Málefni Sigló hf. og fleira
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Jón Sæmundur Sigurjónsson:
    Virðulegi forseti. Ýmsir telja að ég hafi kveikt þá elda sem hér brenna, en eins og ég held nú að hafi komið rækilega fram í orðum flestra þeirra sem talað hafa á undan mér í þessu máli, þá liggur að baki því gjaldþroti sem hér um ræðir feikilega löng saga og það er ekki í fyrsta skipti hér í sölum Alþingis að menn hafa áhyggjur af þessu fyrirtæki og ekki í fyrsta skipti sem menn hafa áhyggjur af þessu fyrirtæki yfirleitt.
    Þann 12. des. sl. lokaði Sigló hf. dyrum sínum og hefur ekki opnað þær enn þá. Þá misstu sennilega um 50 manns atvinnu sína. Fyrir um það bil mánuði síðan var fyrirtækið lýst gjaldþrota. Svo bar við um þær mundir að einungis tveimur klukkustundum síðar var stofnað nýtt fyrirtæki og því leigt þetta fyrirtæki til sjö mánaða. Þetta var ákaflega einkennilegur framgangsmáti sem vakti athygli um gjörvallt þjóðfélagið. Það má segja að það hafi farið hneykslunaralda um allt þjóðfélagið vegna þess sem þarna skeði. Ef ég má, virðulegur forseti, vitna í leiðara DV frá 12. apríl 1989, þá segir þar:
    ,,Í síðustu viku var Sigló hf. tekin til gjaldþrotaskipta, en samdægurs var gerður samningur við eigendurna um leigu á rekstri rækjuverksmiðjunnar. 18 millj. kr. kaupverðið er enn ógreitt og er sú upphæð orðin að 60 millj. vegna vanskila. Önnur eins upphæð mun vera í skuld hjá bæjarfélaginu og heildarskuldir fyrirtækisins eru sagðar nema 300 millj. kr. Þessar skuldir verða væntanlega afskrifaðar í gjaldþrotinu en eigendurnir halda áfram rekstrinum eins og ekkert hafi í skorist.
    Hér verður ekki farið út í vangaveltur um það hvers vegna hefur sigið á ógæfuhliðina hjá Sigló hf. Það er óþarfi að velta eigendunum upp úr gagnrýni um lélegan rekstur. Málið snýst heldur ekki um það atriði heldur um siðferðið á bak við þá ákvörðun að leigja þeim áfram fyrirtæki sem farið er á hausinn í höndum þeirra. Það hlýtur að vera gert með samþykki stjórnvalda og umboðsmanna ríkissjóðs sem hefur þó ekki fengið krónu greidda af söluverðinu.
    Menn eru ýmsu vanir í öllu því kraðaki óreiðu og undarlegra fjármálaafskipta ríkisins. En þetta mál með Sigló hf. er óvenju bíræfið í ljósi þess aðdraganda sem hér hefur verið lýst. Geta menn orðið gjaldþrota, geta menn komist hjá því að greiða skuldir sínar við ríkissjóð og fengið fyrirtækin afhent á silfurbakka að launum? Er allt hægt þegar pólitíkin er annars vegar? Hefur fjármálasiðferðið engin landamæri?``
    Þessi leiðari og umræða öll sem skapaðist í þjóðfélaginu við þetta var ástæðan fyrir því að mér þótti rétt að hæstv. fjmrh. væri spurður að því hvort eitthvað væri hæft í þessum staðhæfingum. Þess vegna spurði ég hvort haft hefði verið samband við fjmrn. sem einn stærsta kröfuhafa í þrotabú Sigló hf. varðandi leigu á eignum þrotabúsins til Sigluness hf.
    Svör hæstv. fjmrh. voru skýr. Það sem var staðhæft í þessum leiðara var ekki rétt. Fjmrn. hafði ekki verið í sambandi við skiptaráðanda. Það hafði ekki verið haft samband við handhafa ríkissjóðs sem einn stærsta

kröfuhafa í þetta þrotabú. Einnig í tilefni af þessu kom ég með fleiri spurningar sem vörðuðu það hversu mikið eigendur Sigló hf. hefðu greitt af kaupverði Lagmetisiðjunnar frá kaupdegi til dagsins í dag. Það reyndist ekkert vera. Ég vildi einnig fá að vita til hvaða ráðstafana fjmrn. hefði gripið til að gæta hagsmuna ríkisins í þessu tilviki. Mér er það ekki ljóst, en menn á Siglufirði spyrja sig um það.
