Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Þó svo að einstakar greinar frv. horfi til bóta miðað við ástand í atvinnumálum eins og það er gengur það ekki nógu langt í aðgerðum til styrktar atvinnuvegunum. Hið sama er að segja um þær skattalækkanir sem þar eru. Auðvitað eru þær til bóta en engan veginn gengið nógu langt til þess að í rauninni sé viðunandi.
    Um efnahagsaðgerðirnar í heild er það að segja að þær eru afleiðing af þeim kjarasamningum sem ríkisstjórnin gerði við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, en þeir samningar fólu í sér að óhjákvæmilegt er að verulegt gengissig verði á íslensku krónunni á næstu mánuðum með tilheyrandi verðbólgu og skertum lífskjörum. Af þeim ástæðum sem ég hef nú sagt, vegna þess að frv. horfir til bóta svo langt sem það nær en Sjálfstfl. er ósammála efnahagsaðgerðunum í heild, greiði ég ekki atkvæði.