Málefni Sigló hf. og fleira
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra, sem hér var að ljúka máli sínu, kom ekki mikið að aðalatriðum þessa máls. Ræða hans var að meginhluta pólitískt orðagjálfur, einhliða árás á Sjálfstfl., aðdróttanir um spillingu og pólitískt samtryggingarkerfi sem Sjálfstfl. hefði sérstakt dálæti á og tæki þátt í og ódrengileg árás á þá aðila sem staðið hafa í atvinnurekstri á Siglufirði. Við þingmenn Sjálfstfl. getum svarað fyrir okkur hér á hv. Alþingi og átt orðaskipti við hæstv. ráðherra um sögu Sjálfstfl. og gerðir hans og svarað þeim ásökunum sem hæstv. ráðherra kemur fram með í garð okkar sjálfstæðismanna, en þeir menn sem eru fjarstaddir og staðið hafa fyrir atvinnuvegi og atvinnurekstri og hafa mátt þola að hæstv. fjmrh. hefur leyft sér að bera á fjarstadda menn svik og sukk með ódrengilegri árás hafa ekki tækifæri til þess að svara fyrir sig. Ég lýsi því að sá þáttur í máli hæstv. ráðherra var honum til vanvirðu og mál hans allt var með þeim hætti að það var auðvitað einhliða málflutningur pólitísks áróðursmanns sem situr nú í sæti hæstv. fjmrh. án þess að koma nema í örfáum atriðum að kjarna málsins eða efni þess sem hér er á dagskrá. Það eina sem varðar það aðalmál sem hér er á dagskrá um starfsemi Sigló hf. og það gjaldþrot sem þar hefur orðið var þegar hann vitnaði í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem sagt er réttilega að vissulega hefðu verið gerðir sérstæðir samningar við kaup einkaaðila á ríkisfyrirtækinu Siglósíld þar sem samningar væru með kjörum um vaxtagreiðslur þar sem vaxtalaust lán var veitt í þrjú ár og afborgunarlaust í átta ár og að slíkir samningar ættu sér e.t.v. ekki hliðstæðu. Þetta er vafalaust rétt. En hæstv. ráðherra gerir enga tilraun til þess og gerir ekkert í því að upplýsa hvað það var sem réði því að hagsmunum ríkissjóðs sýndist vera betur borgið með þessum hætti en halda áfram þeim rekstri sem verið hafði í gangi af hálfu ríkisfyrirtækisins. Ég fullyrði og kem nánar að því síðar í ræðu minni að það var hagstæðara fyrir ríkissjóð að gefa þessa verksmiðju og gefa hana raunverulega, svo notað sé orð hæstv. fjmrh.: jafnvel þó að hún hefði verið gefin með meðgjöf, en halda áfram þeim rekstri sem þar var við lýði í höndum ríkissjóðs.
    Sú umræða sem hér fer fram um þetta efni á sér rætur í því, eins og fram hefur komið í máli hv. 1. þm. Reykv., að fyrir fáum dögun var tekin hér til umræðu fsp. frá hv. 5. þm. Norðurl. v. Jóni Sæmundi Sigurjónssyni þar sem farið var fram á að fjmrh. svaraði fsp. um Sigló hf. Þær fyrirspurnir báru með sér eins konar grunsemdir um það eða aðdróttanir að óeðlilega hefði verið staðið að málum af hálfu skiptaráðanda við leigu á fyrirtækinu til annars aðila eftir að það varð gjaldþrota og fyrirspurnin bar líka með sér að í henni voru óviðurkvæmilegir sleggjudómar um þann gerning og sagt eins og hér segir, með leyfi forseta, sem er sleggjudómur, ,,þannig að komist verði hjá greiðslu allra skuldbindinga til stórskaða fyrir skuldareigendur``. Þetta er sleggjudómur sem byggist annað tveggja á vanþekkingu eða hreinum

missögnum, og hefur sennilega ráðið trúgirni hv. þm., einhverjum söguburði sem hann hefur um þetta heyrt.
    Ég rifja þetta upp vegna þess að ég vil láta það koma fram að frumhlaup hv. þm. Jóns Sæmundar Sigurjónssonar við það að leggja þessa fsp. fram af hálfu eins af þingmönnum Norðurlands vestra var síst til þess fallið að lægja þær öldur sem risið hafa um þetta mál, síst til þess fallið að greiða fyrir því að atvinnulíf á Siglufirði gæti þróast og dafnað með eðlilegum hætti, að það fyrirtæki sem nú hefur orðið gjaldþrota gæti komist í hendur nýrra aðila með sæmilegum hætti þannig að friður yrði um það mál. Það var mikil nauðsyn á því að þingmenn Norðurlands vestra leituðust við að stuðla að því að sú verksmiðja sem hér um ræðir og rekin var af Sigló hf. geti starfað áfram þótt fyrirtækið sem rak hana hafi orðið gjaldþrota og að heimamenn ásamt aðkomumönnum taki höndum saman og leggi fram fé til að koma rekstrinum á heilbrigðan og eðlilegan grundvöll. Ég hlýt að byrja ræðu mína með því að finna að því að þessi fsp. skyldi hafa verið sett fram með þeim hætti sem gert var og á þann máta að varð til þess að ýfa upp það mál sem hefði þurft að reyna að ná betri friði um en hefur verið gert með þessum hætti.
