni Sigló hf. og fleira
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Það verður að segjast í upphafi að vissulega verðskuldar hv. þm. Friðrik Sophusson hamingjuóskir fyrir viðleitni og góða frammistöðu fyrir vondum málstað. Hann var greinilega valinn til að standa í þessari erfiðu stöðu hér og verja Sjálfstfl. Hann reyndi högg undir belti, hann reyndi reiði í ræðustól, hann reyndi háð, hann reyndi glósur, hann reyndi útúrsnúninga. Og allt féll þetta nokkuð vel saman. Hann myndaði þessa gamalkunnu heild sem máltækið hefur kennt: Margur heldur mig sig, en alþekkt er úr íslenskum stjórnmálum sem gamla samtryggingarkerfið, ( Gripið fram í: Það vantar viðbótina á máltækinu.) gamla, spillta samtryggingarkerfið.
    Þessi svokallaða vörn hv. þm. Friðriks Sophussonar fyrir það hneyksli sem meðferð Sjálfstfl. á Siglósíld er var óskaplega léttvægur málflutningur um það mál, en mjög sterkir leikrænir tilburðir um annað mál til að reyna þá niðurstöðu að núv. fjmrh. væri a.m.k. eins spilltur og Sjálfstfl. og þess vegna væri þetta kannski allt í góðu lagi. Það hefur nefnilega löngum tíðkast í íslenskum stjórnmálum og verið eitt helsta meinið í gamla, spillta samtryggingarkerfinu að hóta með því: Ef þú kjaftar frá mér, þá kjafta ég frá þér. Það var auðvitað þess vegna sem Sjálfstfl., þrautþjálfaður í áratugi í gamla, spillta samtryggingarkerfinu, hljóp niður í þingflokksherbergi eftir að upplýsingarnar um Siglósíld höfðu verið reiddar fram og setti í snarhasti fram beiðni um skýrslu þar sem tilgangurinn var annars vegar að reyna að reiða fram eitthvað um Siglósíld, en aðallega þó að koma á framfæri tveimur málum sem snerta núv. fjmrh. og verk hans til þess að geta hafið umræðuna í þessum gamla góða stíl: Þú ert a.m.k. eins spilltur og við. Það er hins vegar sorglegt að ungur og efnilegur stjórnmálamaður, sem ég hef að mörgu leyti haft mikla trú á, hv. þm. Friðrik Sophusson, skuli setja sig í þetta verk. En menn gera ýmislegt fyrir flokkinn sinn, menn fórna sér í ýmis skítverk og ætla kannski að fá laun í staðinn síðar.
    Í raun og veru þarf ekki að ræða þessa skýrslu Ríkisendurskoðunar mjög mikið. Hún talar nefnilega alveg skýru máli. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru gerðar afdráttarlausar og skýrar athugasemdir og fordæmingar á meðferð Sjálfstfl. á Siglósíld. Varðandi hins vegar þau tvö mál sem Sjálfstfl. ætlaði að reyna að klína upp á mig eru engar athugasemdir gerðar, engar. Það er niðurstaðan. Tilraunin mistókst. Sjálfstfl. brenndi sig í puttana með því að biðja um þessa skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það voru í reynd herfileg mistök, fljótfærni niðri í þingflokksherberginu af reiðum mönnum sem standa núna frammi fyrir því að Ríkisendurskoðun staðfesti allt það sem ég sagði í fyrirspurnatíma um Siglósíld nema hún kann ekki við að setja flokksmerkið við stjórnarmenn Siglósíldar í skýrslunni, eðlilega, enda ekki spurð um það og ekki hennar hlutverk heldur. En efnahagslega, reikningslega, stjórnarfarslega er fordæmingin hjá Ríkisendurskoðun skýr og afdráttarlaus. Þess vegna hefði verið eðlilegast