    Gjaldþrot eru því miður orðin býsna algeng fyrirbrigði hér í okkar þjóðlífi, svo algeng að í 1. maí ávarpi verkalýðsfélaganna þótti ástæða til að víkja nánar að þessu máli. Í 1. maí ávarpinu segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Verkalýðshreyfingin bendir á þá óheillaþróun sem kemur fram í vaxandi fjölda gjaldþrota og í því siðleysi sem ýmsir atvinnurekendur sýna við þær aðstæður. Alvarlegast er þegar eigendur gjaldþrota fyrirtækja skilja launafólk eftir og ávísa öllum kröfum á ríkið en stofna síðan ný fyrirtæki á rústunum eins og ekkert sé.``
    Manni virðist sem eitthvað slíkt hafi skeð á Siglufirði, en það er svo sannarlega ekki eina dæmið í okkar þjóðfélagi um slíkt.
    Í framhaldi af því sá ég einnig ástæðu til að spyrja eftir því hvort fjmrn. hefði í hyggju að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að aðilar að gjaldþroti reki fyrirtæki áfram undir nýju merki og komist þannig hjá greiðslu allra skuldbindinga til stórskaða fyrir skuldareigendur. Það var fundið að því að ég skyldi hafa spurt þessarar spurningar í þessu sambandi. Það má vel vera að það hafi verið formgalli að spyrja þessarar spurningar hér í beinu framhaldi þegar meiningin var sú hvort fjmrn. hefði í hyggju að gera ráðstafanir almennt vegna fyrirtækja sem fara á hausinn því að þetta er atriði sem ég held að þingmenn hafi ástæðu til að hafa áhyggjur af. Þessi spurning varðar því grundvallaraðgerðir ríkissjóðs vegna gjaldþrota sem eiga sér stað þegar svona er farið að.
    Ég er ekki með þessu að segja að eigendur Sigló hf. hafi verið að leika sér að því að setja þetta fyrirtæki á hausinn. Það gerir svo sannarlega enginn og sérstaklega ekki menn sem ráða yfir jafnstóru fyrirtæki og hér er um að ræða, stóru fyrirtæki sem varðar jafnmiklu í atvinnulífi eins bæjar og þetta
fyrirtæki gerir í atvinnusögu Siglufjarðar.
    Það má segja að Siglufjörður eigi langa og glæsilega atvinnusögu. Því miður er hún þyrnum stráð. Hér áður fyrr lifði Siglufjörður á síldarvinnslu. Þar voru yfir 20 síldarsöltunarfyrirtæki, þar voru stórar síldarverksmiðjur, og eru reyndar enn þá í eigu ríkisins, en því háttaði þannig með skattastefnu ríkisins að menn greiddu skatta þar sem þeir áttu heima. Og flestir þeirra sem áttu síldarsöltunarfyrirtæki á Siglufirði áttu ekki heima á Siglufirði. Svo háttaði einnig að ríkið sá ekki ástæðu til að greiða gjöld eða skatta af sínum fyrirtækjum langmestan tímann sem síld var á Siglufirði. Siglufjörður sem kaupstaður hafði því óttalega litlar tekjur af þeirri miklu atvinnustarfsemi sem fram fór þar á síldarárunum

miklu. Einu tekjurnar sem Siglufjörður sem kaupstaður hafði af því atvinnulífi voru skattar af tekjum launamanna sem bjuggu á staðnum. Það voru einungis þrjú eða fjögur síldarsöltunarfyrirtæki sem virkilega voru í eigu heimamanna og sem greiddu skatt til bæjarins. Siglufjörður hefur því alltaf verið launamannabær og lifað af þeim gjöldum sem frá launamönnum koma.
    Það er því rótgróin tortryggni hjá Siglfirðingum gagnvart öllum þeim aðkomumönnum sem ætla að koma og taka skjótfenginn gróða á Siglufirði. Það er rík tilfinning að Siglfirðingar sjálfir verði að taka fyrirtækin í sínar hendur og hafa stjórn á þeim. Og það hefur alla jafnan verið svo í sambandi við þetta fyrirtæki að heimamenn hafa haft ríkan vilja til að fá að hafa afskipti af því fyrirtæki. Menn voru tiltölulega rólegir á meðan þetta fyrirtæki var ríkisfyrirtæki og þá var komin sú skattatilhögun á að ríkisfyrirtæki greiða aðstöðugjald og annað slíkt, en þegar tækifæri bauðst, þegar einkavæðingin kom á þá reis upp fjöldi manna sem vildu fá að taka þátt í þessu atvinnustarfi en fengu ekki.
