Málefni Sigló hf. og fleira
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Þórður Skúlason:
    Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar skýrsla Ríkisendurskoðunar um málefni Sigló hf. og fleira. Auk þess sem fjallað er um málefni Sigló hf. í þessari skýrslu þá er hér fjallað einnig um niðurfellingu opinberra gjalda Tímans og Nútímans hf. og skuldbreytingu opinberra gjalda fyrirtækisins Svart á hvítu hf. Ég ætla ekki að fjalla um tvo síðari málsliði þessarar skýrslu Ríkisendurskoðunar en fara hérna örfáum orðum um fyrri hlutann, þann sem lýtur að málefnum Sigló hf.
    Í skýrslunni eru rakin viðskipti fyrrv. hæstv. fjmrh. og Sigló hf. við yfirtöku fyrirtækisins Sigló hf. á Lagmetisverksmiðju ríkisins á Siglufirði. Það kemur fram í skýrslunni og skýrslan staðfestir það að við þessa yfirtöku eða svokallaða sölu hefur margt verið með undarlegum og óvenjulegum hætti, að ekki sé meira sagt. Sérstaklega á það e.t.v. við um greiðsluskilmála eins og að er vikið í skýrslunni á bls. 7 en þar segir Ríkisendurskoðun að greiðsluskilmálar hafi verið með afar sérstæðum hætti. Ég vek athygli á þessu orðalagi Ríkisendurskoðunar, sem er virðingarverð og orðvör stofnun, að orða þetta með þessum hætti. Þar þykir mér alldjúpt í árinni tekið hjá þessari hv. stofnun, að ekki sé meira sagt.
    Í þessari skýrslu er einnig rakinn rekstur fyrirtækjanna beggja, fyrst rekstur fyrirtækisins Siglósíldar og síðan er vikið að rekstri Sigló hf. eftir að það fyrirtæki yfirtók þennan rekstur. Það kemur fram að rekstur ríkisins á Lagmetisiðjunni Siglósíld hefur í gegnum tíðina verið erfiður og margan tíma hefur hann verið mjög þungur. En rekstrinum hefur verið haldið áfram þrátt fyrir verulegt tap frá ári til árs. Þetta er rakið á bls. 5 í skýrslunni.
    Það kom fram hér hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. að alþingismenn hefðu beitt sér fyrir fyrirgreiðslu til að þessi rekstur gæti haldið áfram og var sérstaklega í því sambandi nefnt að stóran þátt í því hefði átt 4. þm. Norðurl. v. Ragnar Arnalds. Ég hygg að það sé rétt og ég vil út af þeim ummælum segja það að sú fyrirgreiðsla sem alþingismenn beittu sér fyrir í þessu sambandi er ekkert óeðlileg. Ég tel að eins og málum var háttað á þessum tíma hafi hún verið mjög eðlileg. Ríkið hefur verið með verulegan atvinnurekstur á Siglufirði í gegnum tíðina og stór hluti af þeim atvinnurekstri hefur skilað góðum arði til ríkissjóðs og í landssjóðinn til hagsbóta fyrir þjóðina alla. Það hefur ekkert verið óeðlilegt við það þó að gripið hafi verið inn í þennan þátt mála af ríkisvaldinu þegar illa gekk. Auðvitað hefur það fyrst og fremst verið gert í þeim tilgangi að halda atvinnulífinu gangandi. En atvinnulíf á Siglufirði hefur auðvitað gengið upp og niður eins og í öðrum bæjarfélögum hringinn í kringum landið.
    Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að þetta tap ríkissjóðs nam að meðaltali 12 millj. 236 þús. kr. á ári. Það kom hins vegar fram hér í máli hv. 1. þm. Reykv. að greiðslur ríkissjóðs með verksmiðjunni hefðu numið árlega 25--27 millj. kr. Ég átta mig ekki á því með hvaða reikningsaðferðum hann getur fengið þessa niðurstöðu vegna þess að í

skýrslu Ríkisendurskoðunar stendur orðrétt á bls. 5, með leyfi hæstv. forseta: ,,Að meðaltali svaraði ársframlag ríkissjóðs til fyrirtækisins á nefndu árabili til 12 millj. 236 þús. króna miðað við verðlag í mars 1989.`` Þetta stendur orðrétt í skýrslu Ríkisendurskoðunar um þetta atriði. En auðvitað er þetta ekkert höfuðatriði í þessu máli.