að hafa bara þögn í þingsalnum, samúðarþögn með Sjálfstfl. vegna þessara ,,taktísku`` mistaka. En hv. þm. Friðrik Sophusson, kjarkmikill maður, hæfileikaríkur maður, ég verð að segja það, gerði það besta úr vondu máli og fljótfærnislegri tilraun og reiðikasti Sjálfstfl. sem hægt var að gera við þessar aðstæður. Hann var hins vegar að vísu dálítið óheppinn vegna þess að það vildi svo til að hv. þm. Matthías Á. Mathiesen bar fram fyrr í dag fyrirspurn um afgreiðslu fjmrn. á Nútímanum, því máli sem hv. þm. Friðrik Sophusson með dramatískum tilburðum, steyttum hnefum hér í ræðustóli og raddbeitingu sem er óvenjuleg af hans hálfu ætlaði að klína upp á mig sem einhverju sérstöku hneykslismáli. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen fékk svör í dag við sinni fsp., skýr og afdráttarlaus svör. Það er athyglisvert að hann er ekki hér í þingsalnum í dag, hann er ekki viðstaddur þá leiksýningu sem hv. þm. Friðrik Sophusson fór með áðan vegna þess að Matthías Á. Mathiesen veit eftir þau svör sem hann fékk hér í morgun að það er ekkert athugavert við þetta mál. Það er fullkomlega í samræmi við þær venjur sem hafa skapast um áraraðir og er þess vegna í sama flokki og yfir 170 önnur slík mál á þessum áratug, mál sem eru einfaldlega þannig vaxin, eins og fram kom í morgun sem svar við fsp. hv. þm. Matthíasar Mathiesen, að þegar við blasir að fyrirtæki eru gjaldþrota á ríkissjóður um tvennt að velja, annaðhvort að missa algjörlega af öllum þeim skuldum sem hann á hjá fyrirtækinu eða ganga til samninga við fyrirtækið um að greiða eitthvað af þeim. Þetta er venja sem helgast af því að ríkissjóður sem innheimtuaðili verður auðvitað að vega það og meta hvort hann fær eitthvað eða ekkert. Eins og ég sagði áðan eru ekki bara tugir heldur nær tvö hundruð tilvik á þessum áratug um slík uppgjör.
    Hitt vil ég svo segja alveg skýrt og afdráttarlaust að ég hafði ekki hugmynd um það að fáum dögum síðar væri verið að selja gjaldþrotatap Nútímans öðru fyrirtæki til að skapa því grundvöll til skattaívilnana. Það er sannleikur málsins af minni hálfu. Um það mál frétti ég ekki fyrr en eftir áramót. Það er eins með þann þátt, kaup Vífilfells á skattaskuldum eða kaup Vífilfells á gjaldþrota fyrirtæki til þess að skapa sér skattaívilnanir, og með kaup Vífilfells á gamla Álafossi að um þær aðgerðir frétti fjmrh. ekki fyrr en þær
voru um garð gengnar. Það mál er þess vegna fjmrn. og mér algjörlega óviðkomandi. Um það hafði ég enga vitneskju og er alfarið mál forsvarsmanna Nútímans og fyrirtækisins Vífilfells.
    Hins vegar vek ég athygli hv. Alþingis á því að ég lagði fram fyrir áramót frv. um breytingar á skattalögum sem lokuðu vonandi í eitt skipti fyrir öll þeim möguleika að fyrirtæki gætu keypt önnur gjaldþrota fyrirtæki í óskyldum rekstri til þess að skapa sér skattahagnað. Þess vegna væri ekki hægt nú á grundvelli þeirra laga sem ég beitti mér fyrir að sett væru hér á Alþingi fyrir síðustu áramót að framkvæma þessa aðgerð, sem betur fer, vegna þess

að eitt af því sem nauðsynlegt var að útrýma úr viðskiptalífi og skattkerfi okkar á Íslandi var sá ósiður, sem á stundum var meðvituð misbeiting á aðstöðu og fjármunum, að fyrirtæki, af hvaða tagi sem þau væru, gætu keypt önnur gjaldþrota fyrirtæki og skapað sér þannig verulegan skattahagnað.
    Vífilfell hefði þess vegna, á grundvelli þeirra laga sem nú eru í gildi, á grundvelli þeirra breytinga sem Alþingi samþykkti og ég lagði til hér fyrir áramót, hvorki möguleika á því að kaupa gjaldþrot gamla Álafoss né kaupa gjaldþrot Nútímans og skapa sér skattahagnað í því skyni.