    Það má kannski segja að saga Lagmetisiðjunnar Siglósíld hafi verið eins konar atvinnulegt hindrunarhlaup. Við vitum að ríkissjóður þurfti að greiða alla jafnan með því fyrirtæki. Ekki 27 millj. að jafnaði eins og hv. 1. þm. Reykv. virtist hafa komist að. ( FrS: Síðustu fjögur árin.) E.t.v. síðustu fjögur árin. Ég hef ekki reiknað það upp. Það má vel vera rétt hjá honum. Að meðaltali þó, yfir þann tíma sem menn báðu um að reiknað yrði eftir hversu mikið var greitt með þessu fyrirtæki, voru það að jafnaði 12 millj. Og ef hv. 1. þm. Reykv. ætlar í þann einkennilega leik að framreikna þetta tap miðað við aukið umfang fyrirtækisins --- ég held að sá reikningur hljóti nú að verða meira og minna á brauðfótum --- þá margfaldar hann ekki þessar 12 millj. eingöngu með margfeldi aukinnar umsetningar. Ég held að það gangi aldrei upp og sé undarleg hagfræði. En engu að síður. Við skulum halda því föstu. Þetta ríkisfyrirtæki var þess eðlis að það þurfti sífellt að greiða með því. Þingmenn urðu varir við þá iðju og tóku þátt í henni.
    Eitt var þó gott við þetta fyrirtæki sem heimamenn kunnu vel að meta. Það skapaði nokkuð trausta og góða atvinnu og það stóð í skilum við alla þjónustuaðila, það stóð í skilum með sín gjöld til bæjarsjóðs, stóð í skilum með sín gjöld til rafveitu og hitaveitu og það er nokkuð sem menn kunnu vel að meta. Ef við berum þessi ríkisframlög, sem voru að jafnaði 12 millj. kr., saman við tap hins nýja fyrirtækis sem var að jafnaði upp á 40 millj. kr. og stóð ekki í skilum við sjóði bæjarins, rafveitunnar eða hitaveitunnar eða marga þá þjónustuaðila þó að það séu litlar upphæðir, það má telja þær í kannski hundruðum þús. kr., en það eru upphæðir sem muna miklu í litlum fyrirtækjum og skipta miklu máli.
    Þegar kom þar að menn vildu einkavæða, ef nota má það orð, þetta fyrirtæki, þá mæltist það ekki illa fyrir. Það mætti miklum velvilja á Siglufirði. Menn

höfðu í huga ágætar hugmyndir hv. þáv. þm. Sjálfstfl. á Norðurl. v., Eyjólfs Konráðs Jónssonar, sem hafði talað mikið um almenningshlutafélög og ég held flestallt af hinu góða, að menn vildu gjarnan stofna slíkt hlutafélag um þetta fyrirtæki og ég held að það hafi verið vel. En svo bar við að þessi sala fyrirtækisins fór fram með nokkuð einkennilegum hætti.
    Þáv. iðnrh. sá ekki ástæðu til þess að auglýsa fyrirtækið og segir hér í Tímanum fimmtudaginn 8. des. 1983 í þessu sambandi, með leyfi forseta: ,,Í því sambandi hef ég mestan áhuga á því að samningar um niðursuðuverksmiðjuna á Ísafirði og Marbakka takist.`` og talaði ekki um að Siglfirðingar kæmu þar inn í spilið. Það kom ekki fyrr en seinna.
    Forstjóri Marbakka sagði í sama blaði: ,,Ég hef ekkert um málið að segja því það kemur engum þetta við á meðan málið er á viðræðustigi.`` Sem sagt: Siglfirðingar fengu að vita það að þeim kæmi þetta mál ekki við.