    Hér var af hálfu hv. 1. þm. Reykv. rifjaður upp þáttur hæstv. fjmrh. í því máli sem var ekki síður frumhlaup með aðdróttunum í garð okkar sjálfstæðismanna og hann hefur hér endurtekið. Ég ætla ekki að ræða það að sinni, það var gert af hálfu hv. þm. Friðriks Sophussonar, en kem e.t.v. að því hér frekar síðar í ræðu minni.
    Ég held að ekki verði hjá því komist að minna á að niðurlagningarverksmiðjan Siglósíld, sem var fyrirtæki í eigu ríkisins og hafði starfað um allmargra ára skeið, hafði gengið misjafnlega. Sum árin lá reksturinn að mestu leyti niðri. Önnur ár var reksturinn með tröppugangi, en sum árin gekk reksturinn að því leyti vel að starfsemin hélt áfram. En þegar reksturinn gekk var hann þó með þeim hætti að alla jafnan var rekstrartap á því fyrirtæki sem svaraði eigi minna og stundum meira en öllum vinnulaunum starfsfólks við fyrirtækið og ríkissjóður, eigandi fyrirtækisins, greiddi hallann. Þessi halli varð samkvæmt
því sem segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar á uppreiknuðu verði samtals á ellefu árum tæplega 135 millj. kr. og eru þó inni í þeim ellefu árum þrjú ár þar sem starfsemin lá að mestu leyti niðri. Eftir þau þrjú ár var veitt inn í fyrirtækið til að bæta upp halla verulegri fjárhæð eða að jafnvirði 35,2 millj. kr. miðað við núvirði, en þá var líka kominn fjmrh. sem yfirstjórnandi fyrirtækisins sem var flokksbróðir hæstv. núv. fjmrh., þ.e. einn af þingmönnum Norðurlandskjördæmis vestra, hv. 4. þm. Norðurl. v. Ragnar Arnalds. Þegar hann var fjmrh. veitti hann verulegu fé í fyrirtækið til að greiða uppsafnaðan rekstrarhalla eða sem svarar að núvirði 35,2 millj. kr. og það gat þá haldið áfram að starfa. Þrátt fyrir þetta hélt rekstrartap fyrirtækisins áfram svo að árlega varð

að leggja til milljónir króna til rekstursins til þess að fyrirtækið strandaði ekki, eða sem svaraði að jafnaði öllum vinnulaunum starfsfólks verksmiðjunnar.
    Ef svo hefði haldið áfram, og það var rækilega skýrt af hálfu hv. 1. þm. Reykv., með fyrirtæki sem var um fimm sinnum minna að umfangi og rekstri en Sigló hf. varð síðar hefði ríkissjóður þurft áfram að leggja til fé með fyrirtækinu. Þetta var sú staða sem forsjármaður ríkissjóðs, hæstv. þáv. fjmrh. Albert Guðmundsson, stóð frammi fyrir og það virtust a.m.k. sannarlega kjarakaup fyrir ríkissjóð að selja fyrirtækið með þeim hætti sem gert var á 18 millj. kr. og gefa rýmilega greiðslufresti þó svo að þeir frestir væru lengri en almennt hafa tíðkast. Og ég endurtek: Það hefði verið hagstæðara fyrir ríkissjóð að gefa fyrirtækið og jafnvel þó um meðgjöf væri að ræða.
    Það var ekki með þessum hætti verið einungis að hygla flokksgæðingum eins og hæstv. ráðherra hefur sagt. Einn af aðaleigendum fyrirtækisins og stjórnarmaður í fyrirtækinu Sigló hf. sem keypti Siglósíld er yfirlýstur framsóknarmaður og hefur starfað mikið fyrir þann flokk. Það er enn fremur rangt, sem hæstv. ráðherra sagði hér, að þegar fyrirtækið var selt hefðu aðrir heimaaðilar viljað kaupa fyrirtækið. Þó svo að slíkar raddir hafi komið upp var það ekki til staðar þegar til átti að taka vegna þess að aðrir aðilar treystu sér ekki til að hætta fjármunum sínum í að kaupa þetta fyrirtæki. Það má kannski segja miðað við þá þróun sem orðið hefur að þeim hafi verið nokkur vorkunn, en þetta er sú staðreynd sem fyrir liggur þannig að það sem hv. ráðherra sagði um þetta mál, að aðrir aðilar hefðu viljað kaupa, var rangt. Ég gæti tekið til orða með sama hætti og hann, notað stór orð og sagt að það hafi verið lygi. Ég kýs venjulega að nota önnur orð. Það var rangt.