    Ég vænti þess vegna að ég hafi svarað þessari spurningu hv. þm. alveg nægilega skýrt.
    Varðandi hina spurningu hans, en í raun og veru var eingöngu um tvær efnislegar spurningar til mín að ræða, hvort fjmrn. væri, með því að samþykkja gagnagrunn sem veðtækan, að fara inn á nýjar brautir, er svarið við því, eins og fram hefur komið hjá mér áður í viðtölum, já. Ég er þeirrar skoðunar að þær venjur, sem hafa skapast hér á landi, að veð séu eingöngu fasteignir að öllu jöfnu, séu ekki í samræmi við þá verðmætasköpun sem fram fer í nútíma tæknivæddu upplýsingaþjóðfélagi. Það vita það allir sem til þekkja að í upplýsingaþjóðfélagi samtímans eru upplýsingabankar, gagnagrunnar, tölvuforrit og fjölmargt það annað sem snertir tæknibúnað fyrirtækja, hugvit og annað í bættum tæknirekstri banka, fyrirtækja og annarra stofnana eitt hið verðmætasta sem getur gert fyrirtækin samkeppnishæfari. Í þessu tilviki var um að ræða einstakt verk á Íslandi eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar, ítarlega gagnasöfnun og gagnagrunn um lög til nota fyrir lögfræðinga, dómastofnanir og almenning og hins vegar víðtækasta gagnagrunn um Ísland sem hér hafa nokkru sinni verið áform um að taka saman, gagnagrunn sem er nokkuð hliðstæður mjög verðmætum verkum sem unnin hafa verið í öðrum löndum og skapa mikilvæg tæki fyrir menntastofnanir, fyrir fjölmiðla, fyrir almenning, fyrir rannsóknastofnanir og marga aðra.
    Ég hef sagt það áður í viðtölum að eðlilegt sé að bæði ríkisstofnanir, bankar og lánastofnanir lagi sig að þeim breytingum sem eru að verða í þjóðfélögum samtímans þar sem upplýsingatæknin skapar margvísleg önnur verðmæti sem vissulega eru veðhæf en fyrri tími sem fyrst og fremst leit á steinsteypu og húseignir og vélar og tæki sem slíkan grundvöll.
    Virðulegi forseti. Það væri vissulega vel þess virði að fara yfir hina ítarlegu frásögn Ríkisendurskoðunar um Siglósíld. Skýrslan sýnir afdráttarlaust að hér var um að ræða einstakt verk af hálfu íslenskra ráðamanna. Þeir veittu lengri fresti, buðu betri kjör, veittu meiri afslætti en nokkur dæmi eru um í samskiptum ríkisins við einstaklinga eða fyrirtæki. Þar að auki kemur skýrt fram í skýrslunni að þeir sem fengu að kaupa fyrirtækið, og er þá rétt að rifja upp hér til minnis fyrir hv. þm. Friðrik Sophusson að þegar heimamenn óskuðu eftir því að fá að kaupa fyrirtækið á sínum tíma var þeim meinað að gera það

og í staðinn var valinn út sérstaklega sá hópur einstaklinga sem hér er nefndur og er að meginhluta skipaður sérstökum flokksgæðingum Sjálfstfl. og honum sköpuð aðstaða til að fá þetta fyrirtæki á þessum einstöku kjörum. Það var hins vegar skiljanlegt að hv. þm. Friðrik Sophusson vildi nú ekki tala um einkavæðingu hér í dag, en hins vegar væri mjög auðvelt að rifja upp ummæli ráðamanna Sjálfstfl. bæði hér á Alþingi og í fjölmiðlum frá þessum tíma þar sem þeir töldu þessa sölu, formlegu sölu, sem ég kalla hins vegar gjöf á fyrirtækinu, vera