Húsnæðisstofnun ríkisins
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Út af þeim fyrirspurnum sem hér hafa verið settar fram vil ég í fyrsta lagi taka það fram að að því er vextina varðar hefur það orðið niðurstaða í ríkisstjórninni að vextir verði miðaðir við að þeir verði ekki hærri en 4,5%. Hitt er svo annað mál að sú ákvörðun getur að sjálfsögðu komið til breytinga síðar, en engin slík umræða hefur farið fram og er ríkisstjórn á hverjum tíma að sjálfsögðu heimilt samkvæmt gildandi lögum að gera breytingar þar á.
    Að því er varðar síðari spurninguna er aðalatriðið að ríkisstjórnin ætlar sér að hafa eftirlit með heildarútgáfu húsbréfa. Það hefur verið áhyggjuefni margra í sambandi við þetta mál hvaða áhrif það kynni að hafa á fjármálamarkaðinn hér á Íslandi. Um það hafa verið settar fram ýmsar skoðanir, en enginn getur kveðið upp úr um það með fullnægjandi hætti fyrr en nokkur reynsla hefur hlotist af. Það kemur skýrt fram í lögunum þar sem segir: ,,Húsbréfadeild gerir tillögu til félagsmálaráðherra um verðtryggingarskilmála, endurgreiðsluform, lánstíma, vexti og heildarfjárhæðir í hverjum flokki. Ríkisstjórnin tekur ákvörðun um framangreind atriði að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands.`` Þetta er aðalatriðið.
    Sú fjárhæð sem um er rætt í fyrstu er talan 1700 millj., en þegar reynsla hefur fengist af máli þessu verður sú fjárhæð tekin til endurskoðunar vegna þess að reynslan ein getur leitt í ljós áhrifin af þessu máli. Þetta er eðlileg varkárnisregla í máli sem þessu þegar um verulegar fjárhæðir er að ræða sem geta haft áhrif á fjármagnsmarkaðinn því það er ekki ætlunin með þessu máli að raska neinu á okkar viðkvæma fjármagnsmarkaði heldur að hafa þar stjórn á málum.
    Mér sýnist að þetta sé alveg skýrt í frv. og nál., en að öðru leyti get ég vísað til þess sem hæstv. heilbrmrh. sagði hér í umræðum í nótt þegar hann gerði grein fyrir máli þessu af hálfu framsóknarmanna.