    Ég held því að þetta verði að skoða í samhengi þegar menn eru að skoða hagsmuni ríkissjóðs, líta á þá kosti sem aðrir eru, og mér var kunnugt um það að hæstv. þáv. fjmrh. Albert Guðmundsson vildi ekki fara þá leið að leggja atvinnulíf á Siglufirði í rúst. Hann vildi fara þá leið að þessi atvinnurekstur héldi áfram. Ef núv. hæstv. ráðherra hefði þá verið fjmrh. hefði honum sjálfsagt verið hjartanlega sama um það hvort atvinnulíf á Siglufirði færi í rúst eða ekki og þess vegna getað lokað fyrir þær leiðir sem ríkisvaldinu voru færar í meðferð þessa ríkisfyrirtækis. Ég get ekki um það sagt en hitt er víst að Albert Guðmundsson vildi hlúa að atvinnulífi í landinu og ekki síður á Siglufirði en annars staðar. Og þeir kostir sem þarna var um að ræða voru annað tveggja að halda áfram að greiða úr ríkissjóði eftir hendinni rekstrartap þessa fyrirtækis, þeirrar litlu Siglóverksmiðju, niðurlagningarverksmiðju, ellegar að selja fyrirtækið þeim einstaklingum, þeim aðilum sem treystu sér til þess að hætta sínu fé í það að rétta fyrirtækið við og reka það. Ég kem síðar að þeim aðstæðum sem orðið hafa til þess og ráðið hafa því að þetta fyrirtæki varð gjaldþrota. Það er sannarlega sorgarsaga og það er ekki við hæfi að fjmrh. landsins hælist um yfir því og beri þá menn brigslum sem

staðið hafa að því að hætta fé sínu til þess að leitast við að halda þessum rekstri gangandi. Það er ekki við hæfi.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er sagt að eftir að kaup hafi verið um garð gengin hafi fyrirtækið Sigló hf. lagt í mun meiri fjárfestingu en gert hafði verið ráð fyrir við gerð kaupsamnings. Að þessu var hér vikið af hálfu hv. 1. þm. Reykv. en vegna kunnugleika míns af þessu máli öllu tel ég rétt að staðfesta það, sem raunar kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, að það hús sem keypt var og sá vélabúnaður sem keyptur var var að meginhluta ónýtt. Þar var að vísu að hluta vélabúnaður sem var nothæfur og hússkrokkur sem mátti nota en ástand þessara eigna var með allt öðrum hætti og verri en reiknað var með við kaup á fyrirtækinu. Það er stundum svo að þegar farið er að rífa upp gömul hús og gamlar vélar til þess að endurnýja kemur í ljós að staðan er verri og kostnaður verður meiri en gert hafði verið ráð fyrir í upphafi, og það fór því miður svo í þetta sinn. Þeir aðilar, sem keyptu Lagmetisiðjuna Siglósíld og mynduðu fyrirtækið Sigló hf., voru ekki að leika sér að því að verja fé sínu í fjárfestingu. Þeim var nauðugur einn kostur þegar farið var í það að endurbyggja og endurbæta húsnæði fyrirtækisins og vélakost þess að fara í þá fjárfestingu sem þurfti til þess að fyrirtækið gæti starfað. Þetta er vitaskuld einn af þeim þáttum sem eiga þátt í því að reksturinn varð miklu
erfiðari en ella því að fjármagnsbyrðin vegna þessa varð fyrirtækinu fjötur um fót.
    Ég segi að aðdragandinn að því að illa fór á Siglufirði hjá fyrirtækinu Sigló hf. sé margþættur. Hann er margþættur og a.m.k. að flestu leyti eigendum fyrirtækisins óviðráðanlegur. Hvers vegna? Í fyrsta lagi fullyrði ég að miðað við ástand eigna var kaupverð of hátt. Það voru ekki gjafir til flokksgæðinga, kaupverðið var of hátt, 18 millj. kr. á þáverandi verðgildi sem svarar um 90 millj. kr. að núvirði.
    Ég hef hér talið fram að fjárfestingarkostnaður var miklu meiri auk kaupverðs en gert var ráð fyrir við kaupsamning. Það þurfti því að fara í fjárfestingu sem varð síðan stórkostlegur baggi á fyrirtækinu að því er lýtur að fjármagnskostnaði.