ágætt dæmi um einkavæðingarstefnu Sjálfstfl. í verki. En ég skil vel að hv. þm. Friðrik Sophusson vilji ekki ræða það hér nú því það er auðvitað feimnismál hvernig þetta mikla hugarfóstur hans og nýfrjálshyggjunnar í Sjálfstfl., einkavæðingin, var í reynd ný regnhlíf fyrir gömlu spillinguna sem Sjálfstfl. hefur beitt í ríkiskerfinu og bankakerfinu í gegnum áratugi og jafnvel aldir, að hygla flokksgæðingum sínum undir fölsku flaggi. Það er það sem hér var að gerast. Það var verið að veita flokksgæðingum Sjálfstfl. eignarrétt á fyrirtæki án þess að þeir þyrftu að reiða fram neitt öruggt gjald eða þjóðin, sem var eigandi þessa fyrirtækis, fengi örugglega nokkuð í sinn hlut. Það væri vissulega gaman í dag að lesa upp úr þingskjölum hólræður þingmanna Sjálfstfl. þá um einkavæðinguna eða lesa upp úr Morgunblaðinu skrifin um einkavæðingu Sjálfstfl. á þeim tíma. Það er álíka eins og það væri skemmtilegt að lesa upp ræðurnar um ,,Báknið burt`` frá hv. þm. Friðrik Sophussyni sem breyttist svo í himinhrópandi andstöðu sína þegar Sjálfstfl. fór að hlaða báknið upp þegar
hann settist í ríkisstjórn. Til að bjarga sér út úr því og til þess að reyna að treysta einkakapítalið í landinu í sessi var þá gripið til einkavæðingarinnar sem átti að vera hornsteinninn í hinni nýju stefnu Sjálfstfl. en var bara lykill að nýrri spillingu, spillingu sem Ríkisendurskoðun hefur afhjúpað jafnrækilega í þessari skýrslu og raun ber vitni.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson reyndi að gera nokkuð úr því hér að þeir einstaklingar sem fengu þetta fyrirtæki að gjöf hefðu rekið það miklu betur en meðan eignarformið var annað. Engu að síður kemur fram í þessari skýrslu að rekstrartapið á verðlagi mars 1989 frá því að hinir nýju eigendur tóku við fyrirtækinu er 200 millj. kr. Það sem almenningur í landinu á hjá fyrirtækinu í dag í formi vangreiddra skatta, vangreiddra skulda og lána og annarra kvaða sem fyrirtækið tók á sig eru rúmar 70 millj. kr. Þeir sem fengu þetta fyrirtæki að gjöf fyrir nokkrum árum frá ráðherrum Sjálfstfl. skulda þjóðinni í dag 70 millj. kr. fyrir utan gjöfina. Þannig er auðvitað reikningurinn sem þjóðin ætti að senda Sjálfstfl. fyrir þessa framkvæmd einkavæðingarinnar.
    Síðan segir Ríkisendurskoðun að hún telji að þeir greiðsluskilmálar sem Sigló hf. hefur notið hjá ríkissjóði, þ.e. að fyrsta afborgun skuldabréfs er átta árum frá kaupsamningi, fyrsta vaxtagreiðsla þremur árum eftir kaupsamning og lánstíminn 18 ár, megi teljast afar sérstæðir í viðskiptum sem þessum og eigi

sér vart hliðstæðu hjá ríkissjóði. Allir þeir sem þekkja hið kurteisislega embættismannaorðfæri Ríkisendurskoðunar vita að þetta er auðvitað háttur Ríkisendurskoðunar til að viðurkenna að þarna hafi verið um hreina fjármálalega spillingu að ræða. Það átti engin afborgun að verða fyrr en eftir átta ár. Fyrsta afborgun átti að verða eftir átta ár. Fyrsta vaxtagreiðsla átti að verða eftir þrjú ár og lánstíminn var 18 ár.