    Í samtali við Guðmund Skarphéðinsson, síðar framkvæmdastjóra Sigló, sagði hæstv. iðnrh. í sama blaði frá 8. des. 1983 að iðnrh. hefði lýst því yfir á fundi að fáir dagar væru þar til gengið yrði frá sölu á Siglósíld. En Guðmundur sagði Siglfirðinga leggja ríka áherslu á að fyrirtækið yrði selt Siglfirðingum og þeim þætti komið aftan að þeim ef fyrirtækið yrði selt tveimur fyrirtækjum utan Siglufjarðar án þess svo mikið sem að ræða málin við heimamenn. Það var svo síðan gert og það voru duglegir athafnamenn sem áttu
þar hlut að máli og fengu keyptan hlut í fyrirtækinu. En svo einkennilega bar við að þessir duglegu athafnamenn sem fengu keyptan þennan hlut voru allir sjálfstæðismenn og það kom Siglfirðingum spánskt fyrir sjónir vegna þess að það voru miklu fleiri sem höfðu áhuga á að kaupa hlut í þessu fyrirtæki en þeim var einfaldlega ekki hleypt að. Þeir höfðu ekki tækifæri til að tjá sig um sinn vilja að fá að kaupa þetta fyrirtæki vegna þess að það var einfaldlega ekki auglýst. Það kom öllum bæjarbúum mjög spánskt fyrir sjónir að svona skyldi farið að. Það var leitt að þessu skyldi einungis haldið í hópi heimamanna, sjálfstæðismanna, en ég er ekki að álasa þessum mönnum fyrir að vera sjálfstæðismenn. Þetta eru allt mestu dugnaðarforkar og standa vel fyrir sínu. En í þessu tilfelli vildu menn fá almenningshlutafélag, breiðan grundvöll Siglfirðinga sem gætu staðið að þessu fyrirtæki.
    Það má síðan segja að mikil og góð fyrirgreiðsla ríkisins hafi komið til þessa fyrirtækis sem var engu minna og reyndar miklu meira tapfyrirtæki heldur en ríkisfyrirtækið hafði nokkurn tíma verið áður og segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar að þetta megi teljast afar sérstæðir skilmálar í viðskiptum og eigi sé vart hliðstæðu hjá ríkissjóði. Þarna tel ég að strax í byrjun hafi þessi einkavæðing klúðrast. Kannski vegna þess að þessir nýju eigendur færðust of mikið í fang og fjárfestu mun meira en þeim var gert að gera samkvæmt kaupskilmálum. En þeir segja sjálfir þannig

frá að fjárfestingar í fyrirtækinu hafi numið upp undir 70 millj. kr. Það má segja að þetta sé dæmigert framferði í íslensku atvinnulífi þar sem of lítil eiginfjármögnun er fyrir hendi en yfirfjárfestingar kollsteypa öllu. Og ég held að þessir menn hafi búið sér til sína eigin kollsteypu í byrjun með því að ráðast í að endurbyggja, eins og þeir segja sjálfir núna, allt of lélegt hús en það kemur samt fram í kaupskilmálunum að þeim hafi verið fullkunnugt um ástand hússins og vissu þess vegna að hverju þeir gengu og gerðu ráð fyrir fjárfestingum upp á 12 millj. kr. en enduðu samt í 70. Þetta eru náttúrlega dæmi sem við þekkjum úr atvinnulífi Íslendinga sem koma fyrir hvað eftir annað og fyrirtækin kollsteypa sig á. Það eru þessar stóru yfirfjárfestingar.
    Það má segja að saga Sigló sé tvíeggjuð. Annars vegar hefur fyrirtækið Sigló hf. gefið mikla og góða atvinnu á Siglufirði. Það hefur veitt atvinnu fyrir 45--78 manns í einu og það vegur mikið og þungt í ekki stærra bæjarfélagi en þetta er. Hins vegar átti þetta fyrirtæki alltaf í örðugleikum. Það voru hættur því samfara að fara af stað með þessa stóru yfirfjárfestingu. Og afleiðingin var auðvitað skuldasöfnun hjá sveitarsjóði, hjá Rafveitunni, hjá Vatnsveitunni, hjá Hitaveitunni og hjá bæjarsjóði sjálfum og hjá öllum þjónustuaðilum sem nálægt þessu fyrirtæki komu. Þetta voru stöðugir erfiðleikar. En það treysti sér enginn til að ganga að þessu fyrirtæki einmitt vegna atvinnumálanna. Þess vegna fékk þetta gjaldþrota fyrirtæki að ganga miklu lengur en það hefði átt að ganga undir eðlilegum kringumstæðum.