    Varðandi fjárfestinguna er rétt að vekja á því athygli að hæstv. ráðherra leyfði sér að tala um fjárfestinguna sem brot á samningi. Hann leyfði sér hér í ræðu sinni áðan að tala um þá fjárfestingu sem hinir nýju eignaraðilar neyddust til þess að fara í vegna þess að hús og vélar voru með allt öðrum og lakari hætti en gert var ráð fyrir, hann leyfði sér að kalla það brot á samningi. Ja, það er af góðgirni mælt eða sanngirni í garð þeirra aðila sem hæstv. ráðherra þarf að skipta við úti í þjóðfélaginu. Og hann getur síðan hlegið bæði hér og annars staðar, hvort sem hann er hér á hinu háa Alþingi, hlegið að þeim sem hann þarf að hafa skipti við, hvort sem það eru fyrirtæki í atvinnurekstri, hvort sem það eru Sóknarkonur eða opinberir starfsmenn. Það er honum

frjálst mín vegna.
    Í þriðja lagi nefni ég það að í kaupsamningi voru kvaðir um það að halda þeim atvinnurekstri gangandi sem rekinn hafði verið af hálfu fyrirtækisins Siglósíldar, þ.e. niðurlagningarverksmiðju, gaffalbitaverksmiðju. Og það fór ekki betur eða verr en svo að hallarekstur á þessum þætti starfseminnar hélt áfram með svipuðum hætti og áður og var samtals, eftir fjögur ár, orðinn, og er það miðað við verðlag hvers árs, 92 millj. kr., halli á niðurlagningarþættinum. Og þá var samþykkt af hálfu þáv. ríkisstjórnar, iðnrh. og fjmrh., að losa fyrirtækið undan því að reka þessa línu og hún var seld. Það hefði verið annar svipur á afkomu þessa fyrirtækis ef þessi kvöð hefði ekki verið á því og fyrirtækið hefði verið losað undan þessari kvöð fyrr en raun ber vitni. Þó hafði verið reynt af hálfu fyrirtækisins að gera endurbætur á þessari niðurlagningarlínu en reksturinn gekk ekki eigi að síður.
    Í fjórða lagi nefni ég það að þegar fyrirtækið er keypt þá er hátt verð á rækju. Við vitum að það er ekki við neinn að sakast að sveiflur eru á verði á framleiðsluvörum okkar, en ári eftir að kaupin eiga sér stað og þegar framleiðsla byrjar í fyrirtækinu hafði verðfall orðið um 30% á þessari aðalframleiðsluvöru fyrirtækisins. Og rekstrarhalli á fyrsta ári fyrirtækisins vegna þessa verðfalls var vitaskuld alvarlegur.
    Ég nefni svo enn, af því að hæstv. fjmrh. er að bera saman rekstur á fyrirtækinu Sigló hf. og á Lagmetisiðjunni Siglósíld, að á þeim áratug eða á þeim tíma sem Lagmetisiðjan starfaði, ríkisfyrirtækið Siglósíld, og ár frá ári var rekin með halla sem svaraði öllum vinnulaunum starfsfólksins, þá var lánsfé þó að heita mátti gefins hér á landi. Þá var það sem kallað var neikvæðir raunvextir, mest af þeim tíma.
    En eftir að fyrirtækið Sigló hf. er tekið til starfa, með að vísu allt of háum fjármagnskostnaði, vegna of hás kaupverðs, vegna þess að það þurfti að ráðast í mikla fjárfestingu og vegna þess að verð féll á rækju á fyrsta ári um 30%, þá safnaði það upp skuldum sem báru hrikalega háan fjármagnskostnað. Og ef einhvers staðar hefði örlað á sanngirniskorni í ræðu hæstv. ráðherra, sem ekki var, hefði hann átt að geta áttað sig á slíkum hlutum. En það var nú ekki því að heilsa. Rekstur og rekstrarskilyrði þessara tveggja fyrirtækja, Lagmetisiðjunnar Siglósíldar, ríkisfyrirtækisins, annars vegar og einkafyrirtækisins Sigló hf. er því hvað þetta snertir m.a. gjörsamlega ósambærilegur, gjörsamlega ósambærilegur.
    Í sjötta lagi vil ég geta þess að fyrirtækið Sigló hf. greiddi svo sem önnur fyrirtæki verulegar fúlgur af framleiðslu sinni til rækjudeildar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Þetta fyrirtæki sem var stærsta rækjuverksmiðja landsins hafði greitt á skömmum tíma sem svaraði sem næst 50 millj. kr. út úr rekstrinum til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Og ég lýsi ábyrgð á hendur fyrrv. og núv. sjútvrh. fyrir það að þrátt fyrir samþykktir í síðustu ríkisstjórn og þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. núv. forsrh. þegar hann var utanrrh.