    Ég spyr hv. þm. Friðrik Sophusson: Er hann reiðubúinn að láta embættismenn Ríkisendurskoðunar leita og leita og leita í reikningum og skjölum fjmrn., ríkisbókhaldsins og annarra stofnana íslenska ríkisins að slíkum kjörum og gá hvort það er hægt að finna nokkurt fyrirtæki, nokkurn einstakling sem hefur notið annarrar eins góðvildar? En hver var auðvitað ástæðan fyrir góðvildinni? Jú, það þurfti að sýna einkavæðinguna í verki. Það var pólitísk nauðsyn fyrir Sjálfstfl. að fá einhverja til að taka við slíkum fyrirtækjum til að geta dregið flagg einkavæðingarinnar að hún. Ég er ekki að saka Sjálfstfl. um það að hann hafi staðið í einhverjum arabamarkaðsvinnubrögðum til þess að afhenda einstaklingunum sem slíkum þessa fjármuni, en það var hin pólitíska nauðsyn einkavæðingarinnar sem þarna lá að baki.
    Síðan kemur á bls. 6 í skýrslunni mjög ítarleg frásögn af því hvernig ráðherrar Sjálfstfl. breyttu öllum kröfum ríkissjóðs á Siglósíld í 15 ára lán sem yrði afborgunarlaust fyrstu fimm árin þegar ljóst var strax við fyrsta tilvik að hinir svokölluðu eigendur gætu ekki staðið við samninginn. Ég fullyrði: Það er ekkert fordæmi fyrir því að slíkt hafi verið gert, enda voru þar fyrst og fremst flokksbræður í ráðherrastól að veita flokksbræðrum sínum í atvinnulífinu betri gjafaskilmála en nokkurn hefði órað fyrir að menn leyfðu sér að gera. Síðan heimilaði ríkissjóður nýjar lántökur fyrirtækisins að fjárhæð allt að 600 þús. bandaríkjadali sem hefði, hv. þm. Friðrik Sophusson og hlustaðu á það, veðheimildir á undan skuldabréfum ríkissjóðs. Það var sem sagt ekki nóg með það að öllu var breytt 15 ár fram í tímann heldur var veðböndunum létt af með þeim hætti að láta lán til fyrirtækisins verða á undan kröfum ríkissjóðs. Það er þess vegna eðlilegt að þessir þingmenn Sjálfstfl. hafi hér fyrr í dag verið jafnæstir með því frv. sem einn af þingmönnum Sjálfstfl. er 1. flm. að og ýmsir ágætir aðrir þingmenn hafa villst inn á sem felur það í sér að afnema forgang ríkissjóðs að þeim kröfum sem eðlilegt er að setja gagnvart fyrirtækjum sem ekki greiða þá skatta sem þeim hefur verið falið að innheimta.
    Það var athyglisvert að hv. þm. Friðrik Sophusson minntist ekki einu orði á þetta atriði í varnarræðu sinni, hvernig veðunum var breytt, hvernig ríkissjóður samþykkti að flytja sín veð á eftir hinu nýja láni. Allir þeir sem gátu horft á sögu fyrirtækisins, allir þeim sem sáu að fyrirtækið hafði ekki getað staðið í skilum þrátt fyrir gjafaskilmálana í fyrsta sinn gátu auðvitað séð að þar með var nánast verið að veita

fyrirtækinu nýja gjöf.
    Síðan segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar: ,,Samkomulag þetta gerði ráð fyrir að öllum vanskilum Sigló hf. vegna upphaflegra skuldabréfa yrði breytt í langtímalán`` --- öllum vanskilum yrði breytt í langtímalán --- ,,en fyrirtækið hafði ekki staðið við ákvæðið um greiðslu vaxta frá upphafi að öðru leyti en með útgáfu skuldabréfs eins og getið er um hér að framan.``
    Það er svo líka sérstakur kafli í þessari sögu hvernig þeir sem við þessari eign tóku, þeir sem nutu þessara sérstöku vildarkjara hjá Sjálfstfl., skrifuðu undir þá skuldbindingu að þeir ætluðu að reka fyrirtækið með þeim hætti að atvinnan í byggðarlaginu væri tryggð og þeir ætluðu ekki að selja eignirnar burt. En það var ekki liðinn langur tími, eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar, þar til þeir voru búnir að svíkja þetta fyrirheit sem þeir
höfðu þó ritað undir formlega í samningnum við ráðherra Sjálfstfl. Var því mótmælt af ráðherrum Sjálfstfl. að samningurinn hefði þar með verið brotinn gagnvart fólkinu í byggðarlaginu? Nei, auðvitað ekki. Vegna þess að þeir héldu áfram að horfa í gengum fingur sér við þessa flokkspólitísku vini sína. Fresta greiðslum, veita vildarkjör, flytja veð, gleyma að þeir sviku ákvæði í samningnum o.s.frv. Það er langur listinn og það er skiljanlegt að hv. þm. Friðrik Sophusson kjósi að fara fyrst og fremst með leikræna tilburði þegar þessi skýrsla Ríkisendurskoðunar talar jafnskýru máli.