    Miðað við þessa niðurstöðu, miðað við þessar greiðslur sem ríkið hefur innt af hendi á þessu árabili til að halda þessu fyrirtæki gangandi er það út af fyrir sig ekkert óeðlilegt þó að það kæmi til álita að fyrirtækið væri selt og út af fyrir sig hef ég ekkert við það að athuga. En það er auðvitað ekki sama hvernig að þeirri sölu er staðið og það má ekkert flumbra að því. Og ég tel, eins og mér finnst raunar þessi skýrsla staðfesta, að ekki hafi verið nógu vel að því staðið. En fyrirtækið var selt og það er einnig vikið að því í þessari skýrslu hvernig rekstur fyrirtækisins hafi gengið eftir að fyrirtækið var selt. Niðurstaðan af þeirri athugun er sú að á árabilinu 1984--1988 hafi heildartap fyrirtækisins numið 200 millj. kr. eða 40 millj. kr. á ári. Ég vil samt vara menn við því, þó þarna sé um það að ræða að annars vegar hafi tapið numið að meðaltali 12 millj. kr. á ári á meðan ríkið var með þessa atvinnustarfsemi á sínum herðum en eftir að einkaaðilar voru búnir að yfirtaka reksturinn þá hafi tapið verið komið upp í 40 millj. kr. á ári, þá vil ég samt vara við því að verið sé að alhæfa eitthvað í samanburði á einkarekstri og ríkisrekstri í þessu sambandi.
    Ég er enginn sérstakur ofsatrúarmaður á ríkisrekstur. Langt í frá. Það er auðvitað margt sem hefur áhrif á þessa niðurstöðu eins og hér hefur ítarlega verið rakið, m.a. fjárfestingar. En það kemur í ljós að fyrirtækið sem yfirtók þennan rekstur lagði í verulegar fjárfestingar. Ég er ekki að gagnrýna það út af fyrir sig. Ég tel að það sé nokkuð ljóst að þessar fjárfestingar hafi verið nauðsynlegar til þess að reksturinn gæti haldið áfram í fyrirtækinu með eðlilegum hætti. En auðvitað er ekki sama hvernig að svona fjárfestingum er staðið og það er mikilvægast í tengslum við fjárfestingar af þessu tagi að
fjármögnun fjárfestingarinnar sé tryggð. Að það sé tryggð eðlileg lánafyrirgreiðsla á eðlilegum kjörum til þess að standa undir fjárfestingunni.
    Það hefur líka komið fram að eftir að þessi rekstur var yfirtekinn þá hafa verið stofnaðar nýjar verksmiðjur og það varð til þess að hráefnisverð hækkaði. Og það hefur líka verið greint frá því að auðvitað hefur misjafnlega hátt söluverð á rækju áhrif á þessa afkomu og er það allt saman satt og rétt.
    En það eru líka önnur rekstrarskilyrði, almenn rekstrarskilyrði atvinnurekstrarins í landinu sem hafa áhrif á þessa niðurstöðu og þá kannski ekki hvað síst atriði eins og gengisskráning og fjármagnskostnaður. Ég hjó eftir því að hv. 2. þm. Norðurl. v. nefndi einmitt annað þessara atriða, fjármagnskostnaðinn. En fjármagnskostnaðurinn er einmitt draugur sem fyrrv. hæstv. ríkisstjórn vakti upp og ekki hefur enn þá tekist að kveða niður þannig að sú fyrrv. ríkisstjórn á

ekki svo lítinn þátt í því hvernig komið er fyrir þessum atvinnurekstri eins og svo mörgum öðrum. En þetta á ekkert sérstaklega við um þetta fyrirtæki. Það hafa öll fyrirtæki orðið fyrir þessu og auðvitað hefur þetta bitnað þyngst á þeim fyrirtækjum sem eru með hæga veltu og þurfa að vera með miklar birgðir. Þessi mikli fjármagnskostnaður bitnar verst á þeim.
    En það er kannski aðalmismunurinn í þessu tvennu hvort það var ríkið sem tapaði á rekstri fyrirtækisins eða hvort það var hlutafélagið Sigló hf., mismunurinn kemur fram í því á hvern tapið féll. Þegar ríkið hafði þennan rekstur með höndum þá var tap fyrirtækisins greitt frá ári til árs úr ríkissjóði. Þegar hins vegar hlutafélagið tekur við rekstrinum og tapið er verulegt frá ári til árs, þá fellur þetta tap einnig á ríkið. Fjmrh. nefndi tölu hér í því sambandi, 70 millj. kr. En þetta tap fellur þá jafnframt líka á marga aðra aðila, t.d. á þjónustuaðila í bæjarfélaginu og þá sem hafa viðskipti við þetta fyrirtæki, eins og t.d. netagerðir og verkstæði og fleiri slík fyrirtæki, og ekki hvað síst bæjarfélagið. Bæjarfélagið hefur orðið fyrir verulegum skakkaföllum í sambandi við það gjaldþrot sem hér er til umræðu í tengslum við þessa skýrslu. Þær upphæðir nema líklega hátt á annan tug milljóna króna.