í fyrrv. ríkisstjórn og starfandi sjútvrh. í forföllum Halldórs Ásgrímssonar, bókaðar yfirlýsingar núv. hæstv. forsrh. um að greiddur skyldi út úr rækjudeild Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins helmingur af því sem rækjufyrirtækin ættu inni í þeim sjóði, þá fékkst það ekki fram vegna ofríkis núv. og fyrrv. sjútvrh. Halldórs Ásgrímssonar. Hann sagði þegar heim kom: Steingrími Hermannssyni kemur þetta ekkert við. Ríkisstjórnarsamþykkt í þeirri ríkisstjórn og yfirlýsingar starfandi sjútvrh. sem jafnframt var utanrrh. þeirrar ríkisstjórnar, Steingríms Hermannssonar, urðu marklausar og ég hlýt að
lýsa ábyrgð á hendur þeim ráðherra fyrir það að fyrirtæki sem börðust í bökkum í sjávarútvegi, í rækjuvinnslu og skelfiskvinnslu, og höfðu greitt stórfé til rækjudeildar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins fengu ekki greiddan til baka hluta af sínu fé og fóru þess vegna á höfuðið.
    Rækjuverksmiðjan Sigló hf. er ekki eina fyrirtækið sem hefur farið á höfuðið af þeim sökum. Annað fyrirtæki sem er á Vestfjörðum, stór rækjuverksmiðja þar, rækjuverksmiðja Ólsens, fór einnig á höfuðið vegna þess að innstæða þessara fyrirtækja fékkst ekki greidd til baka inn í fyrirtækin. Sú verksmiðja átti inni í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, ef ég man rétt, um 35 millj. kr.
    Á sama tíma hafði það gerst að hæstv. sjútvrh. hafði ungað út, kannski ekki inn á hvert heimili eins og hv. þm. Friðrik Sophusson sagði, en hann hafði ungað út fjölda nýrra leyfa til rækjuvinnslu (Gripið fram í.) fyrir austan, sagði hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, flokksbróðir ráðherrans, og sumpart suður um Reykjanes og Þorlákshöfn og víðar um land og ( StG: Norðurland vestra.), já, eitt fyrirtæki á Norðurlandi vestra og það var meira en nóg, hv. þm. Stefán Guðmundsson, eitt fyrirtæki þar, og ég þakkaði ráðherranum fyrir það að þau skyldu ekki vera fleiri í okkar kjördæmi. Þú mátt gjarnan segja frá því, hv. þm. Stefán Guðmundsson, að ég hafi þakkað hæstv. sjútvrh. fyrir það að hann skyldi ekki veita nema eitt nýtt rækjuleyfi í mitt kjördæmi. ( StG: Það var einu leyfi of mikið.) Það var einu leyfi of mikið, vegna þess að með því að dreifa rækjuleyfum svo um landið sem gert hefur verið var auðvitað verið að rýra hagsmuni þeirra fyrirtækja sem fyrir voru í þessari grein fiskiðnaðarins og ekki nóg með það, heldur á að nota það fé sem fyrirtækin hafa greitt inn í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, eins og Sigló hf. 50 millj., eins og Ólsen á Ísafirði 35 millj., til þess að greiða með framleiðslu hinna nýju fyrirtækja sem ungað hefur verið út um allt landið. Þetta er líklega lofsvert, eða hvað? En það er það ekki að mínum dómi. Þetta er harðlega gagnrýnisvert í meðferð framkvæmdarvaldsins á þessu máli og er einn þátturinn í því sem varð til þess að koma fyrirtækinu Sigló hf. á höfuðið. Hefðu fengist, eins og var búið að samþykkja í ríkisstjórn og eins og ég og sumir aðrir þingmenn kjördæmisins lögðu kapp á, greidd inn í fyrirtækið 50% af því sem það hafði lagt fram og sem fyrirtækið átti inni í Verðjöfnunarsjóðnum, þá

hefði það ekki farið á höfuðið. Þá væri það starfandi enn í dag. Þannig er nú staðan. Og Ólsen á Ísafirði hefði heldur ekki farið á höfuðið.