    Og nákvæmlega hið sama vakti fyrir hæstv. fyrrv. iðnrh. og hæstv. fyrrv. fjmrh. Þeir treystu sér heldur ekki til að ganga að þessu fyrirtæki þrátt fyrir að í kaupskilmálunum fælist að ef niðurlagningarlínan yrði seld úr bænum, þá ætti að ganga að fyrirtækinu með þeirra kvaðir vegna kaupmálans. (Gripið fram í.) Það var auðvitað vegna atvinnufyrirtækis. ( FrS: ... eins og Jón Baldvin Hannibalsson ráðherra skrifaði í sínu bréfi.) Það má vel vera að það hafi verið ástæða líka. En ég tel að ríkari ástæður hafi verið að fyrirtækið hefði orðið gjaldþrota hefði verið gengið að því þá og menn óttuðust að kollsteypa atvinnuástandinu. Þetta eru auðvitað skiljanlegar ástæður. Það skilur hver einasti maður. Og þetta er saga gömul og ný úti á landsbyggðinni og hér allt í kringum okkur, að menn veigra sér við að ganga nærri fyrirtækjum vegna atvinnuástandsins. En einhvern tíma kemur þó að því að lengra verður ekki gengið og þeir Siglómenn segja sjálfir í skýrslu sem borist hefur frá þeim að félagið hafi hætt framleiðslu 12. des. og með leyfi forseta vitna ég í þessa skýrslu: ,,Það getur ekki talist ábyrg afstaða að hefja framleiðslu aftur á vegum Sigló hf. eins og fjármál, eigna- og skuldastaða félagsins er komin.`` Auðvitað kom að því að ekki var hægt að halda áfram lengra. Það er ekki sífellt og í síbylju hægt að hlaða upp skuldum þannig að einhverjir séu á hinum endanum sem sífellt taki við skuldunum og kyngi þeim. Það gengur einfaldlega ekki upp.

    Skuldasöfnunin fór ekki fram hjá neinum í bæjarfélaginu og allir vissu fyrir þó nokkru hvernig komið var og voru hræddir við að veita þessu félagi þjónustu, litlir þjónustuaðilar, því þeir óttuðust um sinn hag og þoldu ekki mikið. Það hefur komið fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálma Jónssyni að sennilega hefðu fjárveitingar úr Verðjöfnunarsjóði getað hjálpað þessu fyrirtæki, jafnvel einungis helmingurinn af því sem það átti inni. Innistæðan var í kringum 60 millj. kr. og helmingurinn þá væntanlega 30 millj. kr. Ég held að þetta hefði verið eins og vatnsdropi á heitan stein og ekki gert mikið því í fjárhagslegri endurskipulagningaráætlun stjórnar Sigló hf. er gert ráð fyrir 100 millj. kr. láni erlendis frá. Það er gert ráð fyrir 60 millj. kr. láni frá Atvinnutryggingarsjóði. Þetta eru auðvitað upphæðir sem hefðu skipt
miklu meira máli samfara því að lögð var fram áætlun um það að aðrir skuldareigendur tækju sínar skuldir niður allt að 70%. Þetta er auðvitað gagnger endurskipulagning á fyrirtækinu sem hefði sennilega komið því að góðu gagni en ekki þessar 30 millj. úr Verðjöfnunarsjóði. Ekki það að auðvitað verður að endurskoða Verðjöfnunarsjóð og hvernig hann starfar. Það var engin hemja hvernig var gengið eftir mönnum að greiða í þann sjóð. Og eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. benti réttilega á þá var það nokkuð óréttlátt hvernig átti að styðja glæný fyrirtæki með þessum Verðjöfnunarsjóði, fyrirtæki sem varla höfðu greitt einn einasta pening í þann sjóð meðan sjóðurinn var að mestu leyti eign miklu eldri fyrirtækja.
    Af því að hér hefur verið nefnt hvað eftir annað að gefin hafi verið út of mörg rækjuvinnsluleyfi út um allt land vil ég taka fram að ekki er hægt að kvarta undan því að Sigló hf. hafi fengið of lítinn rækjukvóta til að vinna úr. Að öllu jöfnu hefði sá rækjukvóti sem Sigló hf. fékk átt að duga því fyrirtæki og miklu betur en það í venjulegu árferði og ekki með þessar fjárfestingarskuldir á herðunum. En eins og ég held að hafi komið fram hjá hv. 1. þm. Reykv. þá vann Sigló hf. strax á fyrsta ári úr 2300 tonnum af rækju. Það er nokkurn veginn það magn sem Siglósíld hefur unnið úr þau ár sem það hefur starfað og það er u.þ.b. sá kvóti sem Sigló hf. hafði á síðasta ári þannig að Sigló hf. getur ekki kvartað undan því að það hafi ekki haft nægjanlega rækju til að vinna úr. Fyrirtækin sem mynduðust úti á landsbyggðinni annars staðar og fengu rækjuvinnsluleyfi tóku því lítið sem ekkert frá þessu fyrirtæki okkar.