    Ég vil vekja athygli á því í tengslum við þetta að staða sveitarfélaga til þess að innheimta skuldir atvinnufyrirtækja og eðlilegar greiðslur sem þessi atvinnufyrirtæki ættu að inna af hendi til sveitarfélaganna og til þjónustustofnana sveitarfélaganna, staða sveitarfélaganna til þess að innheimta þessi gjöld hjá atvinnufyrirtækjunum er í raun mjög veik vegna þess að þetta eru kannski fyrirtæki sem veita fjölda fólks atvinnu og það er ekki hægt fyrir sveitarfélögin að ganga fram í því að loka fyrirtækjunum eða hóta að loka fyrirtækjunum til að innheimta þessar skuldir. Á þessu vil ég vekja sérstaka athygli.
    Það mætti fara mörgum orðum um það hvernig þessi erfiða staða fyrirtækjanna í landinu bitnar á sveitarfélögunum. Það eru kröfur á sveitarfélögin um að leggja fram nýtt hlutafé og um niðurfellingu gjalda og sveitarfélögin verða fyrir verulegum töpum við gjaldþrot eins og er að eiga sér stað núna norður á Siglufirði. Það er raunar þannig að þeir sem eru með þennan atvinnurekstur á sínum höndum hafa sjálfdæmi um það að sækja sér lán til sveitarfélaganna til rekstrarins og óbeint er það raunar þannig að sveitarfélögin reka sjávarútvegs- og framleiðslufyrirtæki vítt í kringum landið með því að leggja þeim til rekstrarfé. Það er ekkert sérstakt fyrir Siglufjörð.
    En mig langar til þess að fara örfáum fleiri orðum um það hver staða málsins er nú eftir gjaldþrotið. Eftir gjaldþrotið eða um leið og fyrirtækið var lýst gjaldþrota, nánast sama dag og jafnvel á sömu klukkustund, var fyrirtækið leigt til nánast sömu aðila og höfðu haft á höndum reksturinn áður, til Sigluness hf. sem er að stærstum hluta til fyrirtæki fyrri eigenda Sigló hf. Það er ámælisvert í þessu sambandi og verður að gagnrýna það að aðrir kostir um ráðstöfun

á fyrirtækinu eftir gjaldþrotið virðast ekkert hafa verið skoðaðir. Þó liggur það fyrir að heimamenn munu hafa verið tilbúnir til þess að yfirtaka reksturinn og það liggur einnig fyrir að bæjarfélagið hefur gagnrýnt þessa ráðstöfun bæjarfógeta. Aðalröksemd bæjarfógeta við þessa ákvörðun er hins vegar sú að þetta væri tryggasta leiðin til þess að rekstur fyrirtækisins mundi ekki stöðvast, til þess að fyrirtækið gæti hafið rekstur sem fyrst aftur. En sú röksemd virðist raunverulega vera haldlítil vegna þess að fyrirtækið er ekki farið af stað með rekstur enn þá. Raunverulega má álykta að það hafi verið vantraust þjónustuaðila og viðskiptaaðila vegna viðskipta þeirra við hið fyrra fyrirtæki sem hafi ráðið því að þetta fyrirtæki er ekki enn þá komið í rekstur aftur. Raunverulega er almenningsálitið þannig að það er á móti ráðstöfunum sem þessum sem eru auðvitað allt of algengar í þjóðfélaginu í dag.
    En hluti þess vanda sem atvinnulífið og sá rekstur sem við erum hér að ræða á við að etja og birtist okkur í þeirri niðurstöðu sem hér liggur fyrir, gjaldþroti Sigló hf. á Siglufirði, er ekkert sérstakur fyrir þetta fyrirtæki heldur er þetta aðbúnaður sem fyrirtæki í landinu, framleiðslugreinarnar og undirstöðuatvinnugreinarnar eiga almennt við að búa. Ég vil lýsa þungri ábyrgð
á hæstv. fyrri ríkisstjórn í þeim efnum. Gengis- og vaxtaþróun í tíð þeirrar ríkisstjórnar var þessum fyrirtækjum mjög óhagstæð. Fólkið í landinu og þeir sem hafa rekið fyrirtækin eru ekki búin að gleyma því hvernig síðasta hæstv. ríkisstjórn hélt á þessum málum þó talsmenn Sjálfstfl. láti líta svo út sem þeir hafi ekkert komið nálægt þessum málum í langan tíma og beri enga ábyrgð.
    Nú er hins vegar verið að reyna að reisa atvinnulífið aftur úr þeirri rúst sem það var komið í undir stjórn síðustu ríkisstjórnar, en það tekur tíma. Vonandi tekst það. Ég vona einnig að það takist á Siglufirði. Þar er best að heimamenn eigi frumkvæðið og njóti góðrar aðstoðar og fyrirgreiðslu þeirra sem hana eiga að veita. Það mundi ég telja affarasælast og best til frambúðar litið. Við vitum það að heima fyrir er vilji fyrir hendi til þess að axla ábyrgð í sambandi við atvinnureksturinn. Þann vilja ber að efla og styðja og það er aðalatriði þessa máls eins og nú er komið.