    Nú eru þeir að leika sér, hæstv. ráðherrar, með fyrirtækin í landinu, með skuldaskilasjóðum, með sjóði sem á að leggja fram hlutafé, svokölluðum hlutabréfasjóði, til þess að ráðskast um það hvort eigi að láta þetta fyrirtæki eða hitt lifa, hvort eigi að láta þetta fyrirtæki eða hitt fyrirtækið fara á höfuðið, og þurfa að fá til þess lánsfé með ríkisábyrgð --- og hvar er nú hæstv. fjmrh. --- með ríkisábyrgð sem á sinn bakhjarl þá í nýjum sköttum á þjóðina þegar til kastanna kemur. Og hvar er nú þessi hæstv. fjmrh. sem hér var áðan að belgja sig út? ( Gripið fram í: Hann er farinn.) Hann er horfinn af vettvangi. En núv. hæstv. ríkisstjórn er sem sagt að kókla með þetta, með atvinnuvegina í landinu, stofna sjóði til skuldbreytinga, stofna sjóði til að leggja fram hlutafé sem á að bjarga þessu fyrirtæki en ekki hinu og látum það vera. Það er gert með lántökum, með ríkisábyrgð sem, eins og ég sagði, á sér bakhjarl í nýjum sköttum á þjóðina þegar þar að kemur. En þessir sömu hæstv. ráðherrar neituðu að greiða til baka úr einum sjóðnum, Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, hluta af því fé sem fyrirtækin í rækjuvinnslu og skelfiskvinnslu áttu sannanlega inni í sjóðnum. Þetta er nú ráðslag. Og árangurinn er sá að við erum að tala hér um gjaldþrot Sigló hf., m.a. Við liggjum hér undir árásum um pólitískt sukk og svínarí. Og eigendur fyrirtækisins, sem gjaldþrota er orðið, liggja undir árásum um svik og aðdróttunum um að þeir hafi ekki haldið vel á málum og hafi brotið samninga með því að fjárfesta meira en núv. hæstv. fjmrh. lætur gott heita.
    Þessi meðferð mála er að mínum dómi fordæmanleg. Það er eins og þeir menn sem fara með framkvæmdarvaldið séu að leika sér að því að halda á málum með þeim hætti að fyrirtæki sem þeim eru ekki þóknanleg skuli á höfuðið. Féð á að fara austur, sagði hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson. Hann var hér áðan. Hann er flokksbróðir hæstv. sjútvrh. og hann hefur oft dirfsku til að segja sannleikann.
    Ég nefni hér í síðasta lagi sem orsök þess að einkafyrirtækið Sigló hf. er farið á höfuðið, sem ég vissulega hef komið hér að, aðgerðarleysi hæstv. núv. ríkisstjórnar í atvinnumálum þjóðarinnar og aðgerðarleysi í því að koma fram ráðstöfunum sem gera atvinnuvegunum í landinu mögulegt að starfa og þannig að þau komist á rekstrarhæfan grundvöll. Þetta gildir vitaskuld fyrir fyrirtækið Sigló hf. eins og önnur fyrirtæki í landinu sem hvert af öðru eru ýmist að fara á höfuðið eða á hraðri leið fram af brúninni. Og þetta á ekki lengur við einvörðungu um fyrirtæki í fiskiðnaði og sjávarútvegi. Þetta á líka við um fyrirtæki í þjónustu hvers konar, þar á meðal í verslun. Hér var nefnt af hálfu hv. þm. Friðriks Sophussonar að KEA tapaði yfir 200 millj. á síðasta ári. Og það mætti fara að spyrja, ef einhver ráðherra nennti að fylgjast með
þessari umræðu og kæmi ekki aðeins upp í

ræðustólinn, eins og hæstv. fjmrh., til þess að ausa úr skálum reiði sinnar í garð Sjálfstfl. og í garð þeirra fyrirtækja sem verða fyrir barðinu á þessari stjórn og stjórnarathöfnum, hvort það sé reyndar loksins svo komið að Framsfl., sem fer með forsæti í þessari ríkisstjórn, ætli að láta skeika að sköpuðu, hvort samvinnurhreyfingin og samvinnufyrirtækin, hvert af öðru, fari einnig fram af brúninni. Það væri fróðlegt að spyrja að því.
    Þessi atriði sem ég hef hér drepið á réðu auðvitað því að Sigló hf. fór á höfuðið, varð gjaldþrota. Og þessi atriði eru flest þess efnis að þau voru eigendum fyrirtækisins og stjórnendum gjörsamlega óviðráðanleg. Það má segja að eigendurnir hafi ekki átt að kaupa fyrirtækin jafnháu verði og gert var og það var auðvitað hagstætt fyrir ríkið að losa sig við fyrirtækið, þó það hefði verið gefið og þó að hefði verið gefið með því. Þeim var það hins vegar auðvitað sjálfrátt, þeir keyptu fyrirtækið á of háu verði. Hin atriðin, að flestu leyti, nærri því öllu leyti, voru stjórnendum fyrirtækisins óviðráðanleg. Það voru utanaðkomandi aðstæður og svo ýmist skeytingarleysi eða rangar ákvarðanir stjórnvalda.