    Síðan kemur það fram í skýrslunni einnig að þeir sem við gjöfinni tóku héldu áfram að fjárfesta verulega umfram það sem áformað var í kaupsamningi eins og stendur í skýrslu Ríkisendurskoðunar og þar með tefla möguleikunum til að geta staðið í skilum í stórfellda hættu. ( FrS: Það á að hæla þeim fyrir það.) Já, hv. þm. Friðrik Sophusson getur hælt mönnum fyrir glæfralegar fjárfestingar, fyrir brot á samningum, fyrir vanskil og annað slíkt og haldið áfram að reyna að tengja það allt saman einkaframtakinu og gæðum þess. En það breytir því ekki að skýrsla Ríkisendurskoðunar talar alveg skýru og afdráttarlausu máli.
    Að mörgu leyti ber að þakka þingmönnum Sjálfstfl. fyrir að hafa hlaupið svona á sig. Reiðikastið sem þeir fengu eftir fyrirspurnatímann fyrir nokkrum dögum varð til þess að nú liggur miklu skýrar fyrir en ég hafði tök á að reiða fram í fyrirspurnatímanum hvernig saga þessa máls er, saga sem vonandi verður Sjálfstfl. víti til varnaðar, verður vonandi til þess að menn leyfi sér ekki í framtíðinni að ,,selja`` eignir almennings í landinu með þessum hætti, verður vonandi til þess að jafnvel hin nýja forustusveit í Sjálfstfl. átti sig á því að það er tími til kominn að menn hætti vinnubrögðum gamla, spillta samtryggingarkerfisins hér á Íslandi.
    Tilraun hv. þm. Friðriks Sophussonar til að gera afgreiðsluna á Nútímanum eitthvert stórpólitískt hneykslismál sýnir í raun og veru hvað hann hefur vondan málstað að verja vegna þess að honum er

fullkunnugt um að það hefur verið vinnuregla í langan tíma í fjmrn. og hjá innheimtumönnum ríkissjóðs eins og ég sagði á Alþingi í morgun í svari mínu til Matthíasar Á. Mathiesen, eins og kemur fram í formlegri skýrslu sem hér var lögð fram á Alþingi fyrir tveimur árum síðan að beiðni Kjartans Jóhannssonar, eins og fram kemur í gögnum sem ég lagði fram í fjvn. fyrir nokkrum vikum, það hefur verið löng reynsla fyrir því að þegar ríkissjóður stendur frammi fyrir því að fyrirtækin eru gjaldþrota á hann tvo kosti. Annars vegar að tapa öllu eða semja við fyrirtækið ef það á annað borð hefur manndóm til að vilja greiða eitthvað. Því miður er það þannig að sum fyrirtæki greiða ekki neitt, verða bara gjaldþrota og láta almenning í landinu sitja eftir með skuldirnar. Þjóðin tapar öllu sínu, en þeir sem hafa rekið fyrirtækið sleppa burt og stofna kannski nýtt. En þó eru til ýmis tilvik þar sem bæði einstaklingar og fyrirtæki koma og segja: Við viljum borga hluta af okkar skuld þó við séum sannarlega gjaldþrota. Þá hefur venjan árum saman verið sú, hv. þm. Friðrik Sophusson, að embættismenn fjmrn. í samvinnu við innheimtumenn ríkissjóðs ganga rækilega úr skugga um hvort fyrirtækið sé sannanlega gjaldþrota og hvort aðrir lánardrottnar fyrirtækisins séu tilbúnir að gera hliðstæða samninga. Það var gert í þessu tilviki eins og yfir 170 öðrum tilvikum á þessum áratug. Það er auðvitað þess vegna sem Ríkisendurskoðun gerir enga athugasemd í þessari skýrslu við þá málsmeðferð. Ég gerði mér hins vegar fyllilega grein fyrir því að það