    Það er greinilegt að þessi fjárhagslega endurskipulagning hefur mistekist. Það voru veigamiklir aðilar sem vildu ekki taka þátt í því að keyra sínar skuldareignir niður um 70%. Ríkið hefur verið ásakað í þessu sambandi. Ég get ekki svarað fyrir það, en ég vissi að það voru nokkrir aðilar sem vildu að þeirra skuldareign væri breytt í hlutafé en því var neitað og því gengu samningar ekki eftir. Þar á meðal voru bæjarfyrirtæki á Siglufirði sem vildu í gegnum þetta eignast hlut í fyrirtækinu en eigendur voru ekki til viðræðu um það enda, eftir því sem mér

hefur skilist, hefðu þá skapast vandræði við aðra skuldareigendur. Því var gjaldþrot óumflýjanlegt þegar að þessu var komið og þá var, eins og hv. 1. þm. Reykv. talaði held ég í ávítunartón um Farg í sambandi við annað mál, þarna skipt um nafn. Það var tekið upp nafnið Siglunes og því flaggað í heila stöng. Og það lá slík ósköp á að koma því fyrirtæki að með leigu á eignunum að það tók einungis tvo tíma að ganga frá leigu á eignunum og það er það sem þykir mjög ámælisvert, það er það sem ég sagði, ekki eins og 1. þm. Reykv. hafði eftir mér að ég hefði kallað það lögleysu, ég sagði það ekki heldur vitnaði ég í siðferðilega miklu hærra standandi mann heldur en okkur báða, fyrrv. þm. Vilmund heitinn Gylfason sem kallaði þetta löglegt en siðlaust. Og það er ímynd flestra í þessu sambandi, að þetta hafi verið siðlaust.
    Þetta fyrirbæri og það sem þarna gerðist mæltist mjög illa fyrir á Siglufirði. Enn og aftur var heimamönnum neitað um þann möguleika að eignast hlut í þessu fyrirtæki. Þarna hefði verið tækifærið að skjóta föstum grundvelli undir þetta fyrirtæki í höndum heimamanna sjálfra en þeim var neitað um þann möguleika. Nýtt almenningshlutafélag, eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson lagði grundvöll að, var aftur að myndast og aðstandendur þess nýja fyrirtækis --- sem heitir Sunna hf., en það barst bréf einmitt í dag frá eigendum þess nafns sem var gamalt og gróið fyrirtæki á Siglufirði, að hinu nýja félagi er heimilt að nota það nafn, það mun því heita eins og ráð var fyrir gert Sunna hf. --- aðstandendur þess eru Siglufjarðarbær, Rafveita Siglufjarðar, Verkalýðsfélagið Vaka, Þormóður rammi hf., Egilssíld og allir þjónustuaðilar skipa og útgerðar á Siglufirði.
    Það sem er aðalmálið í þessu öllu saman er auðvitað sá uggur sem heimamenn bera í brjósti út af framtíð þessa fyrirtækis. Enn bíða 50 manns eftir því að endurheimta sína atvinnu. Enn bíða þeir eftir því að þetta fyrirtæki opni sínar dyr því rúmum mánuði eftir að leigusamningur komst á laggirnar hefur þetta fyrirtæki ekki hafið sína starfsemi og það er mjög miður. Menn líta af mikilli tortryggni á þetta nýja fyrirtæki vegna atvinnusögunnar þar sem oftast nær hafa sótt okkur heim gullgrafarar sem vilja sækja skjótfenginn gróða og þessi sjö mánaða samningur vekur mikla tortryggni í brjóstum Siglfirðinga. Þeir væru e.t.v. tilbúnir til að vinna saman með þessum mönnum, eignast stærri hlut í þessu fyrirtæki, ég held að það væri hollt fyrir alla að þeim væri mögulegt að gera það. Það væri hollt að fá nýtt fjármagn inn í þetta fyrirtæki. Það væri hollt ef þjónustuaðilar, sem þetta fyrirtæki óneitanlega þarf að skipta við, ættu einnig hlut að þessu fyrirtæki og væru svo að segja að vinna fyrir sjálfa sig. En ég held að einmitt þannig geti einkavæðing tekist hvað best.