    Ég vil svo geta þess að hæstv. ráðherra sagði hér að ríkissjóður þyrfti á stundum að líta á tvo kosti þegar gjaldþrot væri yfirvofandi eða þegar staðan væri orðin þannig að gjaldþrot væri orðið yfirvofandi. Það var hvort ætti að sættast á nauðasamninga sem þýddu það að ríkissjóður fengi hluta af sínum kröfum greiddan eða hvort hann fengi jafnvel ekki neitt. Fyrirtækið Sigló hf. leitaði slíkra nauðasamninga og það mál var mjög rækilega og vandlega undirbúið af fagmönnum, bókhaldsmönnum, hagfræðingi og sérstökum fagmönnum um þessi efni. Og það var gert á þann hátt að hvar sem þær tillögur um skuldaskil voru sýndar, þá var borið á þær tillögur lof fyrir það hvað það verk væri vandlega unnið og skýrt upp sett og greinilega. Tillögur um þessa nauðasamninga voru að sjálfsögðu bornar undir fjmrn., fjmrh., og voru þar í alllangan tíma til meðferðar, en það fór einmitt þannig að hæstv. fjmrh. neitaði um þessa nauðasamninga. Hann neitaði að sætta sig við það að fyrirtækið Sigló hf. fengi að ganga til nauðasamninga með því að standa skil á hluta af sínum greiðslum en hluti af greiðslunni væri gefinn eftir. Ýmsir og raunar flestir aðilar aðrir sem áttu inni hjá fyrirtækinu ýmist samþykktu eða biðu eftir samþykkt ríkissjóðs, þannig að málið strandaði hjá ríkissjóði. Og það er nú von að hæstv. fjmrh. sé glaðklakkalegur yfir niðurstöðunni, það er von, því að hann hafði það á valdi sínu að gefa þau svör að hann vildi sættast á það að ríkissjóður tapaði hluta af því sem hann átti inni hjá fyrirtækinu en gera mögulegt að fyrirtækið yrði rekið áfram og treysta því þannig að atvinnulífið á Siglufirði þyrfti ekki að bíða þann hnekki sem varð við þetta gjaldþrot og að tjón aðila yrði ekki meira en raun bar vitni að það hefði orðið miðað við nauðasamninga. Þessu hafnaði hann og hælist síðan um hér í ræðustól yfir því hvernig þessir aðilar, sem hann kallar, þarna fyrir norðan hafi svikið samninga.

    Ég vil svo lýsa því yfir að eftir að því var hafnað að gengið skyldi til slíkra nauðasamninga og fyrirtækið var orðið gjaldþrota hef ég enga minnstu vantrú á því að aðgerðir skiptaráðanda hafi verið rökréttar og skynsamlegar, enga vantrú á því. Og hæstv. dómsmrh. lýsti því yfir í umræðu hér um daginn að hann hefði einnig fulla trú á sínum undirmanni sem er skiptaráðandi, bæjarfógetinn á Siglufirði. Það er því tilefnislaust að vera að draga það upp hér á hinu háa Alþingi að þarna kunni að hafa verið óeðlilega að verki staðið. Það er tilefnislaust og ekki til annars en að strá salti í sár þeirra manna sem eiga um sárt að binda við þetta gjaldþrot. Það er einnig hagsmunum Siglfirðinga fyrir bestu að sömu aðilar, að hluta a.m.k., skyldu geta rekið fyrirtækið áfram með leigusamningi meðan verið væri að athuga um nýjan eignaraðila. Með því móti var notuð viðskiptavild fyrirtækisins sem það átti þrátt fyrir allt, viðskiptavild sem þýðir það að þrátt fyrir það sem á undan er gengið hefur fyrirtækið loforð fyrir viðskiptum hjá öllum þeim aðilum sem það átti skipti við áður, a.m.k. að heita má. Þrátt fyrir það sem gerst hefur á fyrirtækið þessa viðskiptavild.
    Fyrirtækið átti á að skipa vönu starfsfólki og starfsfólkið stóð með stjórnendum fyrirtækisins og það er ekkert vafamál að það var rökrétt ákvörðun hjá skiptaráðanda að sömu aðilar, sem að hluta mynda hið nýja fyrirtæki, Siglunes hf. --- þó að einn aðili sem ekki er heimamaður sé þar nú yfirgnæfandi eigandi, þá er það í höndum sömu aðila og sama starfsfólks og það var atvinnulífi Siglfirðinga og starfsfólki þar til hagsbóta og hagstæðast. Það er ekkert vafamál. Allar aðdróttanir og getsakir, eins og komu fram í fyrirspurn hjá hv. þm. Jóni Sæmundi Sigurjónssyni, um hið gagnstæða eru úr lausu lofti gripnar og frumhlaup eitt og til þess eins fallnar að skaða þetta mál allt saman.