kynnu að vera menn, bæði hér í fjölmiðlunum eins og hefur komið á daginn og örvæntingarfullir stjórnmálamenn eins og hv. þm. Friðrik Sophusson, sem kynnu að reyna að nota þetta mál til að rugla það í augum almennings og búa til úr því einhvers konar pólitískt spillingarmerki á mig af því að Nútíminn var eign Framsfl. og Framsfl. var í ríkisstjórn. Þess vegna velti ég því auðvitað fyrir mér, hv. þm. Friðrik Sophusson: Átti ég að láta Nútímann gjalda þess að Framsfl. stóð að honum? ( EgJ: Það var ekki nefnt.) Átti ég að neita Nútímanum um sams konar afgreiðslu og yfir 170 önnur fyrirtæki og einkaaðilar höfðu fengið? Það hefði verið röng ákvörðun. Það hefði verið misnotkun á pólitísku valdi. Ég kaus þess vegna að láta aðstandendur Nútímans ekki gjalda þess að þeir voru framsóknarmenn. Ef ég hefði neitað Nútímanum um sams konar meðhöndlum og embættismenn fjmrn. höfðu gert við fjölmörg önnur fyrirtæki á undanförnum árum vegna þess að hér var um fyrirtæki Framsfl. að ræða, þá hefði verið hægt að saka mig um pólitíska misnotkun. En ekki á þann hátt að láta nákvæmlega sömu reglu gilda í þessu tilviki og í öllum öðrum. En ég vil svo hins vegar líka taka það alveg skýrt fram vegna aðdróttana hv. þm. Friðriks Sophussonar að í umræðum milli mín og þeirra sem þetta mál studdu, í umræðum milli þeirra og embættismanna fjmrn. var aldrei einu orði á það minnst að síðan væri ætlunin að selja þrotabúið Vífilfelli til að skapa grundvöll fyrir skattaafslætti hjá Vífilfelli. Það get ég alveg sagt í hreinskilni að ég tel

óheppilegan þátt í þessu máli vegna þess að það einmitt getur rennt stoðum undir óvandaðan málflutning af því tagi að hér hafi verið um eitthvað gruggugt á ferð, hér hafi verið um einhvern verknað að ræða sem var óeðlilegur. En eins
og ég sagði hér áðan beitti ég mér fyrir því á Alþingi að lögunum var breytt þannig að þetta er ekki mögulegt í framtíðinni.
    Ég vil svo einnig segja það við hv. þm. Friðrik Sophusson vegna þess að hann lagðist svo lágt í þessari ræðu að fara að gera sér upp þá sögu að vegna þess að Þjóðviljinn ætti í rekstrarörðugleikum væri ég hugsanlega að skapa fordæmi fyrir því að geta veitt Þjóðviljanum hliðstæða fyrirgreiðslu, ég skal segja það alveg skýrt og greinilega: Það hefur aldrei komið til tals, sú hugsun hefur aldrei verið í mínum huga og Þjóðviljinn hefur blessunarlega greitt upp allar sínar skuldir við innheimtumenn ríkisins eins og þær voru um síðustu áramót og síðan á þessu ári. Það er ekki mín ætlun í embætti fjmrh. að vinna einhver slík verk af því tagi sem hv. þm. spann sem skáldskap í sinni ræðu. Það er mín ætlun að búa til eins skýrar og afdráttarlausar reglur og hægt er og vinna eingöngu þau verk sem þola algerlega og fullkomlega dagsins ljós. Þess vegna er hv. þm. Sjálfstfl. velkomið að biðja á Alþingi um allar þær skýrslur Ríkisendurskoðunar og annarra um öll mín verk sem þeir vilja vegna þess að þá vinnureglu setti ég mér þann dag sem ég settist í þetta embætti að öll þau verk sem þar væru unnin skyldu þola dagsins ljós.