    Ég endurtek það síðan, sem ég sagði fyrr í ræðu minni, að nú þurfum við, m.a. þingmenn kjördæmisins, stjórnmálamenn og aðrir sem áhrif geta haft á framvindu þessa máls, að standa að því að lægja þær öldur sem risið hafa og
leitast við að laða aðila saman um það að leggja fé í að mynda og koma á fót nýjum eignaraðila sem best fer á að sé í bland heimamenn og utanaðkomandi menn, m.a. þeir sem staðið hafa að þessu fyrirtæki til þessa, og treysta þannig þennan rekstur í þessu byggðarlagi sem er þar afar mikils virði. Ég held að við ættum frekar að taka höndum saman um að reyna að stuðla að því að þannig verði haldið á málum en að vera sífellt með upphlaup sem strá salti í þau sár sem þarna svíða. En það verður vitaskuld að gera sér grein fyrir því að ekkert nýtt fyrirtæki getur risið og starfað án þess að það eigi eigið fé. Þess vegna dugar ekki orðagjálfur eitt til, hvorki af hálfu einstakra heimamanna né annarra. Þeir sem þykjast hafa áhuga fyrir að koma þessu fyrirtæki á laggir og nýjan rekspöl verða að hætta fjármagni. Þar duga ekki orð ein til. Það er best að gera sér grein fyrir því.
    Virðulegi forseti. Ég skal stytta mál mitt. Ég vil

láta þess getið að þau tvö mál sem eru tengd beiðni um þessa skýrslu koma í sjálfu sér ekki þessu máli við. Ýmis mál eru þann veg vaxin, hæstv. fjmrh. sagði 170 mál, eru á þann máta að aðilar hafa fengið gefið eftir eða fengið skuldabréf fyrir ógreiddum opinberum gjöldum og ég held að það sé nauðsynlegt enda þótt hæstv. fjmrh. hafi gefið í hópi fjvn. yfirborðslega og lauslega skýrslu um þessi mál ... ( Fjmrh.: Lauslega, hún var bara vélrituð, hún var nákvæm.) Já, hún var vélrituð. Vélritunin var föst á blaðinu, en hún var ekki ákaflega skýr. Ég held hins vegar að óhjákvæmilegt sé að biðja um það að ný skýrsla verði gefin og nákvæmari um þau fyrirtæki sem fengið hafa slíka eftirgjöf ( Fjmrh.: Sjálfsagt mál.) og þá um leið ýmist með því að fella niður skuldir, vangoldin opinber gjöld, m.a. af söluskatti og staðgreiðsluskatti, tekjuskatti, og líka með nýjum skuldabréfum, sem sagt með greiðslufresti á þessum skuldum.
    En það er auðvitað ástæða til að rifja það upp að mér og ýmsum öðrum hnykkti við þegar fyrrv. fjmrh. síðsumars á síðasta ári gaf allt í einu þá yfirlýsingu í fjölmiðlum að nú skyldu felld niður viðurlög og jafnvel dráttarvextir af vangoldnum gjöldum einstaklinga og fyrirtækja í þjóðfélaginu til ríkisins. Mér hnykkti við slíka yfirlýsingu af hálfu þáv. fjmrh. sem var náttúrlega alveg einstæð. Og árangurinn lét ekki á sér standa: Innheimtan hrapaði niður. Í tilefni af því og þeim ummælum sem núv. hæstv. fjmrh. hefur iðulega haft um þessi mál er óhjákvæmilegt að biðja um nýja skýrslu um þessi efni og geri ég það hér með.
    Ég ætla ekki að ræða þau tvö fyrirtæki sem hér eru nefnd, hæstv. fjmrh. nefndi það sjálfur að það liti svo út að það væri eitthvað gruggugt í sambandi við hans meðferð á málefnum NT, hann notaði það orð, að það væri gruggugt, það gæti sýnst vera gruggugt. Ég ætla að lofa honum að halda áfram í því grugguga vatni. En ég vil gjarnan segja það um það fyrirtæki sem hér er nefnt, Svart á hvítu, að ég er nokkuð kunnugur því fyrirtæki, miklu kunnugri heldur en NT, og þekki það að þar fer fram starfsemi sem felur í sér útgáfu á menningarverðmætum. Þar er mikil menningarstarfsemi á ferð og ég hef enga ástæðu til þess að segja eitt eða neitt til hnjóðs því fyrirtæki. En ég aðeins endurtek að það er ástæða til að hæstv. fjmrh. gefi þá skýrslu sem hér hefur verið beðið um.
    Virðulegi forseti. Ég skal þá ljúka máli mínu en ég hlýt að undrast þá ófyrirleitni, þann hrokafulla málflutning, þær hörðu getsakir sem fram hafa komið af hálfu hæstv. fjmrh. og einhliða málflutning með dómum í garð þeirra manna sem hafa mátt þola þær aðstæður í þessu þjóðfélagi, sumpart af völdum stjórnvalda, sem gerst hefur með þá sem staðið hafa að fyrirtækinu Sigló hf.